Kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar í Frakklandi er nú komin á fulla ferð. Frambjóðendur eru ellefu, langt frá metinu frá 2002 þegar þeir voru sextán. Fjármál François Fillon hafi þó vakið mesta athygli og dálítið skyggt á umræður um stefnur hinna ólíku frambjóðenda. Á dögunum var Fillon ákærður fyrir misnotkun á almannafé og fyrir misbeitingu áhrifa en það er í fyrsta skiptið sem forsetaframbjóðandi stendur í slíku í miðri kosningabaráttu. Nýlega bárust af því fregnir að rannsakendur hefðu fundið skjöl undirrituð af Penelope Fillon sem áttu að sanna raunverulega vinnu hennar en sem eru líkleg ný.
Sífellt fleiri mál skjóta upp kollinum í kringum Fillon. Þegar fjárhagsleg og eignarstaða allra frambjóðendanna var kynnt í vikunni kom í ljós að Marie, dóttir Fillons, sem talin er hafa verið á launum hjá föður sínum þegar hann var öldungadeildarþingmaður, eins og bróðir hennar, án þess að leysa af hendi nokkra vinnu, lánaði föður sínum 30.000 evrur á síðasta ári til að borga skatta.
Einnig hefur komið í ljós að hún greiddi föður sínum fyrir nokkru 35.000 evrur og sagðist hafa verið að endurgreiða hluta af kostnaði við brúðkaup sitt sem var 50.000 evrur. Trúi hver sem vill. Það hlýtur að koma á óvart að maður sem býr á óðalssetri sem kostar yfir milljón evrur og með tekjur eins François Fillon borgi ekki brúðkaup dóttur sinnar, eins og oft er gert, ekki síst hjá klassískum kaþólikkum eins og Fillon-fjölskyldunni.
Fillon viðurkenndi í vinsælasta stjórnmálaþætti sjónvarpsins í gær að það hefðu verið mistök að þiggja fatagjafir frá ríkum vini upp á nærri 50.000 evrur og lofar að þeim verði skilað. Allt vekur þetta spurningar um hvernig slíkur maður eigi eftir að taka sjálfstæðar ákvarðanir með almannahagsmuni að leiðarljósi þegar fjársterkir aðilar geta beitt hann þrýstingi vegna gjafa.
Í sjónvarpsþættinum í gær sakaði François Fillon, forsetann François Hollande um að hafa sett á fót eins konar leynisellu í Elysée-höll til að leka upplýsingum úr dómskerfinu í því skyni að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína, eins og Fillon. Þar vitnaði hann í nýja bók sem er væntanleg en áður en þættinum lauk hafði annar höfundur bókarinnar borið þær ásakanir til baka. Sagði það fjarstæðu að Hollande læki upplýsingum, og fullyrti að engin leynisella væri í forsetahöllinni. Þetta væri hrein firra. Líklega sýna þessi ummæli Fillons hversu vonlaus vörn hans er orðin, vörn fyrir óverjanlegan málstað.
Margir í flokki Repúblikana, flokki Fillons, segja nærri ófært að stunda kosningabaráttu fyrir hann þar sem fótgönguliðarnir sem dreifa bæklingum á mörkuðum og víðar fær yfir sig móðganir og háðsslettur hvar sem þeir fara. Til dæmis snertir fólk á götum úti föt sjálfboðaliðanna án þess að segja orð, sem á að gefa í skyn hversu dýr þau séu, allt vísun í fatagjafirnar.
Kosningamiðstöð Fillon líkist draugahúsi og mikilvægir flokksmenn lýsa yfir stuðningi við Emmanuel Macron, frambjóðanda „Á Hreyfingu“ sem eru samtök utan flokka. Tveir fyrrum ráðherrar frá Chirac tímanum lýstu yfir stuðningi við Macron í vikunni og einn öldungadeildarþingmaður er kominn yfir til hans.
Annað sem vakti athygli í gær voru ummæli Fillons um að síðan fjölmiðlar hafi orðið yfirfullir af fréttum af málum hans hafi hann oft hugsað um Pierre Bérégovoy síðustu misseri. Pierre Bérégovoy var forsætisráðherra François Mitterand 1993 og fyrirfór sér vegna láns. Þetta hefur verið túlkað sem óbein hótun af hálfu Fillons um að hann hafi hugleitt sjálfsvíg. Þykir hann hafa gengið nokkuð langt í sjálfsvorkunn.
Emmanuel Macron er nú farinn fram úr Marine Le Pen, populistaframbjóðanda Þjóðernisfylkingarinnar í skoðanakönnunum 26/24,5 prósent. Fillon er langt á eftir með 17 prósent og nær, samkvæmt því, ekki í aðra umferðina 23. apríl þegar fyrri umferðin fer fram.
Repúblikanar reyna að standa saman en margir hljóta þó að blóta Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseta og flokksformanni. Talið er að hann hafi komið í veg fyrir að flokkurinn setti Fillon af í byrjun mars og byði fram Alain Juppé, borgarstjóra Bordeaux, í staðinn en hann var annar í forvali flokksins í nóvember. Juppé var tilbúinn að fara fram en einungis ef allir stæðu að baki honum. Stuðningurinn var heldur máttlítill að hálfu Sarkozys og því hætti Juppé við og Fillon sat áfram. Engin annar varamaður var á áætlun.
Annar frambjóðandi hinna stóru hefðbundnu flokka í Frakklandi á einnig í erfiðleikum. Benôit Hamon, frambjóðandi Sósílistaflokks Hollandes, á í erfiðleikum með að ná til eyrna kjósenda og er nú kominn í fimmta sætið í skoðanakönnunum. Forsetinn hefur ekki lýst yfir stuðingi við hann en Hamon mótmælti oft og mikið á kjörtímabilinu sem er að líða og þar liggur hundurinn grafinn. Þess vegna eru margir sem ekki styðja hann. Þeir kenna Hamon og hinum þingmönnunum, sem fóru gegn forseta og ríkisstjórn, um að hafa spillt fyrir Hollande. Einnig telja þeir að Macron sé sá eini sem geti komið í veg fyrir að Marine Le Pen verði kosin. Hamon er nú á eftir Jean-Luc Melanchon sem er frambjóðandi hjá „Óundirgefnu Frakklandi“ La France insoumi sem er lengra til vinstri.
Auk ráðherranna hefur fjöldi þingmanna og áhrifamanna í Sósíalistaflokknum fært sig til Macrons sem hefur mikið aðdráttarafl, aðeins 39 ára gamall, og hefur aldrei verið kosinn í eitt né neitt áður sem er merkilegt því hér í Frakklandi eru það oftast langreyndir jaxlar með þrjátíu ára stjórnmálaferil að baki sem bjóða sig fram í æðsta embætti lýðveldisins.
Verði niðurstaðan sú að Macron og Le Pen mætist í annarri umferð 7. maí yrði það sögulegt. Ekki aðeins sökum aldurs framjóðandanna, þar sem Marine Le Pen er 48 ára, heldur einnig vegna þess að stóru flokkarnir til hægri og vinstri munu ekki eiga frambjóðanda í úrslitum og eru því útilokaðir frá forsetastóli í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins.