Blómkollur er nýstofnað fyrirtæki af myndlistarmanninum Sigríði Soffíu Hafliðadóttur en hún starfar kórstjóri og Ragnari Pálmari Kristjánssyni, hönnuði og athafnamanni. Markmið Blómkolls er að bjóða upp á vandaðar hágæða vörur með umhverfisvæna gæðavottun sem stuðla að aukinni slökun þar sem hönnun og notagildi fara saman.
Fyrsta vara Blómkolls eru 400 þráða satín rúmföt sem væntanleg eru síðla sumars. Sigríður Soffía, eða Sigga Soffía eins og hún er oftast kölluð hefur lengi leitað í myndlistina sem leið til aukinnar slökunar en mandalan sem prýðir rúmfötin saman stendur af vatnslitaðri flóru Íslands og er ætlað að leiða til aukinnar slökunar. Ragnar Pálmar hefur séð um vöruþróun og hönnun. Við spurðum Siggu Soffíu nokkurra spurninga.
Hvernig vaknaði hugmyndin að þessu verkefni?
„Ég hafði lengi séð myndirnar mínar fyrir mér á fallegum vörum sem myndu stuðla að aukinni slökun. Sjálf hef ég fundið fyrir kvíða og mín leið í átt að bata hefur til dæmis verið fólgin í því að teikna og mála. Hugmyndin að rúmfatalínunni kom til mín í hreiðurgerðinni fyrir komu frumburðarins og ákvað að láta þennan gamla draum verða að veruleika. Við Ragnar fórum að skoða möguleikann á ungbarnarúmfatalínu en vegna gríðarlegrar eftirspurnar ákváðum við að bjóða einnig uppá fullorðinssett. Ferlið er búið að vera langt og strangt, við höfum prufað ótal efni og niðurstaðan varð sú að við munum bjóða upp á 100% 400 þráða satín bómull með oeko-tex gæðavottun.“
Hvað er heilunarkraftur mandölunnar og hvernig tengist hann sköpuninni?
„Ég hef heillast af mandöluforminu í langan tíma. Eftir að hafa kynnt mér þetta dáleiðandi, samhverfa form sá ég hversu merkingamikill táknheimur hennar var og heillaðist. Mandölur hafa verið til í mörg þúsund ár. Orðið mandala er sanskrít og þýðir hringur, marghyrningur, samfélag og tengsl. Mandala getur bæði táknað sýnilega heiminn í kringum okkur og þann ósýnilega heim sem býr innra með okkur. Upphaf mandölunnar er í miðju hennar, heildin sameinast í kring um miðju/kjarna mandölunnar sem síðar verður að einni heild. Þetta hringlaga listaverk kemur úr tíbetskum búddisma og hefur til dæmis verið notað við helgiathafnir og hugleiðslu.
Allar þessar mandöluteikningar sem ég hef verið að tekna undanfarin ár hafa verið mín persónulega hugleiðsluaðferð, ég róast við þá gjörð að teikna og svo finnst mér þetta hringlaga, mynstraða og litríka mandöluform róandi. Ásamt því að teikna mandölur langaði mig til að prufa vatnslitina og fór að mála þær íslensku plöntur sem mér þóttu fallegar, fljótlega fann ég þessu sameiginlegan farveg svo úr varð flórumandölumyndirnar.“
Hvað bjóðið þið í staðinn fyrir að heita á verkefnið ykkar?
„Hópfjáröflunin gengur ótrúlega vel inná Karolina fund síðunni getur fólk tryggt sér rúmföt á hagstæðu verði. Fólk getur valið um allskyns pakka. Frá einu ungbarnasetti yfir í BOMBUNA en þá tryggir einstaklingurinn sér tvö ungbarnasett, tvö fullorðinssett, innrammaða mandölumynd að eigin vali í stærð 50cm x 50cm teiknaða af mér. Að auki fær hann/hún fjóra einkatíma í söng og auðvitað boð í útgáfuteiti þegar sængurverasettin koma.“