Textinn sem hér fylgir er brot úr bókinni (Þjóðar)sálinni hans Jóns míns eftir Birki Blæ Ingólfsson, sem kemur út hjá forlaginu Partusi 2. september 2017.
Spaugilegasta fígúran úr íslenskum sagnaarfi er ábyggilega konan hans Jóns míns sem gekk upp til himnaríkis með sál eiginmannsins í skjóðu til þess að svindla honum sálugum inn í Paradís, móðgaði alla dýrlingana í forbífarten og sagði Maríu mey að hún væri flekuð drusla, takk fyrir pent, og þegar Jesús Kristur kom í eigin persónu í dyragættina að biðja hana af sinni hátíðlegu nærgætni að snáfa, þá gerði hún sér lítið fyrir og slöngvaði sálinni hans Jóns fram hjá Jesú og inn fyrir dyrnar, líkt og mannssonurinn væri markmaður í tapliði í Pepsídeildinni.
Svo gaf hún öllum langt nef, sér í lagi almættinu.
Sem sagt.
Afdalakerling úr íslenskum uppsveitum gengur til himna og kennir Drottni eftirfarandi lexíu: það lokar enginn hliðum himnaríkis fyrir íslenskum kotbónda, jafnvel þó sá hafi verið „ódæll og illa þokkaður og þar að auki latur og ónýtur á heimili sínu,“ með öðrum orðum: vonlaust eintak sem átti ekkert erindi inn í himnaríki.
Það er eitthvað sérkennilega íslenskt við þetta.
Það er eitthvað sérkennilega íslenskt við Leifsstöð. Persónulega þykir mér þetta prýðileg flugstöð og það finnst reyndar fleirum því hún hefur ítrekað verið valin ein sú besta í Evrópu. Síðast þegar ég fór í gegn rakst ég á flennistóran auglýsingarhlemm sem þakti heilan vegg með áletrun í æpandi stríðsletri: „One of the best“ eða „meðal þeirra bestu.“ Það mátti greinilega ekki fara fram hjá neinum hvað Leifsstöð er best og Ísland frábært.
Mér var sjálfum eitt sinn boðið í fertugsafmæli lögfræðings sem hafði prentað á boðskortið mynd af tveimur gullmedalíum sem hann fékk fyrir að hlaupa maraþon í útlöndum. Hann hefði eins getað skrifað, ég vil bjóða þér að gleðjast með mér, fagnaðarefnið er ég og ekki gleyma því hvað ég er frábær. Ég man þetta enn því mér fannst þetta svo óviðeigandi, en síðar meir fékk ég á tilfinninguna að hér hefði maður séð minnimáttarkennd berum augum, honum hefði óvart tekist að prenta hana á boðskortið.
Allt um það. Þar sem ég gekk nýlega fram hjá skiltunum í Leifsstöð varð þemað fljótt augljóst. Fyrst var það tilkomumikil mynd af íslenskri náttúru: „Hver þarf kol ef hann á eld? Velkomin til lands endurnýtanlegra orkugjafa,“ í boði Landsvirkjunar. Næst voru það norðurljós eða snjókoma eða eitthvað í þeim dúr, og yfir öllu stóð: „Upplifðu Ísland – stórbrotin náttúra er innblástur fyrir framleiðslu af ýmsu tagi“ og þannig áfram. Flestar gerðu auglýsingarnar út á Ísland eða íslensku þjóðina eða náttúruna eða sérstöðu Íslendinga. Rekstrarstjórnin hafði sem sagt séð ástæðu til að veggfóðra flugstöðina innanverða með lofgjörð um landið.
Flaggskipið í Leifsstöð var skyr-auglýsingin, hún sat að minnsta kosti lengst í mér, baklýst auglýsingaskilti með mynd af tveimur fallegum konum, blár himinn í baksýn, hrein náttúra, og undir stóð: „Skyr, leyndarmálið á bak við heilbrigði Íslendinga.“
Ég veit ekki hvar ég á að byrja að ræða þetta skrípildi, eða jú, í fyrsta lagi er skyr líklega ekki leyndarmálið á bak við heilbrigði Íslendinga. Í öðru lagi er vafasamt að ganga svona blygðunarlaust út frá því að Íslendingar séu eitthvað sérstaklega heilbrigðir – enda eigum við til dæmis Norðurlandamet í offitu barna og drekkum öðrum þjóðum verr, samkvæmt rannsóknum. Hvað stendur þá eftir af auglýsingunni? Ekkert nema skyr og ísland.
Innihaldsleysið er átakanlegt, en handan þess grillir í knýjandi spurningu. Hvers vegna þurfum við alltaf að láta eins og skyr sé eitthvað sérstakt? Ég veit að þetta er bara auglýsing, og einhvern veginn þarf að selja allar þessar sykruðu mjólkurafurðir, en þetta er samt staðreyndin: við erum þjóðin sem þykir skyr merkilegt og við trúum á íslenska grænmetið, ekkert jafnast á við íslenska tómatinn og íslenska sauðkindin á að sjálfsögðu heimtingu á Paradísarvist.
Ég var djúpt hugsi þegar ég settist út í vél. Á flatskjánum í sætinu stóð: „Það ótrúlegasta við Ísland … er ekki tæra og hreina vatnið sem kemur úr krönunum okkar … heldur sú staðreynd að við blöndum appelsínugosi og eimuðu malti saman á jólunum til að ná hinu eina og sanna jólabragði.“ Á pappamálinu mínu stóð: „Á Íslandi eru hverir út um allt. Þeir verða til þegar heitt vatn stígur upp úr iðrum jarðar. Þjóðin hefur notað þá til að elda og baða sig öldum saman.“ Linnulaus þjóðernisrómans og ég fann fyrir vægum ónotum, eitthvað var falskt, tilfinningin ekki ósvipuð því þegar einhver hlær óþarflega mikið að brandara og maður skynjar að hláturinn er óekta, og finnur til með viðkomandi, því að það er dapurlegt að feika hlátur.
Ég var á leið til Belgíu og þegar flugvélin lenti fór ég að spekúlera í því hvurs lags auglýsingar biðu mín í belgísku flugstöðinni, átti auðvitað von á flugeldasýningu, það er svo margt sem Belgar geta státað sig af, höfuðstöðvar ESB eru í Brussel, sem er fyrir vikið miðpunktur Evrópu í vissum skilningi. Belgía er súkkulaði-mekka heimsins, þar er bruggaður besti bjór í Evrópu, þeir eiga belgískar vöfflur og fundu upp saxófóninn, Kommúnistaávarpið var skrifað í Brussel og ég gæti haldið endalaust áfram, enda er þetta land í Mið-Evrópu, þar sem ýmsir helstu kaflar mannkynssögunnar hafa verið skrifaðir.
Ég gekk upp landganginn, illa sofinn og dofinn í líkamanum eftir langvarandi setu, en dálítið spenntur að fá Belgíu beint í æð. Ég veit ekki hverju ég bjóst við, alla vega einhverju, að minnsta kosti slagorði – Inspired by Belgium.
Fyrsta auglýsingin sem ég sá var frá nýsköpunarfyrirtæki. Þar stóð: „Við notum tæknina til að bjarga mannslífum.“ Næsta auglýsing var kaffiauglýsing, þarnæsta bílaauglýsing, síðan olíuauglýsing frá Noregi, og sama hvað ég leitaði þá fann ég enga auglýsingu sem að gerði út á Belgíu eða reyndi að fanga belgísk einkenni.
Þarna sló þetta mig fyrir alvöru. Ég stóð einn og varð skyndilega vandræðalegur fyrir hönd þjóðar minnar. Í einni sjónhendingu rann upp fyrir mér hvað við erum furðulega taktlaus að heilsa gestum Íslands með túrbódrifnu sjálfshóli sem byggir (meðal annars) á fyrirbærum eins og skyri, án þess að leiða hugann að því að flestir gestirnir koma frá heimsálfunni sem fann upp jógúrt.
Hvers vegna erum við svona stolt af engu? Svarið kann að leynast í brjósti konunnar hans Jóns míns, þar sem hún vakir yfir Jóni sínum er hann liggur banaleguna „og er draga tók af karli, kemur henni til hugar, að eigi muni hann svo vel búinn undir dauða sinn, að eigi sé vafamál, hvort hann nái inngöngu í himnaríki.“ Hún veit sem sagt alveg að hann á ekki skilið að fara til Paradísar, en tilhugsunin er óbærileg, þetta er jú maðurinn hennar, hann hlýtur að verðskulda pláss á himnum – látið ekki eins og við séum aukaatriði, við erum miðpunktur! Og hún leggur af stað upp til Guðs.
Býr kannski svipaður ótti í brjósti þessarar smáu þjóðar? Að frammi fyrir stóra dómstólnum teljumst við ekki þjóð meðal þjóða? Er það kannski þess vegna sem við leggjum ofuráherslu á okkur sjálf? Til að sannfæra heiminn – en sér í lagi okkur sjálf – um að við teljumst með?
Konur þeirra sem eiga vísan stað í himnaríki þurfa ekki að gera sér ferð þangað til að nöldra maka sinn inn. Þjóðir sem eru öruggar í eigin skinni og vita að það fer ekki á milli mála að þær teljast þjóðir þurfa ekki að kippast til af einskærri gleði í hvert sinn sem þær eru nefndar á nafn í heimspressunni. Þær þurfa ekki að láta eins og skyr sé merkilegt, þær þurfa ekki að spyrja, How do you like Iceland? og framleiða meiriháttar auglýsingaherferð til að sannfæra heiminn um að þjóðin í landinu sé spönkuð og inspírerandi.
Ég biðst forláts, en skyr bragðast eins og gömul jógúrt sem hefur staðið í sólskini í nokkrar vikur og harðnað svo áferðin minnir á tréspæni – það þarf þrisvar sinnum meira af mjólk til að búa til skyr heldur en jógúrt, ástæðan fyrir því að þetta tíðkaðist hér er væntanlega sú að við vorum vön því að borða skemmdan mat, skyrgerð þekktist um alla Skandinavíu á landnámsöld en hún lagðist alls staðar af nema hér, ef til vill vegna þess að hinir lærðu að gera jógúrt sem smakkaðist betur – allir nema við, því við vorum of einangruð, og í dag erum við dæmd til að veggfóðra fordyri landsins með lofgjörð um skyr, einfaldlega vegna þess að eitt af því fáa sem raunverulega staðfestir að við séum þjóð er skyr.