Brandur Karlsson kemst ekki um án hjólastóls og aðstoðar en hann hefur lært að treysta á stólinn og samfélagið til að komast um og láta gott af sér leiða. Fyrr á árinu fékk hann NPA, notendastýrða persónulega aðstoð, og með því rætist langþráður draumur um að geta ferðast og sjá heiminn. Nepal er eitt það land í heiminum með hvað versta aðgengi fyrir fólk í hjólastól, Brandur og vinir ætla að leifa okkur að fylgjast með ferðalaginu og áskorunum í gegnum samfélagsmiðla @brandur_travels og heimildamynd sem verður gerð af góðvinum Brands frá Vanaheim.
„Ég er búinn að hafa þessa flugu í höfðinu í mörg ár. En svo vissi ég að stundin var runnin upp þegar ég kynnist Rahul Bharti, sem bjó heima hjá mér á meðan hann kenndi námskeið í aldagömlum nudd meðferðum hér á landi. Ég tók eftir auknum framförum í endurhæfingu á meðan að hann var í heimsókn, þannig þegar hann bauð mér til sín til Kathmandu til að æfa með honum þá var það ekki spurning hvort heldur hvenær. Í mars er komið að því.
Það má líka segja að þessi ferð sé framhald af vitundarvakningu sem ég og aðrir höfum barist fyrir um aðgengismál. Ég hef farið nokkra hringi í kringum landið til að vekja athygli á málefnum hreyfihamlaðra, en það að vera bundinn við hjólastól minnkar veröld manns mikið.“
Samhliða æfingum með Rahul ætlar Brandur og hópurinn sem fer með honum að láta reyna á það hvort þau geti lagt nepölsku samfélagi einhvert lið. „Ég hef lært mikið undanfarin ár af öllum frábæru frumkvöðlunum sem ég unnið með í gegnum mjög fjölbreytt verkefni og hef safnað verðmætri reynslu sem mér finnst gaman að deila. Ég trúi því að samvinna og nýsköpun geti leyst öll okkar vandamál, ef kerfin styðja við frumkvöðla. Svo er aldrei að vita hvort eitthvað sem ég læri í Nepal geti ekki gagnast okkur hér á Íslandi.“
Hópurinn ætlar svo halda ráðstefnu í september þar sem farið verður yfir ferðina og árangurinn af henni með sjálfbærni markmið S.Þ. að leiðarljósi. „Einnig munu góðir vinir halda stutt erindi um hvaða tækifæri blasa við Íslandi í tengslum við samfélags nýsköpun og áhrifa fjárfestingar.“