Þær lofttegundir sem valda gróðurhúsaáhrifum eru fjölmargar og hafa allar mismunandi eiginleika. Flest höfum við heyrt talað um koltvíoxíð sem spilar eina stærstu rulluna í þessum efnum.
Koltvíoxíðstyrkur í andrúmslofti hefur aukist gríðarlega á síðastliðnum áratugum og er það einn okkar helsti mælikvarði á hraða loftslagsbreytinga. Þrátt fyrir alla athyglina sem koltvíoxíð fær er það alls ekki sú lofttegund sem getur valdið mestum skaða.
Lofttegundin metan er nefnilega mun skæðari gróðurhúsalofttegund en koltvíoxíð. Fyrir hverja metansameind í lofthjúpnum eru 380 kotvíoxíðssameindir, en þrátt fyrir þetta skekkta hlutfall er koltvíoxíð ábyrgt fyrir 82% gróðurhúsaáhrifa og metan 18%.
Það er því akkur í því að losa sem minnst af metani útí andrúmsloftið. En það er hægara sagt en gert. Metan myndast t.d. í miklu magni þegar bakteríur brjóta niður matvælin okkar og ruslahaugar landsins losa heilmikið metan, sem oftar en ekki er lítið nýtt.
Til að koma í veg fyrir að metanið fara beint upp í andrúmloftið hefur vísindahópur við Stanford University gert líkan af nokkurs konar metanbindandi loftræstingu. Í henni felst að soga inn loft, festa metanið og breyta því svo í koltvíoxíð.
Til að þetta efnahvarf megi eiga sér stað er loftið sogað inní málmsvampa sem kallast zeolite. Zeolite er að mestu samsett úr áli, kísil og súrefni. Inní þessum málmsvömpum eru svo efni eins og kopar og járn sem binda metanið.
Gasið er svo losað sem koltvíoxíð út í andrúmsloftið. Það orkar tvímælis að binda metan til að losa það út í formi annarrar gróðurhúsalofttegundar en eins og segir hér að ofan er metan samt sem áður mun erfiðari lofttegund þegar kemur að gróðurhúsaáhrifum í samanburði við koltvíoxið.
Þar að auki bindur rannsóknarhópurinn vonir við að geta bundið fleiri gróðurhúsalofttegundir á svipaðan hátt, þar á meðal mögulega koltvíoxíð. Sem er þá breytt í aðrar gastegundir sem hafa minni áhrif á andrúmsloftið.