Audrius Sakalauskas sótti um ríkisborgararétt fyrir ári síðan og fékk neitun síðasta vor. Hann er 23 ára og hefur verið búsettur á Íslandi í tæp 18 ár, eða frá því hann var 5 ára gamall, en hann flutti hingað til lands frá Litháen með fjölskyldu sinni.
Audrius er menntaður í rafvirkjun og er að ljúka meistaranámi í sömu grein. Hann er búinn að reka sitt eigið fyrirtæki í tæpt ár og segist vera búinn að mynda góð tengsl í þeirri atvinnugrein.
Í samtali við Kjarnann gagnrýnir hann umsóknarferlið í heild sinni, hvernig staðið sé að upplýsingagjöf og hversu óliðlegt kerfið sé. Hann segist hafa fengið neitun vegna þess að þegar hann var yngri þá fékk hann nokkrar umferðarsektir, sem geri hann að „síendurteknum afbrotamanni“, samkvæmt Útlendingastofnun.
Líf hans er á Íslandi
Audrius sótti sem sagt um ríkisborgararétt á síðasta ári og íhugar hann nú hvort hann eigi að leggja umsókn að nýju fyrir Alþingi. Alþingi hefur heimild til að veita íslenskan ríkisborgararétt með lögum. Uppfylli umsækjandi ekki skilyrði sem sett eru fyrir veitingu íslensks ríkisborgararéttar í lögum getur hann óskað eftir að umsókn hans verði lögð fyrir Alþingi. Umsóknir eru lagðar fyrir þingið tvisvar á ári, á vormánuðum og í desembermánuði.
Í því ferli þyrfti hann að afla allra gagna á nýjan leik. Hann gagnrýnir að umsóknarferlið sé ekki rafrænt og segir hann að það hafi tekið heilmikinn tíma frá vinnu.
Ástæðan fyrir því að hann sótti um ríkisborgararétt er sú að líf hans er á Íslandi, konan hans og fjölskylda býr hér á landi og segist hann vera meiri Íslendingur en Lithái. Hann segist jafnframt veigra sér við að ferðast til útlanda, þar sem hann óttist að þurfa að gegna herskyldu í Litháen, en þar í landi var herskylda tekin upp að nýju árið 2015 eftir vaxandi hernaðarumsvif Rússa í nágrenni Eystrasaltsins.
Tekur ábyrgð á eigin gjörðum
Audrius segist bera fulla ábyrgð á hraðasektum sínum og að hann hafi verið ungur og vitlaus á þeim tíma sem hann fékk þær. Útlendingastofnun hafi aftur aftur á móti sagt honum að reyna að sækja um ríkisborgararétt, þrátt fyrir það. Hann hafi því eytt miklum tíma í umsóknina, þar sem hann þræddi fjölda stofnana, sem endaði með synjun.
Faðir Audriusar kom hingað til lands og vann sem múrari en fjölskylda hans fylgdi honum ári seinna. „Við lifum fínu lífi,“ segir Audrius en hann á einn eldri bróður sem býr hér með íslenskri konu. Hann segir að bróðir hans búi við aðrar aðstæður en hann sjálfur, þar sem hann er kominn yfir þrítugt og þurfi ekki að hafa áhyggjur af herskyldu í Litháen.
Hægt að gera kerfið skilvirkara
Audrius segist alltaf hafa skilað sínu til samfélagsins, borgað sína skatta og að hann líti á sig sem virkan þjóðfélagsþegn. Litháen leyfir einungis einn ríkisborgararétt og vill Audrius gerast Íslendingur þar sem hann hefur búið hér á landi lungann úr ævi sinni.
Hans gagnrýni snýr þá að mestu leyti að umsóknarferlinu sjálfu, þar sem hann telur að hægt væri að gera kerfið mun skilvirkara og betra fyrir fólk að fóta sig í. Hann hafi ítrekað fengið misvísandi upplýsingar, hann hafi til að mynda verið beðinn um sakavottorð frá Litháen þrátt fyrir að hafa farið þaðan einungis fimm ára gamall. Síðar kom í ljós að þess var ekki þörf.
Audrius segist skilja vel álagið á starfsfólkinu hjá Útlendingastofnun og að ekki sé við það að sakast. Hann spyr sig einfaldlega af hverju ferlið þurfi að vera svona langt og flókið, þegar hægt væri að einfalda það með til að mynda rafrænni útfærslu.