Stærsta tréð í skóginum fallið

Þegar Danir nudduðu stírurnar úr augunum síðastliðinn sunnudagsmorgun, 30. september, og kveiktu á útvarpinu eða kíktu á netmiðlana blasti alls staðar við þeim sama fyrirsögnin: Kim Larsen er død, Kim Larsen er látinn.

kim larsen
Auglýsing

Þótt andlát þessa þekktasta tónlistarmanns Dana hafi komið nokkuð  á óvart vissu allir að Kim Larsen hafði um nokkurt skeið glímt við erfið veikindi. Skömmu fyrir síðustu jól var hann lagður inn á spítala, án þess að nánar væri greint frá ástæðunni. 3. janúar síðastliðinn sendi umboðsmaður Kim Larsen fjölmiðlum fréttatilkynningu þar sem öllum tónleikum Kim Larsen og Kjukken sem fyrirhugaðir voru sl. vetur var aflýst, Kim Larsen hefði greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli og væri í lyfjameðferð. Allir miðar á alla þessa tónleika voru löngu uppseldir en í tilkynningu umboðsmannsins var jafnframt sagt að Kim Larsen yrði kominn á stjá í byrjun sumars.  

Það gekk eftir og Kim og Kjukken héldu alls 18 tónleika sl. sumar víðsvegar í Danmörku. Fjölmennastir voru tónleikarnir á tónlistarhátíðinni í Skanderborg, Smukfest, þar voru 30 þúsund manns. Þar duldist ekki þeim sem þekktu til Kim Larsen að hann var ekki heill heilsu. „Allt í einu orðinn gamall“ sagði einn aðdáandi sem lengi hafði fylgst með „den gamle hankat“ eins og Kim kallaði sjálfan sig iðulega.

Kim Melius Flyvholm Larsen kom í heiminn 23. október 1945, í Kaupmannahöfn. Yngri sonur kennarahjónanna Evu Flyvholm og Alfreds M. Larsen. Eldri bróðirinn Tore, sem lést árið 2007, var tveimur árum eldri. Fjölskyldan bjó við Sølvgade á Austurbrú. Alfred var mjög strangur við synina og Kim sagði einhverju sinni frá því að eitt sinn hefði faðir hans látið sig liggja við opinn glugga vegna óhlýðni. Kim fékk eyrnabólgu sem olli því að hann hafði skerta heyrn það sem eftir var ævinnar.Þau Eva og Alfred skildu árið 1950 og Eva flutti með synina í litla íbúð við Maagevej í Norðvesturhluta Kaupmannahafnar . 

Auglýsing

Eftir skilnaðinn var samband bræðranna við föðurinn lítið sem ekkert. Alfred sem var eins og áður var getið menntaður kennari og kenndi einkum ensku og þýsku, var iðulega afleysingakennari. Einhverju sinni átti hann að leysa af í bekk sonarins og þegar hann kom inn í stofuna kallaði Kim „Hej far, halló pabbi“. Alfred svaraði með að reka soninn út úr stofunni. Alfred lést á Ærø, árið 2005, þar hafði hann búið einn í litlu húsi, í 30 ár, og umgengist fáa. Eftir að dóttir hans, eitt þriggja barna, sem hann eignaðist eftir skilnaðinn við móður Kims, hafði árangurslaust hringt til hans hafði hún samband við lögreglu sem braust inn í húsið og fann Alfred. Réttarlæknir taldi að Alfred hefði þá verið látinn í þrjár vikur. Kim Larsen var ekki viðstaddur útför föður síns. Kim var alla tíð mjög nátengdur Evu móður sinni sem bjó síðustu árin í Óðinsvéum, eins og Kim. Eva lést árið 2014.

Snemma beygist krókurinn

Kim Larsen fékk ungur áhuga fyrir tónlist og 14 ára gamall samdi hann fyrsta lagið.  Það heitir Lorelei og telst, að mati höfundarins, ekki til meistaraverka „hálfgert glamur“.  Fyrirmyndirnar voru Elvis Presley, Chuck Berry, Little Richard, og síðar Bítlarnir. Mamman hafði látið undan látlausu kvabbi sonarins og keypt handa honum gítar sem hann lærði síðan á samhliða menntaskólanámi. Oft hefur verið sagt um Kim Larsen að han hefði stærsta munn Danmerkur. 

Skólasystur hans í menntaskólanum kölluðu hann sín á milli „Kimpansen“. Að loknu stúdentsprófi var Kim um tíma á Lýðháskólanum Askov á Suður Jótlandi. „Dvölin þar var minn mikli skóli“ sagði hann iðulega. Hann lauk kennaraprófi árið 1968, tæplega 23 ára og réð sig sem kennara við Gerbrandskólann á Amager. En tónlistin togaði og Kim Larsen hætti kennslunni eftir nokkra mánuði, flutti inn í gamalt vöruhús, Sofiegárden, á Kristjánshöfn. Fyrstu tónleikana, sem atvinnutónlistarmaður hélt hann skömmu fyrir jólin 1968, þeir fóru fram á Lesblindrastofnuninni í úthverfi Kaupmannahafnar. Um þetta leyti kynntist hann þremenningunum, sem ásamt honum stofnuðu í ársbyrjun 1969 hljómsveit. Rokkhljómsveit, eins og þeir kölluðu það.

Gasolin

Þremenningarnir sem Kim Larsen kynntist  á Kristjánshöfn voru Franz Beckerlee, Willi Jønsson og Bjørn Uglebjerg. Fjórmenningarnir stofnuðu hljómsveitina Gasolin. Bjørn Uglebjerg hætti árið 1971 og í stað hans kom Søren Berlev. Í upphafi sungu þeir einkum á ensku, en áttuðu sig fljótlega á því að „Valbyenska“ þeirra félli ekki í kramið hjá Dönum og þeir slógu heldur aldrei í gegn í hinum enskumælandi heimi. Stefndu, eins og margir aðrir, á heimsfrægð og töldu að leiðin þangað byggðist á því að syngja á ensku.

Gasolin starfaði í níu ár, fram til ársins 1978. Á þessum níu árum gáfu þeir félagar út ellefu stórar hljómplötur (þrjár þeirra teknar upp á tónleikum) og allmargar smáskífur. Þeir voru á þessum árum, og allar götur síðan, lang þekktasta og vinsælasta hljómsveit sem starfað hefur í Danmörku.

En Kim Larsen hafði fleiri járn í eldinum, hann gaf út sólóplötur sem nutu mikilla vinsælda. Sú fyrsta, Værsgo, kom út árið 1973 og er af mörgum talin besta dægurlagaplata sem komið hefur út í Danmörku og er á lista danska Menningarmálaráðuneytisins, Kulturkanonen, yfir einstök dönsk menningarverðmæti.Værsego.

Deilur og óeining urðu til þess að Gasolin lagði upp laupana árið 1978. Meðal þeirra laga sem Gasolin sendi frá sér er „Kvinde min“, eitt allra vinsælasta lag Kim Larsen.

Eftir Gasolin, Ameríka

Árið 1979 sendi Kim Larsen frá sér kennitöluplötuna svokölluðu 231045-0637. Sú plata naut mikilla vinsælda en skömmu eftir útkomu hennar flutti Kim Larsen, ásamt fjölskyldu sinni til New York. Á þessum tíma ól hann enn með sér alheimsfrægðardrauminn, eins og hann orðaði það síðar. Í New York stofnaði hann hljómsveitina Kim Larsen og Jungle Dreams sem gaf út tvær plötur. Árið 1983 sneri Kim heim til Danmerkur og sagði síðar að „sem betur fer sló ég ekki í gegn vestra, þótt mig langaði virkilega til þess á þeim tíma. Ef maður væri heimsfrægur fengi maður hvergi að vera í friði.

Midt om Natten

1983 sendi Kim Larsen frá sér plötuna Midt om natten. Sú plata naut strax mikilla vinsælda og hefur samtals selst í meira en 600 þúsund eintökum, og er mest selda plata allra tíma í Danmörku. Árið eftir útkomu plötunnar var gerð kvikmynd með sama nafni og tónlist Kim Larsen. Leikstjórnin var í höndum Erik Balling eins þekktasta kvikmyndaleikstjóra Dana og myndin var jafnframt hans síðasta. Kim Larsen, Erik Clausen og Birgitte Raaberg (Susan Himmelblaa) léku aðalhlutverkin. Myndin er meðal aðsóknarmestu kvikmynda sem gerðar hafa verið í Danmörku. midt om  natten..

Kim Larsen hlaut dönsku leikaraverðlaunin fyrir hlutverk sitt sem Benny. Erik Clausen, mótleikari Kim Larsen sagði síðar, í gríni, að Kim hefði ekkert verið að leika, hann hefði bara verið Kim en kallaður Benny í myndinni.  Enda væri það svo sagði Erik Clausen „að það væri auðveldara að láta grenitréð í garðinum hjá mér leika Hamlet en að fá Kim Larsen til að leika eitthvað annað en sjálfan sig:“ Kim Larsen skrifaði síðar titillagið í kvikmyndinni „Tarzan Mama Mia“.

Bellami

Árið 1984 stofnaði Kim Larsen hljómsveitina Bellami. Fimm manna sveit sem starfaði til árins 1992. Í Bellami var valinn maður í hverju rúmi, þeir Hans Fagt, Henning Pold, Peter Ingemann, Per Rasmussen og auðvitað Kim sjálfur. Meðal platna Bellami var „Forklædt som voksen“ frá árinu 1986 og hefur selst í 540 þúsund eintökum, einungis ,„Midt om Natten“ hefur selst í fleiri eintökum í Danmörku. Meðal laga á plötunni eru tvö af allra vinsælustu lögum Kim Larsen,  Jutlandia og Om lidt (bliver her stille). Síðarnefnda lagið var lokalag sirkusflokks sem Kim Larsen starfaði með, ásamt Leif Sylvester Petersen. Om lidt er iðulega leikið, og sungið við útfarir en sumir prestar neita þó að lagið sé flutt, ekki sé viðeigandi að leika sirkuslag við hinstu kveðju.Forklædet som voksen.

Samstarfi Kim Larsen og félaganna í Bellami lauk árið 1992. Síðasta plata sveitarinnar, „Wisdom is Sexy“ hlaut dræmar viðtökur og aðsókn að tónleikum svo lítil að mörgum þeirra var aflýst. Kim sagði „tak og farvel“ við þá félaga sína. En hann var ekki hættur í tónlistinni.

Kjukken

Hljómsveitina„Bell Star“ stofnaði Kim Larsen árið 1993. Vera hans þar var ekki löng því ári síðar flutti hann til Óðinsvéa (með þriðju eiginkonunni) og 1995 varð til hljómsveitin „Kim Larsen og Kjukken“. Með þeirri hljómsveit starfaði Kim Larsen til dauðadags. 

Þar var valinn maður í hverju rúmi. Kjukken (skírð eftir teiknimyndafígúru sem Kim hélt mikið uppá) naut strax mikill vinsælda og frá árinu hefur hljómsveitin verið á löngu tónleikaferðalagi, spilað á tugum tónleika á hverju sumri, oftasta í Danmörku en einnig í Noregi, Svíþjóð og víðar. Árið 2010 gaf Kim Larsen út sólóplötu „Mine damer og herrer“, þar kennir ýmissa grasa, þekktar barnagælur, stúdentasöngvar, svo eitthvað sé nefnt. Plötur Kim Larsen, þar sem hann er einn eða með öðrum hafa selst í meira en fimm milljónum eintaka.

Fyrir utan alla þá tónlist sem hann samdi fyrir sig og sínar hljómsveitir samdi Kim Larsen fjöldann allan af lögum og textum fyrir aðra danska tónlistarmenn og ennfremur nokkrar kvikmyndir og leiksýningar.

Þrjár eiginkonur og sex börn

Kim Larsen var þrígiftur. Kornungur giftist hann Mariann Herløv, þau eignuðust 1968 soninn Pelle en hjónabandið stóð stutt. Árið 1973 giftist Kim Hanne Qvist (sem Kim kallaði Kranen) þau eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu í Kaupmannahöfn, í lítilli blokkaríbúð. Árið 1994 hringdi Kim í Hanne og sagði henni að hann kæmi ekki framar heim.  Hjónabandið væri á enda, hann væri kominn með nýja kærustu og myndi flytja til Óðinsvéa.

Nýja konan í lífi hans var Liselotte Kløvborg, hún er frá Jótlandi og harðneitaði að setjast að í Kaupmannahöfn, „Óðinsvé var málamiðlun“ sagði Kim. Þau eignuðust tvo syni, Hjalmar, sá eldri, er tónlistarmaður og í útliti nákvæm eftirmynd föðurins.

Alþýðlegur auðmaður, maður fólksins

Þótt Kim Larsen hafi efnast vel barst hann ekki á. Gekk ekki í dýrum fötum, það var enginn Ferrari í bílskúrnum (sem hann átti heldur ekki) og hann bjó ekki í villu „með sjávarútsýni“. Í Óðinsvéum bjó fjöskyldan í nokkur ár í 54 fermetra íbúð í blokk en þegar íbúðin hinum megin stigagangsins var til sölu keyptu Kim og Liselotte hana og fjárfestu jafnframt í þvottavél, höfðu fram að því notað almenningsþvottahús í nágrenninu. Innanbæjar ferðaðist Kim á gömlu reiðhjóli, þótt hann ætti bíl. Árum saman var heimilisbíllinn gamall Citroen 2CV (braggi) og stýrið hafði Kim fengið úr gömlum báti sem notaður var til siglinga með ferðamenn um síkin í Kaupmannahöfn. Sagðist hafa fengið munnlegt leyfi fyrir þessu stýrishjóli og þótt skoðunarmenn bifreiða fjösuðu fékk hann alltaf skoðun á braggann.

Fyrir nokkrum árum stóð til að Kim Larsen fengi Dannebrogorðu (hliðstætt Fálkaorðunni íslensku) en „spillemanden“ eins og Kim kallaði sjálfan sig, afþakkaði. Svona væri ekki fyrir sig, þótt hann hefði ekkert á móti því að fá sér smók með drottningunni. „Ef staffið myndi þá leyfa það.“  Sömuleiðis voru honum boðin lífstíðar listamannalaun en „nei, það eru aðrir sem þurfa á þeim að halda.“

Hann barðist á sínum tíma hart á móti reykingabanninu svonefnda í Danmörku og gætti þess eftir bestu getu að á myndum af honum sæist sígaretta og helst reykur líka.

Þegar Margrét Þórhildur drottning varð sjötug, árið 2010, var Kim Larsen beðinn að syngja á sérstakri hátíðarsamkomu henni til heiðurs. Hann féllst á það (jeg kan godt li damen) með því skilyrði að hann fengi að halda ræðu áður en hann tæki lagið. Starfsfólkið í höllinni þurfti að hugsa sig vel um áður en þetta var samþykkt, óttinn við að hann myndi ekki kunna sig reyndist ástæðulaus.  

Stærsta tréð er fallið

Þá daga sem liðnir eru frá andláti Kim Larsen hefur umfjöllun um hann í dönskum fjölmiðlum verið slík að þess eru engin dæmi. Ótal blaðagreinar, þættir í útvarpi og sjónvarpi. Í fyrrakvöld (föstudag 6. okt.) voru haldnar minningargöngur í stærstu bæjum Danmerkur þar sem tugþúsundir tóku þátt. í gærkvöldi (laugardag) var klukkutíma dagskrá á aðalrás DR, danska sjónvarpsins og í kvöld verða tónleikar á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn honum til heiðurs (höfundur þessa pistils veit um Íslendinga sem hafa brugðið sér yfir hafið gagngert til að vera viðstaddir þessa tónleika). Tónleikarnir verða sýndir á aðalrás danska sjónvarpsins, DR1, og útvarpað samtímis. Á stórum torgum í nokkrum stærstu borgum og bæjum Danmerkur verða tónleikarnir sýndir á stórum skjám.

Ótal margir hafa orðið til þess að reyna að svara þessari einföldu spurningu: Af hverju skipar Kim Larsen svona ríkan sess í dönsku þjóðarsálinni? Svörin eru ætíð á þá leið að hann sé einskonar samnefnari dönsku þjóðarinnar. „Stærsta tréð í danska þjóðarskóginum er fallið“ var fyrirsögn eins dönsku blaðanna daginn eftir að greint var frá andláti Kim Larsen.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ljóð til styrktar Konukoti og Frú Ragnheiði
Safnar er fyrir ljóðabókinni „Skugga mæra – skjáskot af jaðrinum“ á Karolina Fund.
Kjarninn 13. júní 2021
Róbert Wessman er forstjóri Alvogen og Alvotech.
Alvotech tapaði ellefu milljörðum króna í fyrra
Lyfjafyrirtækið Alvotech dró verulega úr tapi sínu í fyrra með að nýta yfirfæranlegt skattalegt tap. Eiginfjárstaða félagsins batnaði mikið, aðallega vegna breytinga á skuldum við tengda aðila.
Kjarninn 13. júní 2021
Jón Ormur Halldórsson
Stóra skákin – Átökin í kringum Kína
Kjarninn 13. júní 2021
Vladímír Pútín, forseti Rússlands, tekur í höndina á Joe Biden, þáverandi varaforseta Bandaríkjanna, í Moskvu fyrir tíu árum síðan.
Af hverju vilja Rússar alltaf vera í vörn?
Bandaríkjamenn og Rússar reyna nú að koma samskiptum ríkjanna í samt lag. Rússnesk stjórnvöld hafa þó lítinn áhuga á því að Rússland verði lýðræðissamfélag eftir höfði Vesturlanda – styrkur þess liggi í að vera óútreiknanlegt herveldi.
Kjarninn 13. júní 2021
Pigekoret, stúlknakór danska ríkisútvarpsins, með núverandi kórstjóra.
Skuggar fortíðar í stúlknakórnum
Michael Bojesen, einn þekktasti hljómsveitarstjóri Danmerkur og núverandi forstjóri Malmö óperunnar er kominn í ótímabundið leyfi. Ástæðan er frásagnir stúlkna sem voru í Stúlknakór danska útvarpsins undir hans stjórn frá 2001 – 2010.
Kjarninn 13. júní 2021
Jón Gunnarsson og Bryndís Haraldsdóttir.
Jón og Bryndís í öðru og þriðja sæti
Jón Gunnarsson endaði í öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og Bryndís Haraldsdóttir í því þriðja. 80 prósent kjósenda settu Bjarna Benediktsson í fyrsta sætið.
Kjarninn 13. júní 2021
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fékk 82 prósent atkvæða í fyrsta sætið í prófkjörinu, samkvæmt fyrstu tölum.
Bjarni, Jón og Bryndís efst samkvæmt fyrstu tölum
Kjörstöðum hefur nú verið lokað í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Bjarni Benediktsson, Jón Gunnarsson og Bryndís Haraldsdóttir skipa þrjú efstu sætin nú þegar tæpur þriðjungur atkvæða hefur verið talinn.
Kjarninn 12. júní 2021
Kári Árnason
Einkareknar forvarnir
Kjarninn 12. júní 2021
Meira úr sama flokkiFólk