Á dögunum kom ég heim til tengdaforeldra minna í vesturbæ Kópavogs og settist niður við eldhúsborðið. Á sama tíma kom tengdapabbi, Þórarinn Hjaltason, labbandi inn í stofu, settist í stofusófann og sagði: „Jæja, nú er ég hættur.“
Langri starfsævi lokið (og upphafið að nýrri að byrja, geri ég ráð fyrir), enda aðeins nokkrir mánuðir í sjötugsafmælið.
Þetta fannst mér merkileg tímamót.
Ferill Þórarins, eins og annarra Íslendinga af sömu kynslóð, hefur markast af gríðarlega miklum breytingum og framförum, sem hollt er að gefa sér tíma til að hugsa um og staðsetja eins og púsl í stóra mynd samtímans og framtíðarinnar. Náms- og starfstíminn spannar undanfarin 50 ár.
Eftir mörg löng samtöl okkar á milli á undanförnum árum var ég löngu búinn að gera mér grein fyrir því, að á einhverjum tímapunkti væri gaman að setjast niður og taka viðtal við Þórarin og huga þá einkum að framtíðinni.
Í bíltúrum í gegnum tíðina hefur honum yfirleitt liðið best, þegar við erum í þann mund að villast. Þá tekur sérfræðiþekking á umferðarskipulagi við og náttúrulegur áttaviti finnur hina réttu leið.
Í viðtalinu ákvað ég að ræða um hlutina út frá eftirfarandi spurningu: Hvað er að fara taka við? Stórt er spurt, en það var ekki fátt um svör, heldur margt og mikið.
Þórarinn heldur því fram að tæknibylting sé framundan sem muni hafa jafn mikil eða svipuð efnahagsleg áhrif og tilkoma einkabílsins fyrir almenning fyrir rúmri öld. Kjarni hinnar komandi byltingar snýr að notkun gervigreindar, og þá ekki síst í umferðinni, sem alla tíð hefur verið hans ær og kýr.
Cambridge, Kaupmannahöfn, Durham
Árið 1967 útskrifast Þórarinn úr MR, og var dúx úr skólanum. Í framhaldi fór hann á skólastyrk í nám í verkfræði við Cambridge háskóla í Bretlandi og lauk þaðan BS prófi.
Eftir námið í Cambridge byrjaði hann að starfa hjá Gatnamálastjóranum í Reykjavík við gatnahönnun. Árið 1974 fékk hann vinnu hjá Þróunarstofnun Reykjavíkurborgar (síðar Borgarskipulag) við umferðarskipulag. Um haustið 1977 fór hann til Danmerkur og hóf nám í umferðarverkfræði við DTH (Danmarks tekniske höjskole, síðar Danmarks tekniske universitet) í Kaupmannahöfn. Hann lauk þaðan meistaranámi (Cand. Polyt.) í umferðarverkfræði 1979. Eftir áratuga vinnu sem verkfræðingur, meðal annars hjá Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ, fór hann síðan í MBA nám við Durham háskóla í Bretlandi, á árunum 2004 til 2005. Eftir það hóf hann störf hjá Almennu verkfræðistofunni, sem nú er hluti af Verkís, og lauk þar störfum á dögunum, eins og að framan er greint.
Hér er stiklað á stóru, en aðeins til undirstrika hvaðan horft er til framtíðar í viðtalinu.
Þú hefur verið að halda því fram í mín eyru að gríðarlegar breytingar séu framundan, ekki síst þegar kemur að umferð og skipulagi vegna tækniframfara í bílaiðnaði. Gervigreindin er þarna lykilstærð. Hvernig sjáum við þetta birtast á Íslandi?
„Árið 2007 fól Vegagerðin Almennu verkfræðistofunni að gera úttekt á stofnvegakerfi höfuðborgarsvæðisins. M.a. var horft á mögulega þróun umferðar til langs tíma (2050+) og hvernig mætti hugsa sér uppbyggingu stofnvegakerfisins miðað við hinar ýmsu forsendur. Ég var verkefnastjóri og var verkið unnið í samráði við Vegagerðina og tæknimenn sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Öllum sem komu að þessu verkefni var ljóst að mikil óvissa væri í umferðarspám svona langt fram í tímann, m.a. vegna óvissu um skipulagsforsendur og tækniframfarir á sviði samgangna. Í stuttu máli þá benti umferðarspá 2050+ til þess að ráðast þyrfti í kostnaðarsama uppbyggingu á stofnvegakerfi höfuðborgarsvæðisins í framtíðinni,“ sagði Þórarinn.
Erfitt að sjá það fyrir sem hefur gerst
Hann segir ótrúlegar breytingar hafa átt sér stað, á einungis nokkrum árum, sem erfitt var að sjá fyrir. „Þegar þessi úttekt á stofnvegakerfi höfuðborgarsvæðisins var gerð fyrir 10 árum voru sjálfkeyrandi bílar komnir inn í umræðuna um samgöngur framtíðarinnar. Hins vegar var þá talið að það væri það langt í að þessi tækni yrði að veruleika að ekki þótti ástæða til að taka mikið tillit til hennar við stefnumörkun í samgöngumálum. Á þeim tíma gerðu menn sér heldur ekki grein fyrir þeirri tæknibyltingu sem nú er ljóst að er framundan. Fyrir 10 árum gengu hugmyndir um sjálfkeyrandi bíla meira út á að notast yrði við leiðara í veginum til að stýra bílunum. Þegar maður las eða heyrði fréttir um spádóma í þessum efnum þá virkaði þetta dálítið eins og vísindaskáldskapur.
Í dag er komin upp allt önnur staða. Tækniþróun, einkum á sviði gervigreindar, hefur verið það hröð á síðustu árum að sjálfkeyrandi bílar eru orðnir að veruleika. T.d. má nefna sjálfkeyrandi bíla, sem Google og Tesla hafa gert tilraunir með, og fleiri framleiðendur einnig. Mannshöndin þarf ekki að koma nálægt stjórntækjum bílanna, en það þarf samt að hafa ökumann með gild réttindi í „bílstjórasætinu“, þar sem slíkt er ennþá krafa samkvæmt bandarískum lögum. Ég hef lesið fjölda greina og aflað heimilda um sjálfkeyrandi bíla. Mér sýnist flestir sem hafa vit á þessum málum vera sammála um að sjálfkeyrandi bílar munu verða sífellt stærri hluti af bílaumferð á næstu árum og áratugum. Spurningin er bara hvenær komi að því að allir/flestallir bílar verði sjálfkeyrandi. Um það er erfitt að spá og því eðlilegt að menn hafi mismunandi hugmyndir um það.“
Hliðaráhrifin af þessari tæknibyltingu verður aukið öryggi í umferðinni. Er ekki líklegt að hliðaráhrifin verði gríðarlega mikil, á hina ýmsu anga í samfélagi okkar?
„Tilkoma sjálfkeyrandi bíla verður gríðarleg tæknibylting. Sumir telja að þetta verði álíka mikil bylting og tilkoma einkabílsins fyrir rúmri öld. Sjálfkeyrandi bílar eru nú þegar margfalt öruggari en venjulegir bílar. Sú þróun hlýtur að halda áfram. Þegar allir bílar verða orðnir sjálfkeyrandi munu dauðaslys og alvarleg meiðsl í umferðinni nánast heyra sögunni til. Þó að umferðarslysum fari fækkandi þá eru þau enn þungur baggi á samfélagi manna, bæði efnahagslega og tilfinningalega. Á hverju ári deyja um ein milljón manns í umferðarslysum. Þegar líkur á að sjálfkeyrandi bílar lendi í árekstri verða hverfandi, þá er hægt að hafa þá miklu léttari þar sem ekki er þörf á sterkbyggðum árekstravörnum. Það þýðir að bílar framtíðarinnar verða að öðru jöfnu mun eyðslugrennri en sambærilegir bílar í dag. Ofan á þetta bætist stöðug þróun á bættri nýtingu orkugjafa. Ég trúi því að rafbílar verði bílar framtíðarinnar. Nýlega tilkynnti Volvo að eftir 10 ár muni fyrirtækið eingöngu framleiða rafbíla, til að byrja með 1 milljón bíla á ári. Ég tel fullvíst að eftir nokkra áratugi verði bílar miklu umhverfisvænni en í dag,“ sagði Þórarinn.
Umferðarteppur og margfalt meiri afköst
Þórarinn telur eitt það áhugaverðasta við þessa þróun snúa að vegakerfinu, og hvernig það muni þróast á næstu árum og áratugum. „Eftir því sem sjálfkeyrandi bílum fjölgar mun flutningsgeta vega aukast jafnt og þétt. Skýringin er einföld: þeir geta ekið miklu nær öðrum bílum á mikilli ferð, vegna þess að bíll sem er stjórnað með gervigreind bregst nánast samstundis við, þegar bíll fyrir framan hægir á sér. Það þarf aðeins 1 sjálfkeyrandi bíl af 20 bílum til þess að hafa jákvæð áhrif á umferðarflæði, samkvæmt rannsókum verkfræðideildar háskólans í Illinois. Það sem mér finnst athyglisverðast er að þarna er verið að spá því að á næstu árum verði framfarir í rannsóknum á bættu umferðarflæði/afkastagetu vega með tiltölulega fáum sjálfkeyrandi bílum. Þegar allir bílar verða orðnir sjálfkeyrandi, þá getur flutningsgeta hraðbrauta margfaldast frá því sem er í dag. Þetta gerist væntanlega í áföngum með því að sjálfkeyrandi bílar fá úthlutað sérakreinum og/eða sérgötum, þegar þeir verða orðnir nógu stór hluti af bílaflotanum,“ sagði Þórarinn.
Einkabílum fækkar
Í þessu samhengi vaknar spurningin hvort sjálfkeyrandi bílar verði lykillinn að því að leysa umferðarteppur milljónaborganna. Þórarinn segir að það sé ekki svo auðvelt að svara því. „Fyrir utan það að enginn veit nákvæmlega hvað framtíðin ber í skauti sér, þá hlýtur svarið við spurningunni að vera mjög háð aðstæðum á hverjum stað. Eitt af því sem flækir svarið er að hugsanlega munu umferðarteppur aukast tímabundið á a.m.k. sumum borgarsvæðum við það að bílaumferðin eykst vegna þess að fleiri fá tækifæri til að aka bíl, t.d. öryrkjar sem ekki geta fengið ökuréttindi í dag eða aldraðir sem ekki treysta sér að aka venjulegum bíl. Á móti þessu kemur að samnýting á bílum mun aukast. Fyrirtæki (Uber o.fl.) sem hafa komið inn á leigubílamarkaðinn á síðustu árum stefna að því að bjóða upp á sjálfkeyrandi bíla sem geta auðveldlega sinnt nokkrum viðskiptavinum í sömu ferð. Viðskiptavinum sem panta bíl á svipuðum tíma til að fara frá svæði A til svæðis B er sinnt í einni og sömu ferðinni. Í slíkum tilvikum verður miklu ódýrara að taka leigubíla en í dag. Fyrir utan það að spara laun bílstjóra þá skipta nokkrir viðskiptavinir á milli sín kostnaðinum við aksturinn. Þetta er auðvitað kjörin leið fyrir samakstur til og frá vinnu (carpooling). Ég er sammála þeim sem spá því að þetta muni leiða til töluverðrar fækkunar einkabíla þar sem bílaeign er mikil í dag,“ sagði Þórarinn.
Meiri þétting í borgum
Hvaða áhrif mun þessi þróun hafa á skipulag borga? Þórarinn segist líta svo á, að mörg ný álitamál muni koma upp sem taka þurfi tillit til í skipulagi fyrir næstu áratugi. „Ef spádómar um minni bílaeign og fækkun bílastæða ganga eftir, þá mun það stuðla að meiri þéttingu miðborga, sérstaklega í milljónaborgum sem eru bílaborgir, eins og t.d. Los Angeles. Þétting miðborgarsvæða kallar á aukningu bílaumferðar. Þá vaknar spurningin um hver verða heildaráhrifin. Mun aukin bílaumferð vegna þéttingu byggðar éta upp ávinningin af aukinni flutningsgetu gatna? Eflaust verður það þannig í einhverjum tilvikum. Með vegtollum má stýra bæði sólarhringsumferð og umferð á álagstíma með því að taka hærra gjald á álagstíma. Þetta er gert á mörgum borgarsvæðum í dag, sérstaklega í milljónaborgum. Vegtollar eru hins vegar umdeildir og hápólitískt mál, sbr. nýlega umræðu hér á landi, og ekki sjálfgefið fyrir fram að unnt verði í öllum tilvikum að stýra umferðarmagni á sem hagkvæmastan hátt.“
Einn þeirra sem Þórarinn segir að sé með einna skörpustu sýnina á breytingarnar sem muni verða í umferðarmálum á næstunni, er Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla Motors. Musk telur að unnt sé að leysa umferðarvandamál Los Angeles með því að bora kerfi jarðgangna undir borgina, sem verði 10 sinnum ódýrari en hefðbundin jarðgöng. Jarðgöngin verði notuð til að flytja bíla á allt að 200 km/klst.
Að sögn Musks hefur fyrirtæki hans, The Boring Company, lokið gerð 1. áfanga jarðgangnanna, sem er tilraunakafli.
Þórarinn segir að þessi sýn Musks sé ekki neinn vísindaskáldskapur heldur veruleikinn eins og hann blasir við í dag.
Hann segir augljóst, að stjórnmálamenn og aðrir, sem hafa áhrif á innviði landsins þegar að þessari þróun kemur, þurfi að setja sig inn í málin og skilja hvað sé að gerast. „Sumir hafa bent á að sjálfkeyrandi bílar muni leiða til enn frekari útþenslu borgarsvæða. Þegar fólk þarf ekki lengur að vera upptekið af því að stjórna bílnum á leið til og frá vinnu getur það nýtt tímann til að vinna á leiðinni, svipað og sumir nýta sér í strætó og lestum. Minni orkunotkun á hvern ekinn kílómetra mun líka stuðla að sömu þróun. Spurningin er í hve miklum mæli þetta mun gerast. Þetta minnir mig á að þétting byggðar getur ein og sér haft sömu áhrif, einfaldlega vegna hækkandi fasteignaverðs. Sama gildir um lóðaskort á vinsælum svæðum. Í þessu sambandi má benda á þá þróun hér á suðvesturhorninu að íbúum á Suðurnesjum og fyrir austan fjall fer núna hratt fjölgandi, m.a. vegna hækkandi fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Þá vaknar spurningin um hvort þetta sé endilega slæm þróun. Í því sambandi dettur mér í hug skipulag stór-Barcelonasvæðisins á Spáni. Íbúafjöldi Barcelona er um 1,6 milljón. Umferðin í Barcelona þykir til fyrirmyndar. Tiltölulega fleiri nýta almenningssamgöngur í Barcelona heldur en í London þar sem íbúafjöldi er um 8 milljónir. Þéttleiki byggðar er meiri í Barcelona heldur en í London, um 16.000 íbúar á hvern km2, samanborið við um 5.200 íbúa á km2 í London. Ef við lítum á stór-Barcelonasvæðið verður annað upp á teningnum. Á rúmlega 4.200 km2 svæði búa um 5,3 milljónir íbúa eða um 1.260 íbúar á km2. Á þessu svæði nýta færri almenningssamgöngur en í London. Rétt er að geta þess að samanburðurinn verður ekki eins óhagstæður fyrir stór-Barcelonasvæðið ef það er borið saman við stór-Londonsvæðið. Þar búa um 14,5 milljónir íbúa á 8.382 km2 eða um 1.730 íbúar á km2.“
Stórkostleg tæknibylting
Ef við færum okkur nú hingað til Íslands. Hver gætu áhrif sjálfkeyrandi bíla orðið, t.d. á höfuðborgarsvæðinu?
„Ef við lítum á framtíð höfuðborgarsvæðisins, þá tel ég að sjálfkeyrandi bílar verði mun hagkvæmari hér heldur en almennt erlendis. Í fyrsta lagi er höfuðborgarsvæðið tiltölulega fámennt borgarsvæði, þar sem flestir fullorðnir nota bíl nú þegar. Höfuðborgarsvæðið er bílaborg, í þeim skilningi. Hlutur strætó er innan við 5 % af öllum ferðum með vélknúnum farartækjum. Þó umferð á álagstímum hér sé töluverð þá er hún mun minni en í erlendum milljónaborgum og álagstíminn mun styttri. Eins og ég gat um áðan þá er hugsanlegt að tilkoma sjálfkeyrandi bíla auki umferðarálag tímabundið til að byrja með. Tímabundin aukning á umferð verður tiltölulega lítil miðað við milljónaborgir, þar sem hlutur almenningssamgöngukerfis er mun meiri en hér. Það verða því tiltölulega fáir hér á höfuðborgarsvæðinu sem munu fara að nota fólksbíl í stað strætó. Ég spái því að meirihluti þeirra sem munu hætta að nota strætó muni nota sjálfkeyrandi leigubíla og gjarnan samnýta þá með öðrum. Ef horft er til lengri framtíðar hér, t.d. 2060+, þá tel ég að uppbygging stofnvegakerfis, sem getur tryggt frjálst, öruggt og umhverfisvænt flæði bílaumferðar á höfuðborgarsvæðinu, verði tiltölulega ódýr.
En hvað með önnur svið mannlífsins, þegar kemur að gervigreind og meiri sjálfvirkni?
„Hér hef ég fyrst og fremst verið að velta fyrir mér framtíðinni á því sviði sem ég þekki best, þ.e. umferð og skipulag. Hvað með önnur svið? Ég hef ekki kynnt mér neitt að ráði spádóma um væntanlegar tæknibyltingar á öðrum sviðum. Það litla sem ég hef kynnt mér um þróun vélmenna (robota) og gervigreindar hefur þó sannfært mig um að fram undan er stórkostleg tæknibylting á mörgum sviðum. Nýlega var frétt um það að vélmenni gætu í dag framkvæmt skurðaðgerðir á mannsheila. Þetta segir manni það að tölvur og vélmenni með gervigreind munu yfirtaka eða í það minnsta auðvelda mikið af þeim störfum sem fólk vinnur við í dag. Þessi þróun hlýtur að leiða til verulegrar styttingar á vinnuviku. Það mun að öðru jöfnu leiða til verulegrar minnkunar á umferð milli heimila og vinnustaða. Fjarvinna, þ.e. vinna á heimili í gegnum tölvu, mun aukast enn frekar og hafa sömu áhrif. Aftur á móti munu ferðir vegna áhugamála o.fl. aukast. Ég treysti mér ekki til að spá af neinu viti um það hver heildaráhrifin á umferðarmagn verða. Ég segi bara eins og danski háðfuglinn Storm P. sagði: Það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina. Ég tel að mannkynið hljóti að stefna áfram að sjálfbærni. Í viðtali við Elon Musk (tengill í viðtalinu) kemur hann inn á það. Hann sér t.d. fyrir sér að húsaþök framtíðarinnar verði sólarsellur úr gleri. Mannkynið verði þó að halda vöku sinni, annars geti tækniþekking glatast. Sem dæmi um glataða tækniþekkingu nefnir hann byggingu pýramídanna í Egyptalandi og vatnsleiðslur Rómverja,“ sagði Þórarinn að lokum.