Frakkar eru algjörlega ástfangnir af Íslandi. Fjölmargar auglýsingar í sjónvarpi eru gerðar í ótrúlegu íslensku landslagi. Hvort sem um er að ræði bíla eða farsíma og fleira mætti finna. Tískuhús Louis Vuitton notar meira að segja lunda í þema jólaskreytinga sinna í sýningargluggum fyrir þessi jól. Reyndar er Ísland svo vinsælt að hér sjást greinar í blöðum um hvort það sé að verða fórnarlamb velgengni sinnar í ferðamennsku. Nú síðast í dagblaðinu Le Figaro í síðustu viku. En Ísland átti ekki síður sitt ár hér í Frakklandi með þátttöku sinni í Evrópumeistarakeppninni í fótbolta, landsmenn féllu gjörsamlega fyrir þessu fótboltaliði frá eyjunni litlu hátt uppi á landakortinu.
Ekki var ákafinn minni hér í Nice þar sem nokkrir leikir á mótinu fóru fram og ekki síst sá allra merkilegasti fyrir Íslendinga, þegar England var slegið út úr í keppninni. Borgin var bókstaflega blá af stuðningsmönnum landsliðsins, í bolum, með trefla, andlitsmálningu og horn á höfði. Ekki nóg með það heldur voru tveir forsetar mættir, sá nýkjörni og hinn fráfarandi. Nice-búar voru heillaðir af framkomu Íslendinga sem voru eins og englar, bornir saman við Pólverja, Englendinga og Rússa sem alls staðar voru til ama. Ítalskur veitingamaður á vinsælum veitingastað í miðborginni, Portovenere, sagðist orðlaus eftir að hafa séð áttatíu Íslendinga klukkan tvö að nóttu fyrir utan kebabstað eftir sigurinn á Englendingum án þess að nokkur yrði þeirra var.
Margir Íslendingar uppgötvuðu sömuleiðis Nice í sumar þar sem í fyrsta skipti var hægt að fljúga beint frá Keflavík til Nice með WOW-air frá júní til septemberloka. Það var því ekki óalgengt að heyra talaða íslensku í miðborginni í sumar, nokkuð sem er alveg nýtt hér. En þá eru ekki allar óvæntar uppákomur taldar hvað varðar Ísland.
Milli jóla og nýars var nefnilega boðið í íslenskt síðdegissamkvæmi fyrir lítil og „stærri“ börn í mesta „trendý“ hverfi Nice sem kennt er við Bonaparte-götu. Það var veitingastaðurinn Bel œil (Fagurt auga), einstaklega skemmtilega innréttaður staður á Emmanuel Philiberti-götu, sem í samvinnu við konu frá Nice, Marion Herrera, sem hefur búið í tuttugu ár á Íslandi, buðu til þessarar samverustundar. Það verður að segjast eins og er að það er nokkuð sérstakt hér í borg, þar sem hægt er að telja Íslendinga á fingrum annarrar handar, að fara í eins konar íslenskt jólaboð og bragða á hangikjöti og laufabrauði. Marion spilaði á hörpu og systir hennar Anne-Lise Herrera á selló. Þær systur eru sömuleiðis stofnendur vinafélagsins Ísland-Korsíka og spiluðu þar síðasta sumar ásamt Ásgerði Júníusdóttur mezzósópran. Marion sem var flugmaður í tíu ár, meðal annars hjá Icelandair, er nú að reyna fyrir sér að nýju að tónlistinni. Þegar þær systur hófu dagskrána með Heyr himnasmiður var ekki laust við að íslensk augu hafi vöknað örlítið. Svo tóku við sögur af Grýlu og Jólakettinum með tilheyrandi lögum á milli eins og Það á að gefa börnum brauð og Jólaköttur Ingibjargar Þorbergs. Þar á eftir voru hinir íslensku jólasveinar kynntir og er óhætt að segja að þeir séu ólíkir þeim franska. Emmanuel, sonur Marion, söng um jólasveina sem ganga um gólf og svo fengu allir hangikjöt. Ekki frítt við smá heimþrá hjá Íslendingnum.