Hans Hedtoft, skipið sem átti ekki að geta sokkið

Fyrir 60 árum fórst danska grænlandsfarið Hans Hedtoft undan suðurodda Grænlands og með því 95 manns. Þetta var fyrsta ferð skipsins sem sagt var að gæti ekki sokkið. Eina sem fundist hefur úr skipinu er bjarghringur sem rak á fjöru á Íslandi.

Hans Hedtoft, 1959
Auglýsing

Fyrir 60 árum, 30. janúar 1959, fórst danska grænlandsfarið Hans Hedtoft undan suðurodda Grænlands og með því 95 manns. Þetta var fyrsta ferð skipsins sem sagt var að gæti ekki sokkið. Um borð í skipinu voru tugþúsundir mikilvægra og sögulegra grænlenskra skjala. Eina sem nokkru sinni hefur fundist úr skipinu er bjarghringur sem rak á fjöru austan við Grindavík.

Árið 1958 lét Konunglega grænlenska verslunarfélagið (KGH) smíða skip til Grænlandssiglinga. Skipið var smíðað í Frederikshavn á Jótlandi og smíðin tók aðeins fjóra mánuði. Ákveðið var að nafnið bæri nafn Hans Hedtoft fyrrverandi forsætisráðherra Dana. Þetta var stærsta skip sem félagið hafði eignast, var 2900 brúttótonn, 83 metra langt og rúmlega 14 metra breitt. Það var hannað til siglinga í ís, meðal annars með sérstyrkt stefni og tvöfaldan botn. Skrokknum var skipt upp í sjö hólf og var gert ráð fyrir að þótt eitt hólfið fylltist af sjó myndi skipið eigi að síður fljóta. Skrokkurinn var rafsoðinn saman en ekki hnoðaður eins og þá tíðkaðist með skip sem ætluð voru til siglinga á norðurslóðum. Rafsuðuaðferðin gerði það að verkum að skrokkurinn var stífari en það var talinn ókostur ef skipið rækist á ísjaka.

Forsvarsmenn KGH voru mjög stoltir af nýja skipinu og sögðu í viðtölum að það ,,gæti hreinlega ekki sokkið“. Ýmsir úr hópi þáverandi og fyrrverandi skipstjórnarmanna KGH höfðu eindregið lagst gegn vetrarsiglingum á hafsvæðinu við Grænland, einkum við syðsta odda landsins Uummannarsuaq (Hvarf, á dönsku Kap Farvel). Snemma árs 1957 lenti grænlandsfarið Umanak, í tvígang, í miklum erfiðleikum í ofsaveðri á þessum slóðum, við Hvarf. Stjórnmálamenn og forsvarsmenn KGH gáfu hinsvegar lítið fyrir þessa gagnrýni, hún var þögguð niður.

Auglýsing

Kvatt með viðhöfn

Hans Hedtoft lagði upp frá Kaupmannahöfn 7. janúar 1959. Fjöldi fólks var samankominn á bryggjunni á Kristjánshöfn (gegnt Nýhöfninni) til að kveðja ættingja og vini sem voru á leið til Grænlands.  Auk 60 farþega og 40 manna áhafnar var skipið hlaðið ýmis konar varningi. Skipið lenti í leiðindaveðri á leiðinni til Grænlands, siglingin frá Kaupmannahöfn tók rétta viku, mun skemmri tíma en það tók Umanak, sem áður var á minnst, að sigla þessa leið. Fyrsti viðkomustaður á Grænlandi var Qaqortog (Julianehaab), þar var tekið á móti skipinu með viðhöfn. Síðan var siglt áfram upp með vesturströndinni, komið við á nokkrum stöðum og síðan til baka til Qaqortog.

95 farþegar, 960 tonn af varningi, þar á meðal 16 tonn af skjölum

29. janúar 1959 lagði Hans Hedtoft úr höfn í  Qaqortog. Auk 40 manna áhafnar voru 55 farþegar og tæplega 1000 tonna fragt. Stærstur hlutinn frosinn fiskur, saltaðar fiskafurðir og lýsi. Auk þess 174 póstpokar, með pökkum og bréfum og síðast ekki síst 16 tonn af alls kyns skjölum úr grænlenska þjóðskjalasafninu. Þessi skjöl höfðu verið varðveitt í Qaqortog, en búið var að ákveða að flytja þau til ríkisskjalasafnsins í Kaupmannahöfn, þar sem skilyrði til varðveislu voru önnur og betri. Danskir og grænlenskir embættismenn höfðu lagst gegn því að skjölin yrðu öll flutt til Danmerkur, í einni ferð, og þar að auki að vetrarlagi. Meðal farþeganna var grænlenski þingmaðurinn  Augo Lynge en tveimur árum fyrr hafði hann, í ræðu í danska þinginu, Folketinget, lagst gegn vetrarsiglingum til Grænlands, taldi þær alltof áhættusamar.

Þegar Hans Hedtoft lagði af stað frá Qaqortog var veðurútlitið þokkalegt og í byrjun gekk allt vel.

Neyðarkall

Björgunarhringur Hans Hedtoft30. janúar, daginn eftir að heimferðin hófst, var Hans Boisen á vakt á loftskeytastöðinni í Qaqortog. Skyndilega heyrði hann ógreinilega eitthvað sem honum fannst vera neyðarkall en var þó ekki viss. ,,Þetta var neyðarkall“ sagði Boisen við tæknimanninn Thomsen. ,,Nei, var þetta ekki bara einhver að prófa morskerfið“ svaraði Thomsen. Boisen hækkaði í tækjunum og fylgdist vel með. Tveimur mínútum síðar heyrðist greinilegt kall í talstöðinni, á neyðarbylgjunni 2182 ,,mayday, mayday“. Klukkan var 13.50. Boisen svaraði og loftskeytamaðurinn á Hans Hedtoft tilkynnti að sjór væri kominn i vélarrúm skipsins og veðrið væri mjög slæmt. Hann gaf jafnframt upp staðarákvörðun. Boisen loftskeytamaður í Qaqortog sendi þegar í stað út, bæði gegnum talstöð og morskerfi, skilaboð til allra skipa sem hugsanlega væru á þessu svæði. Nokkur skip svöruðu strax og þýskur togari, Johannes Kruss reyndist vera næst þeim stað sem loftskeytamaðurinn á Hans Hedtoft hafði gefið upp og skipstjórinn á togaranum taldi að það tæki þrjá til fjóra tíma á komast á staðinn. Mikið íshröngl, og jakar, voru á þessu svæði og tafði það mjög ferð togarans.

Hvar var Hans Hedtoft?

Nú kom upp nýtt vandamál. Staðarákvörðunin sem loftskeytamaðurinn á Hans Hedtoft gaf upp passaði ekki við þá staðsetningu sem loftskeytamenn í Qaqortog höfðu stungið út (plottað) á sjókorti. Þýski skipstjórinn hafði líka stungið út staðsetninguna og auk þess notað miðunarstöð togarans, sem var mjög fullkomin á þeirra tíma mælikvarða Skipstjórinn ákvað að fylgja staðsetningunni sem hann og loftskeytamennirnir í Qaqortog höfðu reiknað út. Þegar þýski togarinn kom á staðinn sem miðaður hafði verið út bað skipstjórinn áhöfnina á Hans Hedtoft að skjóta upp rakettum. Eftir nokkra stund spurði loftskeytamaðurinn á Hans Hedtoft hvort áhöfnin á togaranum hefði séð þær. Svo var ekki, enda veðrið mjög slæmt. Skipstjóri togarans sagði síðar að Hans Hedtoft hefði getað verið í 30 - 40 metra fjarlægð án þess að togaramenn sæu raketturnar.

Vi synker langsomt

Klukkan 17.41 sendi loftskeytamaðurinn á Hans Hedtoft út ofangreind skilaboð á morsinu. 25 mínútum síðar heyrði loftskeytamaðurinn á togaranum ógreinilegt morsmerki og spurði ,,Hans Hedtoft ertu þarna“. Ekkert svar barst. Hans Boisen loftskeytamaður í Qaqortog og félagi hans heyrðu líka þessa ógreinilegu sendingu og voru sammála um að þetta hefðu verið þrjú orð ,,við sökkvum nú“  Þetta var það síðasta sem heyrðist frá Hans Hedtoft. Skipstjóri þýska togarans sagði síðar að hann teldi öruggt að togarinn hefði verið mjög skammt þar frá sem Hans Hedtoft hvarf í hafið en þeir hefðu eigi að síður orðið einskis varir.

Mikil en árangurslaus leit

Næstu daga fór fram mikil leit á stóru svæði á stóru svæði suður af Hvarfi, bæði á sjó og úr lofti. Veður var slæmt til leitar og ekkert fannst en áhöfn einnar leitarvélar sá eitthvað, sem virtist vera nokkrar spýtur, en það var allt og sumt.

Vakti mikla athygli

Þetta slys vakti mikla athygli víða um heim. Margir fjölmiðlar líktu slysinu við það þegar farþegaskipið Titanic fórst árið 1912. Um Titanic var sagt, eins og um Hans Hedtoft, að skipið ætti ekki að geta sokkið. Titanic var margfalt stærra skip en Hans Hedtoft, og af þeim 2224 sem voru þar um borð björguðust 710, en um Hans Hedtoft slysið var enginn til frásagnar.

Þáttur ráðherrans

Framar í þessum pistli var þess getið að skipstjórnarmenn hjá KGH hefðu lagst gegn vetrarsiglingum til Grænlands. Eftir slysið kom í ljós að þeir höfðu verið neyddir til að skrifa undir yfirlýsingu um að ekkert væri athugavert við slíkar siglingar. Johannes Kjærbøl sem var á þeim tíma ráðherra Grænlandsmála fullyrti að hann hefði ekkert vitað um efasemdir varðandi vetrarsiglingar, sér hefði einungis verið kunnugt um yfirlýsinguna um að ekkert væri athugavert við að sigla til Grænlands að vetrarlagi. Þeir sem skrifuðu undir yfirlýsinguna sögðu að Johannes Kjærbøl ráðherra  hefði vitað allt um efasemdir þeirra (sem voru til skriflegar) en hann og forsvarsmenn KGH hefðu lagt ofuráherslu þessar vetrarsiglingar.

Þingmenn danska Íhaldsflokksins, Venstre og Sósíalíska þjóðarflokksins kröfðust þess að ráðherrann yrði dreginn fyrir rétt. Ríkisstjórn sósíaldemókrata kom í veg fyrir það en samþykkti yfirlýsingu þar sem ráðherrann (sem þá var orðinn fyrrverandi) var gagnrýndur.

Tilgátur

Ekkert hefur enn komið fram sem skýrir hvað olli því að Hans Hedtoft sökk. Loftskeytamaðurinn um borð hafði sagt að sjór væri kominn í vélarrúm skipsins og minnst á ísjaka. Nokkrar tilgátur hafa komið fram en eins og áður var á minnst var skrokkur skipsins soðinn saman en ekki hnoðaður. Ein tilgátan er sú að skipið hafi siglt á ísjaka, við höggið hafi suða í byrðingi skipsins, við vélarrúmið, gefið sig með þeim afleiðingum að gat hafi komið á skrokkinn, sem var ekki tvöfaldur eins og algengt varð síðar. Og höggið hafi ennfremur orðið til þess að suður í skilrúmum sem áttu að tryggja að að skipið flyti þótt eitt hólfanna sjö, sem áður var getið, hafi gefið sig. Önnur tilgáta er að ísjaki hafi rekist á skipið aftantil og gert gat á byrðinginn. Síðan hafi skilrúmin milli hólfanna ekki reynst nægilega sterk og sjórinn smám saman komist um allt skip. En þótt tilgáturnar skorti ekki veit enginn hvað olli slysinu.

Liggur á miklu dýpi

Nokkrum sinnum hafa verið gerðar tilraunir til að finna flak Hans Hedtoft. Þær tilraunir hafa engan árangur borið, en á svæðinu þar sem skipið fórst er dýpið um það bil tveir kílómetrar. Fyrir nokkrum árum var stofnaður í Danmörku félagsskapur í þeim tilgangi að finna flak Hans Hedtoft en ekki tókst að safna nægilegum fjármunum og ekkert varð úr leitinni. 

Björgunarhringurinn

Eina sem nokkru sinni hefur fundist úr skipinu er bjarghringur sem rak á fjöru austan við Grindavík.7. október 1959, átta mánuðum eftir að Hans Hedtoft fórst fann Magnús Hafliðason bóndi á Hrauni við Grindavík björgunarhring í fjörunni neðan við bæinn. Hringurinn var heillegur og á hann letrað Hans Hedtoft København. Magnús bóndi fór með hringinn til Slysavarnafélags Íslands í Reykjavík sem kom honum áfram til Danmerkur. Fréttir af þessum fundi vöktu mikla athygli og myndir af Magnúsi bónda og björgunarhringnum voru á forsíðum allra danskra dagblaða og frá fundinum greint í fjölmiðlum víða um lönd. 

Björgunarhringurinn er varðveittur í kirkjunni í Qaqortog en í tengslum við að þess er nú minnst að 60 ár eru liðin frá slysinu við Grænland var hringurinn lánaður til Kaupmannahafnar og er þessa dagana í Holmens kirke, gegnt Kristjánsborg. 30. janúar síðastliðinn voru víða í Danmörku haldnar minningarathafnir þar sem þeirra sem fórust með Hans Hedtoft var minnst.

Þess má geta að á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn (þar sem íslenska sendiráðið er til húsa) má sjá skjöld með nöfnum þeirra sem fórust með Hans Hedtoft

Í lokin má geta þess að 21. febrúar  1967 fórst þýski togarinn Johannes Kruss (sem fyrst skipa kom á slysstaðinn 1959) á sömu slóðum og Hans Hedtoft átta árum fyrr. 22 voru í áhöfn togarans og fórust þeir allir. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ráðherra sveitarstjórnarmála mun ekki hafa frumkvæði að sameiningum sveitarfélaga með færri en 1.000 íbúa eins og upphaflega var lagt til í frumvarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Hagræn áhrif fækkunar sveitarfélaga geti orðið fimm milljarðar
Nýlega voru breytingar á sveitarstjórnarlögum samþykktar en ein meginbreytingin felur í sér að stefnt skuli að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði ekki undir 1.000 manns. Upphaflega stóð til að lögfesta lágmarksíbúafjölda.
Kjarninn 20. júní 2021
Ferli Rauða barónsins lauk á sama stað og hann hófst, á Stokkseyrarvelli sumarið 2016, er hann dæmdi leik heimamanna gegn Afríku.
Saga Rauða barónsins gefin út á bók
Rauði baróninn - Saga umdeildasta knattspyrnudómara Íslandssögunnar er ný bók eftir fyrrverandi knattspyrnudómarann Garðar Örn Hinriksson. Safnað er fyrir útgáfunni á Karolina Fund.
Kjarninn 20. júní 2021
Helga Björg segist óska þess að það væri meiri skilningur hjá fjölmiðlum á valdatengslum og á stöðu fólks í umfjöllunum.
„Framan af var aldrei hringt í mig, enginn hafði samband“
Fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjóra og borgarritara gagnrýnir fjölmiðlaumfjöllun um eineltismál í ráðhúsinu en hún upplifði stöðugt áreiti borgarfulltrúa í langan tíma.
Kjarninn 20. júní 2021
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu Seðlabankans.
Segir mikla verðbólgu bitna verst á tekjulágum
Varaseðlabankastjóri peningastefnu Seðlabankans segir áhrif mikillar verðbólgu vera sambærileg skattlagningu sem herji mest á lágtekjufólk. Samkvæmt henni er peningastefnan jafnvægislist.
Kjarninn 20. júní 2021
Tveir fossar, Faxi og Lambhagafoss, yrðu fyrir áhrifum af hinni fyrirhuguðu virkjun í Hverfisfljóti.
Auglýsa skipulagsbreytingar þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð Skipulagsstofnunar
Skipulagsstofnun ítrekaði í vor þá afstöðu sína að vísa ætti ákvörðun um virkjun í Hverfisfljóti til endurskoðunar aðalskipulags Skaftárhrepps sem nú stendur yfir. Við því var ekki orðið og skipulagsbreytingar vegna áformanna nú verið auglýstar.
Kjarninn 20. júní 2021
Christian Eriksen var borinn af velli eftir að hann hneig niður í leik Dana gegn Finnum um síðustu helgi.
Eriksen og hjartastuðið
Umdeildar vítaspyrnur, rangstöðumörk, brottvísanir eða óvænt úrslit voru ekki það sem þótti fréttnæmast í fyrstu umferð Evrópukeppninnar í fótbolta. Nafn Danans Christian Eriksen var á allra vörum en skjót viðbrögð björguðu lífi hans.
Kjarninn 20. júní 2021
Þórdís Kolbrún hafði betur í oddvitaslagnum í Norðvesturkjördæmi.
Þórdís Kolbrún sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi
Öll atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi hafa verið talin. Haraldur Benediktsson, sem leiddi listann í síðustu kosningum, lenti í öðru sæti en hann sagði nýverið að hann hygðist ekki þiggja annað sætið ef það yrði niðurstaðan.
Kjarninn 20. júní 2021
Þórdís Kolbrún tilkynnti það síðasta haust að hún myndi fara fram í Norðvesturkjördæmi og sækjast eftir oddvitasætinu.
Þórdís Kolbrún leiðir eftir fyrstu tölur í Norðvesturkjördæmi – Haraldur þriðji
Kjörstöðum hefur nú verið lokað í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Talin hafa verið 798 atkvæði úr flestum en ekki öllum kjördeildum af um 2200 greiddum atkvæðum Teitur Björn Einarsson er sem stendur í öðru sæti.
Kjarninn 19. júní 2021
Meira úr sama flokkiFólk