Rætt hefur verið um og birtar fréttir þess efnis að sjálfsafgreiðsla í búðum muni aukast til muna á næstunni á Íslandi og óttast margir að fólk muni missa störf sín í kjölfarið og að þjónusta muni dala. Margs konar breytingar eru fyrirséðar með aukinni tækni og segir danski sérfræðingurinn Anne Marie Engtoft Larsen að mikilvægt sé að nýta tækninýjungar til góðs og til að bæta samskipti milli fólks, eyða ójöfnuði og líta á þær fyrst og fremst sem tækifæri.
Anne Marie mun flytja erindi á ráðstefnunni Misstu ekki af framtíðinni – áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á vinnumarkað háskólamenntaðra sem mun fara fram á morgun á vegum Bandalags háskólamanna í Hörpu.
Hún leiðir verkefnið „Fjórða iðnbyltingin“ hjá Alþjóðaefnahagsráðinu (World Economic Forum) ásamt teymi sínu. Hún er með meistarapróf, annars vegar í þróunarstjórn og hins vegar í alþjóðaviðskiptum og stjórnmálum.
Breytingarnar munu hafa áhrif á allt lífið
Ég tel að fjórða iðnbyltingin geti ritað nýjan kafla í þróunarsöguna sem yrði keyrð áfram af stórfenglegum tækninýjungum á borð við gervigreind, háþróuðum vélmennum, drónum, þrívíddarprenturum og sýndarveruleika.
Anne Marie segir að merkja megi gríðarlega miklar samfélagslegar breytingar í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar. „Ég tel að fjórða iðnbyltingin geti ritað nýjan kafla í þróunarsöguna sem yrði keyrð áfram af stórfenglegum tækninýjungum á borð við gervigreind, háþróuðum vélmennum, drónum, þrívíddarprenturum og sýndarveruleika,“ segir hún og bætir við að þessar breytingar séu á svo stórum skala að það sé óumflýjanlegt að þær hafi áhrif á iðngreinar jafnt sem á daglegt líf fólks. Frá umræðum um sjálfkeyrandi bíla til hugmynda um að með aukinni líftækni geti menn orðið 120 ára eða áhrifa samfélagsmiðla, til að mynda á skoðanir fólks, samfélög og stjórnmál. Að hennar mati munu þessar breytingar hafa áhrif á allt lífið og á það hvaða augum við lítum mennskuna.
Hún bendir á að tækniframfarir muni hafa mikil áhrif á samfélagið en nákvæmlega hvernig sé undir okkur komið. „Við eigum það til að hugsa um iðnbyltingar sem eitthvað sem breytir því hvernig við framleiðum hluti en í raun hafa þær mun meiri áhrif á okkur og líf okkar,“ segir hún. Anne Marie tekur sjónvarpið sem dæmi en það var hluti af annarri iðnbyltingunni. Hún bendir á að það hafi orðið svo mikið meira en fjöldaframleitt heimilistæki. Það hafi breytt skemmtanabransanum, samskiptum milli fólks og hvernig við hugsum um heiminn.
Nýta tækifærið til góðs
„Ég hef trú á því að tækni á borð við þrívíddarprentara og sýndarveruleika muni hafa svipuð áhrif og sjónvarpið á samfélag okkar,“ segir Anne Marie. Þrívíddarprentarinn muni gera alla að hönnuðum, notkun hans draga úr auðlindanýtingu okkar en á sama tíma gæti hann hleypt milliríkjaverslun í uppnám, með því að setja láglaunastörf í hættu í þróunarlöndunum. Sýndarveruleiki geti hjálpað til við að þróa, auka samkennd, kennslu og samskipti milli fólks í mismunandi samfélögum og löndum. Hins vegar myndi sýndarveruleiki geta haft þau áhrif að frekari gjá myndaðist milli fólks þegar það sekkur dýpra inn í hinn stafræna heim.
Hún telur að mannkynið sé nú á ákveðnum krossgötum. „Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að forgangsraða jákvæðum mannlegum gildum með þeim hætti að áhugaverðar tækninýjungar séu þróaðar og lagaðar að samfélagi okkar,“ segir hún. Enn fremur bendir hún á að ef það verði ekki gert þá óttist hún að vandamál sem við þekkjum nú þegar muni aukast til muna, til að mynda loftslagsbreytingar, pólitískur og efnahagslegur klofningur þjóðfélagsins, dvínandi traust til stofnana og samfélaga. Hún segir að við eigum að nýta þetta tækifæri í sögunni til að móta sjálfbæra framtíð.
Verkalýðsfélög leika lykilhlutverk
Mikilvægt er fyrir verkalýðsfélög og aðra hlutaðeigendur að vinna saman í að koma með nýja sýn á framtíð verkalýðsins, að sögn Anne Marie. Mörgum störfum sé ógnað af sjálfvirkum vélum og segir hún að þá geti verið auðvelt fyrir marga að bregðast við með þeim hætti að minnka innleiðingu vélanna til að vernda auðsköpunarmódel 20. aldar.
Það er mjög mikilvægt fyrir að okkur að forgangsraða jákvæðum mannlegum gildum með þeim hætti að spennandi nýjar tækninýjungar séu þróaðar og lagaðar að samfélagi okkar.
Anne Marie telur aftur á móti að þessar breytingar ætti að nýta til góðs, m.a. með því að skapa betri störf fyrir fólk og takast á við þær krefjandi áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir í dag, eins og tekjumismun, loftlagsbreytingar og tvískiptingu samfélagsins. Hún segir að hvað verkalýðsfélögin varði, þá vilji hún sjá þau leika lykilhlutverk í þróun samfélagslegra ábyrgra hagkerfa eða vinna með stjórnvöldum og iðnaði til að skapa sýn um það hvernig stytta eigi vinnutíma án þess að minnka framleiðni.
Mismunandi hugmyndir eru uppi um hversu mörg störf muni verða sjálfvirk, hverjar efnahagslegar afleiðingar verði og hvernig breytingarnar muni hafa áhrif á vöxt. Að mati Anne er ekki mikilvægast að undirbúa sig í samræmi við ákveðna tölfræði heldur að móta samfélagið á jákvæðan máta. „Við þurfum að minnsta kosti að búa okkur undir heim framtíðarinnar, sem verður feikilega ólíkur þeim sem við búum í núna, og þess vegna er mikilvægt að við verðum nógu sveigjanleg til að aðlaga hegðun okkar, hugsunarhátt og lífsreglur til þess að geta umbreytt þessari sundrungu í afl til að gera samfélaginu gott,“ segir hún.
Endurhugsa verður menntakerfið upp á nýtt
En er menntakerfið í stakk búið til að takast á við þessar breytingar? Anne Marie segir að nauðsynlegt sé að endurhugsa kerfið allt upp á nýtt. Margir viti ekki hvað þeir muni hafast við eftir 30 ár ef þeir verða enn á vinnumarkaði eða hvers verði krafist af þeim. Aftur á móti sé næsta víst að endurmenntun verði nauðsynleg til að öðlast nýja þekkingu. Hún segir að þetta muni eiga við um flesta og að við getum valið að líta á það sem byrði eða sem tækifæri.
Þess vegna þurfi breytingar í menntakerfinu. Hún segir að einnig verði að finna leið til að hvetja fólk til áframhaldandi menntunar. „Þetta er einnig góð leið til að hjálpa fólki að nýta hæfileika sína og til að útrýma þrálátu ójafnrétti í tekjum sem við þurfum að takast á við með því að auka hreyfanleika í samfélaginu,“ segir hún.
Þetta er mjög róttæk breyting fyrir flest menntakerfi en samt sem áður nauðsynleg
Alþjóðaefnahagsráðið birti skýrslu um framtíð starfa árið 2016 og í henni kom fram að mikilvægasta kunnáttan sem fólk mun búa yfir árið 2020 verði að geta leyst flókin vandamál, beita gagnrýninni hugsun, vera skapandi, kunna mannauðsstjórnun og geta unnið með öðrum. Anne Marie segir að samkvæmt þessu sé ekki nóg að breyta námsskrám heldur verði að endurhugsa hvernig við lærum og eflum nemendur til að verða sveigjanlegri, vinna í sameiningu og meira skapandi. „Þetta er mjög róttæk breyting fyrir flest menntakerfi en samt sem áður nauðsynleg,“ bætir hún við.
Tækni er pólitísk
Sumir gætu óttast tæknina og velt því fyrir sér hvort allar þessar tækninýjungar muni frekar skaða fólk en gera því gagn. Anne Marie segist vera meðvituð um þetta. „Ég hef trú á því að fyrsta skrefið sé að opna á umræðuna og benda á að tækni sé pólitísk. Ekki til hægri eða vinstri heldur á þann máta að hún á það til að verða hlutdræg og undir sérstöku yfirskini og ef við íhugum þetta ekki og tölum ekki um það, þá gæti tæknin haft slæm áhrif á heiminn,“ segir hún. Anne Marie nefnir sem dæmi að algrím hafi verið notað í annarlegum tilgangi. Annað dæmi séu genarannsóknir en þrátt fyrir að þær geti verið til góðs þá sé möguleiki á misnotkun einnig fyrir hendi.
Ég hef trú á því að fyrsta skrefið sé að opna á umræðuna að tækni sé pólitísk. Ekki til hægri eða vinstri heldur á þann máta að hún á það til að verða hlutdræg og undir sérstöku yfirskini.
Sömu vandamál fylgja samfélagsmiðlum, að mati Anne Marie. Hún segir að fólk geti notað netið til að eiga í samskiptum við annað fólk úti um allan heim en á hinn bóginn látið stjórnast af algrími þar sem það verður fast í bergmálsherbergjum og verður af lýðræðislegri umræðu í leiðinni.
Þess vegna verði hver einstaklingar, fyrirtæki, stjórnvöld og stofnanir að ræða þau siðferðislegu vandamál sem koma upp og halda því til streitu að umræða og vangaveltur séu partur af þróun í tækni.