Andrés Úlfur er mannfræðingur og er í augnablikinu að skrifa ævisögu langafa síns, teiknarans og málarans Tryggva Magnúsonar (1900-1960). Tilefni þessara skrifa er að gefa haldgóða innsýn inn í líf og feril teiknarans og málarans Tryggva Magnússonar. Nýverið voru opinberuð gögn sem voru í vörslu Þórdísar Tryggvadóttur, dóttur Tryggva, í meira en fjóra áratugi. Þetta er gríðarstórt safn frumteikninga eftir Tryggva sem eru talin í þúsundum og brúar það stærsta hluta ævi hans og mest allan starfsferil.
Í umfjölluninni um Tryggva Magnússon verður líf hans og ferill rakinn í máli og myndum þar sem stuðst verður við áður óbirt safn hans sem og áður útgefið efni. Þessi frumgögn sem í fyrsta skipti fá að líta dagsins ljós, gegna því veigamiklu hlutverki í allri umfjöllun og innsýn í líf málarans og eru þungavigtin í komandi skrifum um ævi og starfsferil listamannsins. Þetta voru miklir umbrotatímar í íslensku þjóðlífi. Þar fór mest fyrir sjálfstæðisbarátttu landans, sjálfsímyndasköpun nýfullvalda þjóðar og hvernig Íslendingar álítu sig menningarlega frábrugðna öðrum, sem þjóð með sameiginlegan uppruna og sögulega fortíð. Kjarninn hitti Andrés Úlf og tók hann tali.
Hver var Tryggvi Magnússon?
„Tryggvi Magnússon fæddist aldamótaárið 1900 og ólst upp á Ströndum í mikilli frásagnahefð í umhverfi sem var rómað fyrir galdra og galdrafár. Hann fór í Gagnfræðiskólann á Akureyri og fór svo til útlanda árin 1919-1923 í frekara nám í listum, til Danmerkur, Bandaríkjanna og Þýskalands. Tryggvi var alkominn heim 1923 og hóf hann þá sinn feril sem teiknari. Hann Tryggvi er oft talinn vera fyrsti teiknarinn á Íslandi sem hafði atvinnu sem slíkur. Hann var brautriðjandi í skop og auglýsingateiknun, sem átti þann draum að vera málari.“
Er eitthvað einkennandi við listina hans?
„Þegar hann var ungur að þá var nánast ekkert myndmál í bókum. Hann var mjög upptekinn af hetjum Íslendingasagnanna, þar sem var að finna gríðarlega greinargóðar lýsingar á bæði þjóðsagnapersónum og þeirra umhverfi, en án myndmáls. Hann var fyrst og fremst teiknari sem varð meistari í að setja mynd við mál. Hann var líka fær málari, en fékk aldrei viðurkenningu sem slíkur og hafa þeir tímar sem hann var hluti af eflaust eitthvað með það að gera.”
Hver eru hans þekktustu verk?
„Því miður er Tryggvi einn af mörgum listamönnum fortíðarinnar sem er eiginlega gleymdur og grafinn. Þetta er frekar erfið spurning, því í gamla daga var hann eflaust þekktastur fyrir myndskreytingar sínar í bækur og fyrir teikningar sínar í skopádeiluritinu Speglinum. Í dag er hann eflaust þekktastur fyrir að hafa teiknað núgildandi skjaldarmerki Íslands.”
Hvar birtust helst verkin hans?
„Tryggvi var gríðarlega afkastamikill listamaður og var hann fenginn í að teikna allt sem fólki dátt í hug á þessum tíma. Hann myndskreytti tugi barna- og ævintýrabóka. Hann var ritstjóri og aðal teiknari skopádeilublaðsins Spegilsins í yfir tuttugu ár. Hann var einn af þeim merku listamönnum sem tók þátt í að hanna og myndskreyta allt fyrir Alþingishátíðina 1930. Hann teiknaði jólasveinana með ljóðum Jóhannesar úr Kötlum. Tryggvi var fyrsti auglýsingateiknari Rafskinnu árin 1935-1945 og árið 1944 var teikning hans af landvættunum viðurkennd sem opinbert skjaldarmerki lýðveldis Íslands. Þessi upptalning er alls ekki tæmandi og verður það talsverð áskorun að koma því öllu fyrir í einni bók.“
Ef það er einhver þarna úti sem býr yfir einhverjum fróðleik um Tryggva og vill deila honum með höfund er bent að netfangið skjaldarmerkið@gmail.com.
Í augnabliknu er staðið fyrir fjáröflun hjá Karolinafund svo að ævisagan um þennan stórbrotna listamann verði að veruleika. „Ég bið auðvitað alla listaunnendur og alla þá sem vettlingi geta valdið að taka þátt.“