Ein af hverjum fimm konum upplifir heilkenni sem nefnist fjölblöðrueggjastokksheilkenni (PCOS) á lífsleiðinni. Nýjar niðurstöður sem birtar voru í tímaritinu Nature Medicine varpa ljósi á ástæðuna að baki heilkenninu og hugsanlega meðferð gegn því.
PCOS einkennist af því að kona er með hækkuð karlhormón miðað við það sem eðlilegt telst. Einkenni geta meðal annars verið aukinn hárvöxtur á líkama, hárlosi á höfði og skert frjósemi þó einkennin séu mismunandi og mismikil milli kvenna. Fram til þessa hefur reynst erfitt að rekja hvað það er sem orsakar heilkennið og finna áhrifaríkar meðferðir gegn því.
Rannsóknarhópurinn greindi tengls á milli hormónaójafnvægis í móðurkviði og PCOS. Sér í lagi var samband greint á milli snertingu fósturs í móðurkviði við vaxtarþátt sem nefnist anti-Mullerian hormone (AMH). Fyrri rannsóknir hafa bent til þess að AMH sé hækkað í konum með PCOS en þekkt er að gildi hormónsins lækki á meðan á þungun stendur. Ekki var ljóst hvort gildi AMH væri hækkuð á meðgöngu hjá konum með PCOS.
Samkvæmt niðurstöðunum voru gildi AMH 30% hærri í barnshafandi konum með PCOS en öðrum. Vegna þess að áður hefur verið sýnt fram á að PCOS gangi að einhverju leiti í erfðir vildu vísindamennirnir einnig kanna hvort dætur kvenna með PCOS hefðu hækkuð AMH gildi.
Til að prófa þetta var þunguðum músum gefið AMH svo gildi vaxtarþáttarins voru yfir eðlilegum mörkum á meðgöngunni. Í ljós kom að kvenkyns afkvæmi músa með hækkuð AMH gildi voru líklegri til að þróa með sér PCOS en kvenkyns afkvæmi í samanburðarhópnum.
Að auki tóks hópnum að snúa við áhrifunum í músunum með því að gefa þeim lyfið cetrorelix í æð. Með lyfjagjöfinni hurfu einkenni PCOS og gæti lyfið því verið möguleg meðferð gegn PCOS í konum. Prófanir á lyfinu í konum hefjast seinna á þessu ári og er ljóst að ef vel gengur gæti lyfið haft jákvæð áhrifa á líðan og frjósemi milljóna kvenna um allan heim.