Hér í höfuðborginni hefur nýliðið sumar líklega verið sett ofarlega á lista margra íbúa sem besta sumar allra tíma. Veðurblíðan hefur leikið við íbúa suður og suðvesturhluta þessarar eyju.Á meðan við fögnum þessum bættu lífsskilyrðum fyrir okkur sem hér búum er samt sem áður ört hækkandi rödd innra með okkur sem varar við því að þessi þróun er líklega ekki eðlileg.
Hamfarahlýnun er nú löngu hætt að vera fyrirbæri sem við getum sagt að komi seinna eða einhvers staðar annars staðar. Við erum áþreifanlega farin að finna fyrir henni. Hér á Íslandi með hætti eins og fleiri jakkalausum dögum utandyra og minningarathöfn um fyrsta jökulinn sem hvarf, Ok.
NOAA eða National Ocean and Atmosphere Administration, birti á dögunum skýrslu sína sem sýnir hvernig hitastig jarðar fer hækkandi með hverju árinu. Samkvæmt henni var síðastliðinn júlímánuður sá heitasti síðan mælingar hófust fyrir 140 árum. Þar sem meðalhitinn yfir mánuðinn var heilli gráðu hærri en meðaltalið.
Að sama skapi mældust íshellur á hafi minni en í meðalári, hvort sem er litið til norður eða suður heimsskautanna. Hafísinn var í báðum tilfellum sá minnsti sem mælst hefur, þegar horft er til alls 2019.
Sem betur fer virðist vera vitundarvakning meðal manna um allan heim. En vitundarvakning er ekki nóg til að stöðva hækkun hitastigs í heiminum. Stjórnvöld í heiminum verða að fara að setja sér markmið svo almenningur geti auðveldlega lagt sitt af mörkum til að sporna við hamfarahlýnun.