Frægðin er fallvölt: „Vandi” íslenskrar knattspyrnu

Uppgangur landsliðsins hefur átt sér stað á sama tíma og aukin einstaklingshyggja, græðgi og firring hafa rutt sér til rúms í íþróttinni. Þessi krísa hefur að hluta skapað tækifæri Íslands og aðstæður þar sem styrkleikar okkar nýtast best.

7DM_7064_raw_171009.jpg landslið knattspyrna fótbolti hm2018 fagn
Auglýsing


Uppgangur landsliðsins hefur átt sér stað á sama tíma og aukin einstaklingshyggja, græðgi og firring hafa rutt sér til rúms í íþróttinni. Þessi krísa hefur að hluta skapað tækifæri Íslands og aðstæður þar sem styrkleikar okkar nýtast best. En 
hnignun kann að leynast handan við hornið. 

Íslensk knattspyrna stendur á hátindi frægðar sinnar. Eftir árangur karlalandsliðsins á Evrópumótinu 2016, og eftir að liðið fylgdi þeim árangri eftir með því að tryggja sig á lokakeppni Heimsmeistaramótsins í Rússlandi næsta sumar, hafa augu heimsbyggðarinnar beinst að Íslandi. Augu undrunar og aðdáunar. 

Forvígismenn knattspyrnunnar á Íslandi hafa eignað þennan árangur góðu starfi innan knattspyrnuhreyfingarinnar á undanförnum árum, að mörgu leyti með réttu. Miklar framfarir hafa átt sér stað í umgjörð íslenskrar knattspyrnu á síðustu árum og fagmennska einkennir alla vinnu í kringum landsliðið. En það er fleira sem hangir á spýtunni. Árangur karlalandsliðsins í knattspyrnu er ekki afrakstur áralangrar og þaulskipulagðrar vinnu knattspyrnuyfirvalda með það að markmiði að akkúrat þetta lið myndi slá í gegn með þessum hætti akkúrat núna. Tilviljanir og heppni ráða þar einnig miklu. 

Auglýsing

Önnur mikilvæg ástæða þess að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu nær þessum árangri má segja að sé að mörg landslið þaulreyndra knattspyrnuþjóða eiga í tilvistarkreppu. Hún er tilkomin vegna alþjóðlegrar þróunar sem felur í sér aukna atvinnuvæðingu, markaðsvæðingu og stjörnudýrkun sem hefur myndað kúltúr í íþróttum sem ýtir undir einstaklingshyggju, græðgi, firringu og jafnvel spillingu. Slíkur kúltúr, þar sem einstaklingshyggju er hampað á kostnað heildarhyggju, er alveg sérstaklega óheppilegur í hópíþróttum, þar sem byggja þarf upp lið sem þarf að vinna saman og nýta sér allar bjargir til að ná árangri í harðri keppni. Þegar andrúmsloft innan liða einkennist af frama einstaklingsins, græðgi, öfund og stirðum samskiptum þá eru forsendur þess að liðið virki sem lið ekki til staðar. Slík lið – ef lið skyldi kalla – ná ekki hámarksárangri. 

Krísa afreksíþrótta og tækifæri Íslands

Þessi krísa afreksíþrótta hefur leitt til þess að mikið af sterkum knattspyrnuþjóðum – þjóðum sem búa yfir mikilli sögu, hefð, fjármagni og afburða hæfileikaríkum knattspyrnumönnum –  eiga nú undir högg að sækja á knattspyrnuvellinum. Hefur árangur marga þessara þjóða því verið langt undir væntingum. Vandinn sem fylgir markaðsvæðingu knattspyrnunnar er þó ekki einskorðaður við „stóru” atvinnumannaþjóðirnar heldur birtist hann hjá nánast öllum liðum í kjölfar þess að þau ná árangri á hinu stóra sviði afreksíþrótta. Þetta á því einnig við um  minni þjóðir sem eiga sín tímabundnu gullaldarskeið. „Smáþjóðir” eins og Noregur, Holland og Króatía eru ágætis dæmi um þetta. Gullaldir renna sitt skeið.

Karlalandslið Noregs átti sitt gullaldarskeið á tíunda áratug síðustu aldar. Liðið, undir handleiðslu Egils „Drillo” Olsen, komst á þrjú stórmót (sín fyrstu) og í annað sætið á FIFA listanum svonefnda. Frábær árangur hjá ekki stærri þjóð. En frá aldamótum hefur norska liðið ekki náð inn á fleiri stórmót og árangur þess farið lóðbeint niður á við. Sama má segja um hollenska landsliðið. Eftir að hafa náð bronsverðlaunum í Heimsmeistarakeppninni 2014 þá hefur liðið hvorki náð að komast í lokakeppni Evrópumótsins 2016 né Heimsmeistaramótsins 2018. Hnignun hollenskrar knattspyrnu blasir við. Það sama er að gerast í Króatíu en kannski ekki með jafn afdráttarlausum hætti, alla vega enn sem komið er. Gullöld Króata hófst við sambandsslitin frá Júgóslavíu í byrjun tíunda áratugarins og hafa króatísk landslið verið einstaklega sigursæl undanfarin misseri í knattspyrnu, körfuknattleik og handknattleik. En það er mál manna í Krótíu að gullaldarskeiðið sé á enda. Landslið Króata hafa ekki náð sömu hæðum og áður og á undanförnum misserum hefur árangur þeirra verið langt undir væntingum, sérstaklega í körfuknattleik og knattspyrnu.„Við höfum ekki gleymt leiknum í íþróttunum. Íslensku leikmennirnir setja landsliðið í fyrsta sæti. Þeir eru vinir og félagar, þeir spila með hjartanu og smita frá sér metnaði, jákvæðni og trú sem gerir það að verkum að það er eins og við séum allt í einu komnir með tólfta, og jafnvel þrettánda manninn, inn á völlinn. Það eru þessir grundvallarþættir góðra liða sem virka svo sjálfsagðir í orði, en eru það ekki endilega á borði“.  Mynd: Birgir Þór Harðarson

Það má því halda því fram að árangursrík lið verði oft fórnarlömb eigin velgengni. Menn verða góðu vanir og eiga erfitt með að takast á við breyttar aðstæður og áskoranir sem fylgja því að ná árangri í íþróttum. Frægðin getur verið fallvölt. Sviðsljósið blindar og árangur stígur litlu liðunum til höfuðs sem fjarlægast smátt og smátt þau gildi sem upphaflega skópu árangur þeirra. Dæmin hér að ofan eiga það öll sammerkt að hnignun þessara landsliða hélst í hendur við vaxandi einstaklingshyggju á kostnað heildarhyggju og fórnfýsi fyrir liðið, land og þjóð. Þau hafa að einhverju leyti tapað þessum jákvæðu, uppbyggilegu og árangursríku gildum sem eru undirstöður góðra liða. Það verður þessum liðum að falli. 

Lánsemi íslenskra landsliða liggur meðal annars í því að veikleikar andstæðinga okkar – og nútíma afreksíþrótta – hafa gefið okkur færi á að nýta okkur þá, og komast fram úr þeim, alla vega um stundarsakir. Ef Hollendingar hefðu til að mynda spilað eins og þeir eiga að sér í undankeppni Evrópumótsins 2016 þá hefði Ísland sennilega ekki komist í lokakeppnina. Ef Króatar og Tyrkir hefðu spilað eins og þeir eiga að sér í undankeppni Heimsmeistaramótsins 2018 þá hefði Ísland sennilega ekki komist í lokakeppnina. Eins dauði er annars brauð í þessu eins og öðru.

Ísland hefur gert vel í að nýta sér þau tækifæri sem hafa skapast í afreksíþróttum á undanförnum árum. Ekki bara í knattspyrnu, heldur líka í körfuknattleik og handknattleik. Það að öll okkar helstu landslið séu að komast á stórmót í íþróttum þessi árin ber merki þess. Hluti skýringarinnar á árangri íslenskra landsliða þessi misserin er að við erum á réttum stað á réttum tíma. Lánsemi okkar felst í því að helstu eiginleikar okkar sem íþróttaþjóðar eru þeir eiginleikar sem þessi afreksíþróttalið hafa einmitt tapað á undanförnum árum. Í því felst sérstaða okkar. 

Forskot íslenskra landsliða liggja því í gildunum, vinnubrögðunum og hugarfarinu sem þau hafa tileinkað sér – sem eru mikið til sömu gildi og þjóðir eins og Norðmenn, Hollendingar og Króatar höfðu í hávegum þegar frægðarsól þeirra reis sem hæst. Gildi eins og samvinna, fórnfýsi, þjóðarstolt, vinnusemi, leikgleði og agi. Íslensku landsliðin hafa þessi gildi í hávegi. „Við eigum fullt af leikmönnum sem eru tilbúnir að leggja allt á sig þó svo að þeir fái ekki sviðsljósið” sagði Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari. Þessi eftirsóknarverðu gildi gera liðin okkar ekki bara að góðum liðum, heldur leikmennina að heilsteyptum og góðum einstaklingum. Heimir kallaði einmitt eftir þessum gildum eftir ófarirnar gegn Finnum. „Við núllstilltum okkur og fórum aftur í grunngildin” sagði hann eftir frækinn sigur íslenska karlalandsliðsins á Tyrkjum. Gildin virka sem ósýnilegt afl sem tengir einstaklinga saman í eitthvað stærra, meira og merkilegra og nær því besta frá öllum – í samofinni heild. Það gildir nefnilega einu hvað við eigum góða fótboltamenn. Ef gildin, viðhorfin og karakterinn eru ekki í lagi þá náum við ekki hámarksárangri. 

Íslenskur íþróttakúltúr er enn þá frekar ósnortinn af peningavæðingunni. Við Íslendingar erum enn þá áhugamenn í eðli okkar. Við höfum ekki gleymt leiknum í íþróttunum. Íslensku leikmennirnir setja landsliðið í fyrsta sæti. Þeir eru vinir og félagar, þeir spila með hjartanu og smita frá sér metnaði, jákvæðni og trú sem gerir það að verkum að það er eins og við séum allt í einu komnir með tólfta, og jafnvel þrettánda manninn, inn á völlinn. Það eru þessir grundvallarþættir góðra liða sem virka svo sjálfsagðir í orði, en eru það ekki endilega á borði. 

Vandi fylgir vegsemd hverri

Vandi íslenskrar knattspyrnu í dag – verandi á hátindi frægðarinnar –  er hvernig á að takast á við hnignunina sem kann að leynast handan við hornið. Nýlegur árangur íslenskrar knattspyrnu gerir það að verkum að landsliðin okkar standa frammi fyrir ógn af markaðsvæðingu íþrótta. Dæmin frá Noregi, Króatíu, Hollandi og fleiri þjóðum eiga að vera okkur víti til varnaðar. Hnattvæðingin máir út staðbundin einkenni og einstaklingshyggjan og græðgin breiða úr sér til þeirra sem ná árangri og verða þeir því oft markaðsvæðingunni að bráð. Þetta eru þættir sem hola liðin að innan þannig að ekkert stendur eftir nema umbúðir, en ekkert innihald. 

Við þurfum því að vera á varðbergi ef við ætlum að viðhalda árangrinum. Við þurfum að viðhalda gildunum. Við verðum, í þeirri stöðu sem við erum í í dag, að styrkja grunnstoðirnar og vinna í því að efla karakter landsliðsmanna framtíðarinnar, frá fyrstu skrefum til þeirra síðustu. Að kenna grunngildin sem hafa reynst öllum sigursælum smáþjóðum gulls ígildi. Við þurfum einnig að fræða þá sem standa leikmönnunum næst; þjálfara, foreldra, umboðsmenn og aðra áhrifavalda. Hjálpa þeim að sjá stóru myndina og halda sínu fólki við efnið. Því ef við náum að koma böndum á óæskileg áhrif markaðsvæðingar íþrótta þá getur litla Ísland ekki bara komið á óvart einu sinni eða tvisvar, heldur fest sig í sessi meðal þeirra bestu. Hættan er aftur á móti sú að við hverfum af stóra sviðinu eins skyndilega og við komust á það og að andlaus landslið framtíðarinnar leiki á nýja þjóðarleikvanginum hálftómum, leiki sem engu máli skipta. 

Almenn nálgun okkar Íslendinga á íþróttir er í dag bæði heilbrigð og árangursrík; höldum henni þannig.

Höfundur starfar sem dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands og sem íþróttaráðgjafi. Hann er höfundur bókarinnar „Sport in IcelandHow small nations achieve international success“.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands tók við af Matt Hancock fyrr í sumar.
Biðst afsökunar á að hafa sagt fólki að hætta að „hnipra sig saman“ andspænis veirunni
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands segist hafa notað óheppilegt orðfæri til að lýsa því hvernig landar hans þyrftu að fara að lifa með veirunni, í ljósi útbreiddra bólusetninga.
Kjarninn 25. júlí 2021
DÓTTIR er stuttmynd um ást, þráhyggju og brotna sjálfsmynd.
Stuttmyndin DÓTTIR er „ástarbréf til Íslands“
Sofia Novakova, leik- og kvikmyndagerðarkona frá Slóvakíu, er þessa dagana að taka upp stuttmyndina DÓTTIR hér á landi. Safnað er fyrir útgáfu myndarinnar á Karolina Fund.
Kjarninn 25. júlí 2021
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Meira úr sama flokkiFólk