ÚR VÖR er vefrit sem fjallar um hvernig fólk á Vestfjörðum og víðs vegar um landið notar skapandi aðferðir til að leita lausna. ÚR VÖR er staðsett á Vestfjörðum og verður áherslan lögð á þann landsfjórðung en mikilvægt er að veita öðrum fjórðungum athygli og verður það gert.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Eftir að hafa búið skamman tíma á Vestfjörðum áttuðum við okkur á því að það er margt að gerast á landsbyggðinni varðandi nýsköpun, menningu, listir og frumkvöðlastarf.
Segðu okkur frá þema verkefnisins?
Það er nú þannig að lífið er ekki bara saltfiskur og viljum við veita því góða starfi sem
unnið er víða athygli. Það má segja að rauði þráðurinn í verkefninu sé sá að það er ávalt gott ef fólk hugsar út fyrir kassann og leitar lausna með óhefðbundnum hætti. Einnig er mikilvægt að muna það að hættulegt getur reynst að setja of mörg egg í sömu körfuna og því viljum við varpa ljósi á hversu fjölbreytt verkefni fólk er að taka sér fyrir hendur og hvað hægt er að gera þegar viljinn er fyrir hendi. Það getur virst vera langt á milli landshornanna en ÚR VÖR getur vel verið vettvangur sem sameinar, styrkir og færir fólk nær hvort öðru.
Það er ekki þannig að ÚR VÖR sé eingöngu miðill fyrir landsbyggðina. Það er mikilvægt að fólkið í höfuðborginni fái rétta mynd af landsbyggðinni. Í dag, t.d. vegna þess hvernig staðan er á húsnæðismarkaðnum og hvað mikið áreiti er í borginni, þá eru ófáir sem geta vel hugsað sér að flytja frá borg í sveit. Og það eru svo margir kostir við að taka það skref og gott væri að til staðar væri miðill sem getur miðlað því á góðan hátt. Einnig er mikilvægt að fólk átti sig á því að það eru ekki bara einhverjir krúttlegir hlutir sem fara fram úti á landi.
Hér býr klárt og frambærilegt fólk sem er síður og svo aftarlega á merinni hvað varðar
t.a.m. nýsköpun og það er morgunljóst að landsbyggðarfólk getur líka verið fólki í
höfuðborginni innblástur. Þetta þarf ekki og á ekki að vera alltaf „við” á móti „þeim” heldur getur fólk unnið saman og hjálpað hvort öðru, hvar sem það býr.