„Já, nú er Ísland bara með jafn mikla athygli á sér í leiknum, og önnur landslið. Það er auðvitað virkilega gaman,“ segir Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir (Lína), yfirframleiðandi FIFA tölvuleiksins, hjá EA fyrirtækinu, sem gefur leikinn út.
Hún sinnir starfi sínu frá Vancouver í Kanada en starfsmannateymið hjá FIFA leiknum er einnig með starfsstöð í Rúmeníu.
Fótboltasamfélag í tölvuheiminum
Mörg hundruð starfsmenn vinna við að halda þessu stærsta fótboltasamfélagi í tölvuleikjaheiminum, sem fyrir finnst, gangandi. Það getur verið flókið, enda þúsundir manna að spila leikinn á öllum tímum. „Við gefum ekki út opinberar tölur um fjölda spilara, en fjöldinn er mikill, eins og fólk getur getið sér til um,“ segir Lína.
Hún segir mikinn áhuga vera á Íslandi og það sé gaman að finna fyrir því, en íslenska landsliðið kom nýtt inn í leikinn í FIFA 18 útgáfunni.
Lína hefur unnið um skeið hjá EA og sinnti áður yfirmannastöðu hjá Star Wars Battlefront tölvuleiknum og starfaði í Stokkhólmi í Svíþjóð. „Þegar ég hitti fólk úr FIFA teyminu á ráðstefnum og á fundum, þá nefndi ég nú oft við þau að það væri gaman að sjá Ísland í leiknum. Í fyrstu var hlegið að því, en síðan kom þetta nú bara eftir því sem meira kastljós kom á Ísland og árangurinn var betri,“ segir Lína.
Öll flóra mannlífsins
Hún segir að margir geri sér ekki grein fyrir hversu gríðarlega mikið umfang sé á öllu markaðsstarfi sem fylgi tölvuleik eins og FIFA, og að allur heimurinn sé undir, og það í lifandi heimi allan sólarhringinn. „Tölvuleikjaiðnaðurinn er nú þegar kominn fram úr kvikmyndaiðnaði og ég hef alltaf litið á tölvuleiki sem einn miðil í boði er. Svipað og bækur eða annað þar sem upplýsingum er miðlað. Þetta er lifandi heimur og það er mikill misskilningur að þeir sem spili tölvuleiki séu fyrst og fremst strákar og karlmenn á aldrinum 18 til 35 ára. Tölvuleikir eru farnir að ná til allra hópa,“ segir Lína.
Hún segir það líka ánægjulegt, að konur séu sífellt að fá meiri athygli í íþróttaleikjum. Í FIFA eru kvennalandslið þegar komin til leiks, og það sama má segja um NBA Live þar sem WNBA lið eru meðal þeirra sem notendur geta stýrt. „Þetta er ánægjulegt, hefur fengið góðar viðtökur og á eftir að aukast enn frekar, geri ég ráð fyrir,“ segir Lína.
Í nýjustu útgáfu leiksins, sérstakri viðhafnarútgáfu vegna HM í Rússlandi, er íslenska liðið mætt til leiks í nýjum búningum. Víkingaklappið er komið á sinn stað, en margir söknuðu þess að það hefði ekki fylgt með inn í leikinn þegar íslenska liðið var loksins komið í leikinn. „Það var nú ekki hægt að sleppa því,“ segir Lína.
HÚH!
Þegar spilaðir eru leikir með Íslandi í leiknum, og það vinnur, þá fagna leikmenn með áhorfendum, með Aron Einar Gunnarsson fyrirliða í broddi fylkingar, og taka víkingaklappið víðfræga. Sannarlega skemmtilegt að sjá hverstu djúpt þessi fögnuður - sem fór eins og eldur í sinu um heiminn frá EM í Frakklandi 2016 - náð í samfélögum víða. Ímynd Íslands er beinlínis orðin beintengd klappinu.
Lína stóð á sviðinu á einni stærstu leikjaráðstefnu sem fram fer árlega í heiminum, Electronic Entertainment Expo í Los Angeles, og kynnti þar nýjungar í FIFA tölvuleiknum. EA heldur viðburðadagskrá sína í vikunni áður en ráðstefnan sjálf hefst, og var margmenni á henni.
Stærstu tíðindin í þetta skiptið voru þau, að nú er Meistaradeild Evrópu komin inn í tölvuleikinn og verður hluti af nýjum leik, FIFA 19, sem kemur út 28. september næstkomandi. „Notendur leiksins höfðu kallað eftir því að fá Meistaradeildina inn og nú er hún að koma inn,“ segir Lína.
Hlutabréfin hafa rokið upp
EA er stórt fyrirtæki í tölvuleikjaheiminum, og nemur markaðsvirði þess 42,7 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 5 þúsund milljörðum króna. Það er upphæð sem nemur um áttföldu virði íslenska hlutabréfamarkaðarins.
Gengi bréfa félagsins hefur rokið upp að undanförnu, er nú í kringum 140, en í desember síðastliðnum var það um 100.