Hljómsveitin Kolrassa Krókríðandi/Bellatrix fagnar í ár 25 ára afmæli sínu og af því tilefni stefnir hún að endurútgáfu sinnar fyrstu plötu, Drápu á vínyl- og geislaplötu, en hún hefur verið ófáanleg í áratugi. Hljómsveitin mun einnig flytja plötuna einu sinni með upprunalegum meðlimum á tónleikum 25. nóvember næstkomandi.
Hljómsveitin stendur nú um þessar mundir fyrir hópfjármögnun á verkefninu hjá Karolina Fund og geta áhugasamir tekið þátt í söfnuninni á vefnum.
Upprunalegir meðlimir Kolrössu eru Elíza Newman, tónlistarkona og tónlistarkennari, Sigrún Eiríksdóttir leikskólastjóri, Birgitta Vilbergsdóttir, flugfreyja og ökukennari og Ester Ásgeirsdóttir, hljóðmaður og starfsmaður kvikmyndasafns Íslands. Kjarninn hitti Elízu Newman og ræddi við hana um verkefnið.
Hvers vegna varð Kolrassa Krókríðandi til á sínum tíma?
Hljómsveitin fæddist út úr annarri hljómsveit sem við höfðum stofnað í grunnskóla sem kallaðist Menn. Við vorum fjórar vinkonur í Keflavík og okkur langaði að gera eitthvað sem vakti sem mesta athygli og hneykslaði sem flesta í Keflavík. Þannig að Kolrassa fæddist þannig. Við vorum svoldið á skjön við flesta jafnaldra okkar, og að stofna hljómsveit var í raun okkar leið til að brjótast út úr norminu og láta rödd okkar heyrast.
Hljómsveitin lagðist í dvala árið 2001 eftir að hafa verið nokkuð áberandi í íslenskri tónlistarflóru. Hafið þið eitthvað komið saman síðan þá?
Jú, við höfum verið dobblaðar til að koma saman einstaka sinnum við mjög sérstök tilefni. Það fyrsta var 60 ára afmæli Myllubakkaskóla í Keflavík árið 2012 þar sem upprunalega Kolrassa kom saman í fyrsta sinn í 19 ár og var það kveikjan að því að við gátum hugsað okkur að gera meira. Við höfum komið fram tvisvar á Eistnaflugi, rokkhátíðinni í Neskaupstað, og svo á 17. júní og hátíðartónleikum í Hörpu til að halda upp á 100 ára kosningaafmæli kvenna á Íslandi. Í ár höldum við svo upp á 25 ára afmæli hljómsveitarinnar og okkur þótti tilvalið að slá til í tónleika og endurútgáfu okkar fyrstu plötu Drápu í afmælis Vinyl útgáfu.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Kolrassa Krókríðandi, sem saman stóð af fjórum 17 ára stúlkum, gaf út Drápu sem valin var ein af plötum ársins árið 1992. Hvað stendur til hjá hljómsveitinni núna að 25 árum liðnum?
VIð eigum 25 ára afmæli í ár og okkur langar að halda upp á það með smá húllumhæi! Við erum að stefna á að endurútgefa Drápu í hátíðarvinyl- og CD-útgáfu þar sem hún hefur ekki verið fáanleg í áratugi. Einnig ætlum við að halda endurútgáfuafmælistónleika á Húrra 25. nóvember þar sem upprunalegir meðlimir Kolrössu koma saman og flytja Drápu í heild sinni ásamt nokkrum vel völdum lögum frá þessu tímabili. Við erum á fullu núna með hópfjármögnun hjá Karolina Fund fyrir plötuna og getur fólk farið inn á Karolina Fund-síðuna og pantað þar eintak af Drápu á Vinyl og CD ásamt allskonar gúmmulaði eins og Drápubol og miða á tónleikana. Mikið hefur breyst – það er rétt – síðan platan kom út, en Drápa hefur elst alveg sérstaklega vel og að hlusta á hana núna er algjört æði, eins og að vera sendur aftur í tímann inn í hugarheim skrítinna unglingsstelpna sem höfðu engu að tapa á því að láta allt vaða!