Í gær hélt Apple sinn árlega september viðburð. Kynntir voru þrír nýir símar, uppfært úr og ný grunnútgáfa af iPad. Einnig fengum við loks að vita verð og útgáfudag á Apple TV+ og Apple Arcade þjónustunum. Eins og síðustu ár fór viðburðurinn fram í Steve Jobs Theater. Hér verður farið yfir það markverðasta sem fram fór.
Þrír nýir símar
Eins og spáð hafði verið þá kynnti Apple þrjá nýja síma. Fyrsti síminn var iPhone 11, arftaki iPhone XR, síminn fyrir massann. iPhone 11 lítur í grunninn eins út og forverinn en hefur þó fengið ýmsar uppfærslur.
Framhliðin er eins og áður, en bakhliðin er núna úr hertu gleri sem á að vera mun höggheldara en samskonar gler á eldri símum. Á bakhliðinni eru nú tvær myndavélar í stað einnar áður. Önnur er ofur víðlinsa (e. ultra-wide) og hin víðlinsa (eins og er á símanum þínum í dag). Þetta er því önnur nálgun á tveggja myndavélakerfi en við höfum séð í iPhone 8 Plus, iPhone X og iPhone XS. Þeir símar voru allir með eina víðlinsu og aðra aðdráttarlinsu. Hvort þessi nálgun sé betri eða verri á eftir að koma í ljós.
Apple sýndi ýmis dæmi um framfarir í myndavélinni við léleg birtuskilyrði, upptökur á myndskeiðum og frægir ljósmyndarar gerðu hrein listaverk á augabragði. Hvort það gagnast við að taka mynd af skítugum börnum á blautum 17. júní er svo annað mál. Night mode er viðbót við myndavélar-appið sem hjálpar þér að taka betri myndir við mjög léleg birtuskilyrði. Þetta er sérstök stilling sem þarf að kveikja og slökkva á svipað og Night Sight á Pixel 3 símanum frá Google. Portrait mode hefur einnig verið uppfært og ræður nú einnig við dýramyndir. Sjálfu myndavélin fær stuðning við hæg myndskeið (e. slow motion) og fær þessi eiginleiki hið sérstaklega óþolandi markaðsnafn Slofies. Nýtt vopn í vopnabúr áhrifavalda um allan heim sem verður án efa misnotað.
Hátalarar símans hafa verið uppfærðir með Spacial Audio og stuðningi við Dolby Atmos. Þetta bætir væntanlega hljóminn eitthvað en ekki búast við heimabíó í símanum. Síminn styður einnig þráðlausa hleðslu líkt og forverinn.
Síminn kemur í sex litum: Svörtum, hvítum, gulum, rauðum, grænum og fjólubláum. Verðið er $699 sem er $50 lækkun frá iPhone XR. Síminn ætti því að kosta á bilinu 115 til 120.000 kr. á Íslandi þegar hann kemur í sölu í byrjun október.
Þar sem fagmennirnir versla
Hinir tveir símarnir sem Apple kynnti voru iPhone 11 Pro og 11 Pro Max. Þessir símar leysa iPhone XS og XS Max af hólmi. Þessi nafnabreyting á iPhone yfir í Pro hefur verið spáð lengi og í takt við aðrar vörur Apple. Út frá kynningu Apple er fagmaðurinn sem síminn er hugsaður fyrir sá sem tekur ljósmyndir og myndskeið, þarf að gera það í mestu mögulegu gæðum og vill vinna þær á í símanum. Mögulega minna mengi en evrópusinnaðir Miðflokksmenn en skýrt sjónarhorn engu að síður.
Útlitið er að mestu eins, glerið á bakhliðinni endurbætt og bungan fyrir myndavélina höfð mun stærri til að rúma þrjár myndavélar. iPhone XS var með víðlinsu og aðdráttarlinsu en 11 Pro bætir við ofur víðlinsu eins og á iPhone 11.
Apple tók stóran hluta af kynningunni í að sýna myndavélina. Allt betra og flottara. Síminn getur, með viðbótarhugbúnaði, tekið myndskeið á tvær myndavélar í einu, líka sjálfu myndavélina. Þannig er hægt að taka sama atriðið upp með mismunandi hætti á sama tíma, skipta á milli aðdráttar og víðlinsu í rauntíma og í klippingu. Apple sýndi einnig Deep Fusion viðbót við iOS 13 sem á að gefa miklu betri myndir og myndskeið við léleg birtuskilyrði með hjálp vélarnáms. Viðbótin kemur seinna í haust með hugbúnaðaruppfærslu. Skjárinn hefur verið bættur og kallast nú Super Retina XDR í takt við fagmannaskjáinn sem Apple kynnti í sumar.
Margt áhugavert þarna og kynningin sannarlega sniðin að fagmönnum. Pro eins og í fyrir fagmanninn, ekki Pro eins og í dýrari týpan eins og hefur verið allt of algengt með margar Apple vörur sem hafa Pro í nafninu. Síminn er með A13 Bionic örgjörva og er hann mun öflugri en forverinn en á sama tíma notar hann mun minni orku. Það skilar sér í 4 tíma betri rafhlöðuendingu í 11 Pro og 5 tímum lengri endingu í 11 Pro Max.
Síminn kemur í nýjum grænum lit ásamt Space Gray, silfur og gull. Verðið helst óbreytt, $999 fyrir iPhone 11 Pro og $1.099 fyrir 11 Pro Max. Símarnir koma í sölu í Bandaríkjunum 20. September og ættu að koma hingað í byrjun október.
Þessu til viðbótar verður iPhone XR áfram í sölu á $599 og iPhone 8 á $449. Hávær orðrómur um uppfærðan iPhone SE næsta vor sem mun mögulega breyta þessari uppröðun eitthvað.
Uppfært úr
Þegar röðin kom að Apple Watch var myndskeið sýnt þar sem mismunandi einstaklingar sögðu frá því hvernig Apple Watch hefur breytt lífi þeirra til hins betra. Hvort sem það var hvatning til hreyfingar, tæki til að greina hjartsláttartruflanir eða öryggistæki við fall þá var þetta gott dæmi um stöðu Apple á snjallúramarkaðnum.
Apple er í sérdeild og fáir samkeppnisaðilar í sjónmáli. Eftir myndskeiðið var Apple Watch Series 5 síðan kynnt. Útlitið helst óbreytt frá fyrri útgáfu. Stærsta breytingin er möguleiki á að hafa alltaf kveikt á skjánum. Úrskífur og öpp breytast þá í einfaldari útgáfur þegar skjárinn dofnar en samt sjást allar lykilupplýsingar á skjánum. Þannig er hægt að sjá hvað klukkan er, sjá hlaupahraðann, brennslu og aðrar upplýsingar án þess að þurfa að lyfta hendinni upp eins og steinaldarmaður. Með nýrri skjátækni og uppfærðum örgjörva næst fram nægur orkusparnaður til þess að þetta á ekki að hafa áhrif rafhlöðuendingu og úrið ætti því að duga daginn og rúmlega það.
Einnig er innbyggður áttaviti sem nýtist vel í forritum sem nota kort og staðsetningu. Eins og spáð hafði verið kemur úrið í tveimur nýjum efnisgerðum umfram ál og ryðfrítt stál. Nýju efnisgerðirnar eru títan í svörtu og gráu og svo hvítt keramik. Bæði efnin eru vinsæl hjá framleiðendum hágæða úra og því góð viðbót.
Verðið helst óbreytt á grunntýpunni ($399) og stál útgáfunni ($599). Apple Watch Edition í títan kostar $799 og keramik $1.299. Ólíklegt er við fáum nokkrar útgáfur í sölu aðrar en grunntýpuna úr áli því aðrar týpu koma staðlað með 4G stuðningi sem er ekki í boði á Íslandi, enn sem komið er. Apple Watch Series 3 heldur áfram í sölu á $199.
Uppfærður iPad
Eina varan sem var á annað listanum í upphitunargrein minni sem lét sjá sig var grunnútgáfan af iPad. Hún fékk síðast uppfærslu vorið 2018 og því kominn tími á uppfærslu. Þegar Apple kynnti fimmtu kynslóð iPad árið 2017 þá var hún talsvert hliðarskref frá fyrri útgáfum. Hún var þykkari og aflminni en forverinn iPad Air 2, raunar nær iPad Air að flestu leyti. Allt gert til að ná niður kostnaði.
2018 útgáfan lagaði mikið af þessum vanköntum, sem var léttari og þynnri og skjárinn mun betri. Með iPad 2019 tekur Apple enn þá stærra skref. Skjárinn fer úr 9.7“ í 10.2“ sem gerir rammann nettari og útlitið í takt við iPad Air sem fór í sölu í sumar. Skjárinn hefur einnig verið bættur.
Örgjörvinn er sá sami og í fimmtu útgáfu iPad frá 2018. Sá var seint talinn hægur þannig að þetta ætti varla að vera mikið vandamál, sérstaklega ef að minnið hefur verið aukið, sem enn er óvíst enda gefur Apple aldrei upp vinnsluminni í iOS tækjum. Einnig er stuðningur við lyklaborð og penna.
Verðið helst óbreytt frá fyrri útgáfu eða $329. Eins og á snjallúramarkaðnum er Apple í raun að keppa í sér deild. Enginn selur spjaldtölvur í neinu magni nema þær kosti um og undir $100 og gæðin eftir því. Samsung hefur reyndar náð ágætis árangri með sínar A-línu spjaldtölvur en það er í raun eina samkeppni Apple. Óhætt er að segja að heildarlína Apple í spjaldtölvum sé orðin nokkuð þétt og flestir ættu að geta fundið eitthvað við hæfi.
Annað
Engar aðrar græjur voru kynntar á viðburðinum en þær sem farið hefur verið yfir en verð og útgáfudagar var gefinn upp fyrir Apple Arcade og Apple TV+. Apple Arcade er áskriftarþjónusta fyrir tölvuleik, sem kostar $4.99 og fyrir það fæst aðgangur að yfir 100 leikjum sem virka jafnt á iPhone, iPad, Apple TV og Mac. Hægt er að hoppa á milli, spila leik í strætó úr vinnu og grípa þráðinn í Apple TV þegar heim er komið. Þjónustan kemur í sölu 20 September í yfir 150 löndum og allir sem vilja geta fengið einn mánuð af prufuáskrift.
Apple gaf einnig út útgáfudag fyrir sjónvarpsþjónustuna Apple TV+. Hún kemur 1. nóvember og kostar einnig $4.99. Apple TV+ kemur í yfir 100 löndum (talsvert færri en Apple Arcade). Þeir sem kaupa nýjar Apple græjur fá 1 ár frítt af Apple TV+. Þegar þetta er ritað hefur Apple ekki enn gefið út lista yfir þau lönd sem fá þessar tvær þjónustur og því óvíst hvort Ísland verður eitt af þeim.
Ekkert annað var kynnt. Ekkert Apple Tag, ekkert nýtt Apple TV né 16“ Macbook Pro. Líklegt er að Apple haldi annan viðburð í október, kynni þar þessar græjur og fari betur yfir þjónusturnar og þá möguleg magnafslátt fyrir þá sem kaupa fleiri en eina þjónustu.
Heilt yfir var þessi viðburður góður. Þétt keyrsla og lítið um óþarfa. Áhugavert þó að ekkert var talað um „Viðbótar veruleika“ (AR) eins og hefur verið stór hluti af kynningum Apple síðustu árin. Mikið var af nýjum andlitum hjá Apple og stærra hlutfall af konum en oft áður. Jákvæð þróun og augljóst að mikil endurnýjun er að eiga sér stað hjá Apple.
Í Tæknivarpinu á föstudaginn verður viðburðinum gerð ítarleg skil og kafað dýpra ofan í viðburðinn.