Berta Dröfn er klassísk söngkona, nýútskrifuð frá tónlistarháskóla á Ítalíu. Hún útskrifaðist með hæstu einkunn eftir tveggja ára mastersnám í ljóða- og óratoríusöng frá Conservatorio Monteverdi í Bolzano. Til að halda uppá góðan námsárangur mun Berta standa fyrir einsöngstónleikum í Salnum í Kópavogi, 5. janúar. Með henni á tónleikunum er Sigurður Helgi Oddsson píanóleikari og Nandllely Aguilar Peña fiðluleikari.
Hvenær byrjaðir þú að syngja?
Ég er ein af þeim sem var og er alltaf syngjandi. Raula þegar ég er utan við mig, syng hástöfum þegar ég er ein í bílnum og get gleymt mér sönglandi innan um fólk. Ég var 6 ára þegar ég byrjaði að syngja í barnakórnum í Grindavík og hef verið óstöðvandi síðan. Var virk í félagslífinu bæði í grunnskóla og menntaskóla: tók þátt í nemendasýningum og söngvakeppnum. Svo hóf ég nám við Söngskólann í Reykjavík þegar ég var 16 ára og hef verið þar meira og minna síðan, fyrst sem nemandi og svo sem starfsmaður.
Hvenær ákvaðstu að leggja fyrir þig söng?
Um áramótin 2010/2011 setti ég mér það áramótaheit að læra söng af fullum krafti. Áður var söngurinn bara áhugamál en áramótaheitið hljómaði þannig að ég ætlaði að gefa allt í að verða söngkona. Ég fann þörf fyrir að syngja, þar af leiðandi var þetta ekki lengur bara áhugamál heldur ástríða. Þetta er eitt af fáum áramótaheitum sem ég hef staðið við og sé sko ekki eftir því: að lifa og hrærast innan þessara mögnuðu listgreinar eru forréttindi sem ég nýt í botn.
Af hverju varð Ítalía fyrir valinu og hvaða reynslu færði það þér að læra söng erlendis?
Árið 2005, flutti ég til Flórens á Ítalíu, til að læra fatahönnun. Þar varð ég hreinlega ástfangin af landi og þjóð. Ég er mikill nautnaseggur - matur, listir, lifandi tónlist og falleg náttúra er það sem ég sækist mikið í. Þar af leiðandi er skiljanlegt að ég hafi fallið fyrir Ítalíu. Þegar kom svo að því að finna stað fyrir áframhaldandi nám eftir Burtfararprófið í söng hérna heima fór ég í könnunarleiðangur um Ítalíu. Bolzano varð fyrir valinu eftir ferðina en þar hitti ég söngkennarann minn, Sabinu von Walther, sem er þekkt ljóðasöngkona.
Það er mikil reynsla að fara í gegnum nám erlendis. Ég fékk líka mörg tækifæri til að koma fram, til dæmis: tók ég þátt í keppni í Scala óperunni; söng á tónleikum í höll í Montepulciano í Toscanahéraðinu; hélt einsöngstónleika í gömlum kastala uppí ítölsku ölpunum; tók þátt í óperu-uppfærslu með sinfóníuhljómsveitinni í Bolzano; söng einsöng í glæsilegum kirkjum í Bolzano, Merano og Rovereto. Einnig tók ég virkan þátt í nýlistahópnum innan skólans og kom víða fram með þeim sem einsöngvari.
Hvað er á döfinni hjá þér í tónlistinni?
Yfir jólin tók ég virkan þátt í kirkjunni hjá mömmu, en hún er sóknarpresturinn á Fáskrúðsfirði. Á nýju ári held ég sjálfstæða tónleika í Salnum í Kópavogi, til að fagna góðu gengi úr nýloknu námi. Tónleikarnir verða 5. janúar og þeir sem vilja styrkja mig til tónleikahalds eða nálgast miða er bent á söfnunarsíðuna á Karolina fund.
Í lok janúar fer ég aftur til Bolzano, til að syngja í messu eftir Mozart. Eftir það bíða mín fleiri ævintýri á Ítalíu, í Barcelona og í New York.
Ég er nýútskrifuð og er enn að móta minn söngferil - en þetta byrjar vel og ég er hrikalega spennt fyrir framhaldinu. Á þessum tímamótum í mínu lífi er ég fyrst og fremst stolt yfir því að hafa fylgt hjartanu. Ég hef farið „óhefðbundna“ leið og þar af leiðandi átt hrikalega skemmtilegt líf - og það er rétt að byrja!