Hunangsflugur gegna lykilhlutverki í vistkerfum á landi og hefði brotthvarf þeirra afdrifaríkar afleiðingar fyrir mannkynið vegna hlutverks þeirra í frævun ýmissa nytjaplantna. Frævun gróðurs er ekki síður mikilvæg neðansjávar en þar til nýlega var talið það væru straumar hafsins sem sæju um hana. Niðurstöður rannsóknar sem birtar voru í Nature Communications lýsa áður óþekktu ferli frævunar í hafinu og afhjúpa „hunangsflugur“ hafsins.
Hinar svokölluðu „hunangsflugur“ hafsins eru auðvitað ekki eiginlegar hunangsflugur heldur er fremur um að ræða hóp lífvera sem gegna svipuðu hlutverki og hunangsflugur á landi. Þessar lífverur eru ýmist örsmá krabbadýr eða ormar sem gegna mikilvægu hlutverki í frævun sjávargrassins Thalassia testudinum.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarhópsins er ferlið merkilega líkt því sem þekkist hjá hunangsflugum. Sjávargrasinu vaxa blóm, líkt blómplöntum á þurru landi og gæða lífverurnar sér á frjókornum þess. Á meðan á máltíðinni stendur festist hluti frjókornanna á dýrin, þau flytja þau með sér á nýjar slóðir og hjálpa þannig til við að frjóvga sjávargrösin.
Fram að þessu hefur verið talið að frævun í hafi ætti sér aðeins stað með vatnsfrævun, það er að frjókorn berist með straumum hafsins á milli staðar, líkt og í vindfrævun á landi.
Í rannsókninni var aðeins ein tegund sjávargrass skoðað við tilraunaaðstæður því er óvíst hvort það sama eigi við um aðrar tegundir.
Sjávargras er gríðarlega mikilvægt í vistkerfum hafsins. Það bætir meðal annars gagnsæi vatns, stöðugleika stranglengja og geymir kolefni, auk þess sem það er mikilvæg fæða fyrir fjölmargar lífverur hafsins. Þessum mikilvæga gróðri fer í dag hratt fækkandi og má rekja ástæðuna til áhrifa manna, sér í lagi mengunar hafsins og afrennsli frá landbúnaði.
Hér að neðan má sjá „hunangsflugur hafsins“ að störfum: