Hugmyndin um bestu plötuna hverju sinni byggist eingöngu á skoðun minni og þekkingu. Skoðunin er oftast mjög sterk en þekkingin getur verið allavega. Þannig hika ég ekki við að tilnefna bestu plötuna og þá skiptir engu hvort ég þekki allar útgáfur viðkomandi mjög vel eða bara þessa einu – já eða eitthvað þar á milli.
Ég er þess vegna alltaf til í rökræður og uppfræðslu frá lesendum sem annað hvort vita betur eða telja sig vita betur. Aðalmálið er að hlusta á og ræða hljómplötur sem heild, bestu plötuna í hvert skipti.
Hljómsveitin The Cure var stofnuð árið 1976 í West Sussex á Englandi. The Cure hefur gefið út 13 breiðskífur á ferlinum:
Kiss Me, Kiss Me, Kiss Me (1987)
Ég held að engum dyljist að The Cure er hljómsveitin hans Robert Smith og í ströngustu skilgreiningu má rekja sveitina aftur til ársins 1973. Þá var hann 14 ára gamall og næstu árin flaut hann um í einhverju hljómsveitarsamhengi í slagtogi við aðra.
Hann var hvorki forsöngvari eða eini lagasmiðurinn í hópnum og ekkert sem benti sérstaklega til þess að hann yrði sá sem hann síðar varð. Smátt og smátt færðist hans þáttur þó í aukana og eftir að bandið hafði breytt nafninu úr Easy Cure í The Cure var ljóst í hvað stefndi. Fyrsta platan kom út 1979 og vakti mikla athygli, hann nýorðinn tvítugur og framtíðin björt eins og sagan hefur síðan sannað. Við komum hinsvegar til leiks um tíu árum síðar, árum sem þeir notuðu til þess að gefa út heilar 7 breiðskífur, hvorki meira né minna. Eitísið er næstum því liðið og bandið orðið eitt af þeim allra stærstu í heiminum. Smith er 29 ára og í tilvistarkreppu.
Ólöglegur dráttarvélarökumaður
Ég heyrði Disintegration fyrst árið 1992. Ég var 14 ára gamall og í sveit allt sumarið. Ég var þarna byrjaður að hlusta á allskonar tónlist, mestmegnis þunga. Þetta sumar var keyptur Zetor á bæinn, dráttarvél með yfirbyggðu húsi. Fram að því höfðum við setið í kuldanum og hávaðanum á tveimur opnum Massey Ferguson-vélum en nú gat maður unnið í ylnum og jafnvel heyrnarhlífalaus því húsið var þónokkuð þétt. Og aðallúxusinn, maður minn, var snældutæki.
Ég fór sérferð í kaupstaðinn til þess að kaupa óáteknar snældur og valdi síðan úr vínylplöturekkanum þær plötur sem ég vildi hafa með mér út í vinnudaginn. Europe, Metallica, Bon Jovi, Nirvana, Sepultura. Þessa tegund tónlistarinnar færði ég af mínum eigin plötum yfir á bandið því ég hafði vitanlega mætt í sveitina með ágætis vínylstafla. En frændsystkini mín áttu líka plötur, þau voru örlítið eldri en ég og höfðu dottið ofan í eitíspottinn. Duran Duran. Limahl. Aha. Og sirka hillumetri í viðbót.
Ég prófaði að setja þetta allt saman á fóninn og fann fljótt fjölina mína. Tyggjópoppið átti illa við mig en það sem þau vildu kalla nýbylgju var mitt stöff. Pixies. The Smiths. Og The Cure. Ég man vel að ég átti þrjár nákvæmlega eins TDK-kassettur, og á hverja þeirra setti ég eina plötu með hverju bandi. Og á einni þeirra var Disintegration. Hún komst ekki alveg öll fyrir heldur klipptist af einu lagi enda spólan bara 60 mínútur. Vínyllinn er næstum nákvæmlega klukkutími og ónýttur spotti á A-hliðinni varð mér að falli. Mér þykir gaman að nefna það sérstaklega að þetta tiltekna vínyleintak er í minni vörslu í dag, merkt fangamarki frænku minnar innan í umslagið.+
Ég man eftir að hafa tekið aukahringi á túninu til þess að geta hlustað lengur á tónlist þegar vinnudeginum var að ljúka. Pixies og The Smiths, þar voru aðgengilegir smellir sem ég gat fljótt sungið með. Djöfull var gaman. En þetta. Mér leið öðruvísi þegar ég hlustaði á Disintegration. Síðsumarskvöld í íslenskri náttúru, ég, hundurinn og dráttarvélin á leiðinni heim eftir að hafa gefið hestunum. Og þetta var hljóðmyndin. Ég man eftir handolíugjöfinni, hvernig ég horfði niður á framhjólin í gegnum glerbúrið og sá þau dúa á vökvatjökkunum, hvernig ég sá sólina hverfa bakvið fjöllin, hvernig ég klóraði Kátu bakvið eyrun og naut þess að vera 14 ára að uppgötva tónlistina og sjálfan mig.
30 ára ellismellur
Smith hafði fundið það út að öll meistaraverk tónlistarsögunnar hefðu verið samin af listafólki áður en það náði þrítugu. Það féll honum þungt. Á 29 ára afmælisdaginn sinn hóf hann að semja tónlist af miklum móð, endurnýjaði kynni sín við ofskynjunarlyf og gotnesku áhrifin sem höfðu verið ráðandi hjá The Cure á fyrir hluta áratugarins.
Síðan hafði harkalega sígið á popphliðina, bæði vegna þess að tíðarandinn kallaði á það en einnig vegna áhrifa frá öðrum stofnmeðlimi, Lol Tolhurst, sem var upphaflega trymbill en þarna hljómborðsleikari og hallur undir auðmeltanlegri tónlist. Nákvæmlega á þessum tíma og þá sérstaklega á tónleikaferðalagi fyrir plötuna sem á undan fór hafði Tolhurst misst alla stjórn á áfengisneyslunni og að lokum settu aðrir meðlimir bandsins það í hendur Smith að reka manninn sem féll honum þungt. Það gerðist þó ekki fyrr en við upptökur Disintegration en þá hafði Tolhurst verið svo gott sem óstarfhæfur og framlag hans í lágmarki.
Smith samdi óhemju magn af tónlist án þess svo mikið að nefna það við aðra meðlimi og vissi ekkert hvernig þeir myndu taka í framtakið og var með það sem varaplan að gefa út sólóplötu. Þessi þunglyndi tónn var allsráðandi og seinna hefur hann sagt að ástæðan fyrir því hafi verið einföld. Hann var að verða þrítugur og það féll honum svona óskaplega þungt. Þrátt fyrir að hann segi gjarnan frá þessu á gamansaman hátt í seinni tíð má öllum vera ljóst að þunglyndi hefur farið illa með Smith í gegnum tíðina.
Allt bandið tók framtakinu opnum örmum og sagan segir að til séu 32 lög á demóupptökum sem hafi síðan verið skorin niður í 12. Allir segjast þeir hafa vitað frá upphafi að platan yrði meistaraverk en þrátt fyrir háværar raddir þess efnis að Smith hafi samið alla tónlistina einn hefur hann þvertekið fyrir það. Hans er þó ríkið, mátturinn og dýrðin og hin meðvitaða ákvörðun um að búa til drungalega og grásvarta þunglyndisplötu þvert á allar væntingar hins poppþyrsta markaðar sem beið eftir einhverju svipuðu og hafði einkennt plötuna á undan.
Lögin sem byrja aldrei
Ég ætla ekki að sannreyna þessa fullyrðingu áður en ég set hana hér fram: Öll lögin á Disintegration fá að hljóma í að minnsta kosti 2 mínútur áður en Robert Smith byrjar að syngja. Ókei, kannski ekki Lovesong sem er næstum því augljóslega samið sem smáskífukandídat.
Og sennilega eru fleiri undantekningar. En þetta er gegnumgangandi þema, þessi ótrúlega þolinmæði og traust á tónsmíðunum. Allt er löðrandi í gítareffektum og hljómborðin spila ofboðslega rullu, ekki síst fyrir tilstilli Roger O’Donnell sem gerður var að fullgildum meðlimi eftir að Tolhurst var látinn fara. O’Donnell þessi á svo vitanlega stóra Íslandstengingu og spilar meðal annars gestahljómborð á Lof mér að falla að þínu eyra með Maus.
Platan sló vitanlega í gegn og varð þeirra stærsta þegar upp var staðið. Disintegration hefur selst í meira en þremur milljónum eintaka og um hana flýtur ljómi sem erfitt er að skilgreina. Hún er óskiljanleg. Hún er löng. Hún er súpa af hljóðum og angurværð. Sorg, slen, yfirlæti, sjálfseyðing. Tilgerð jafnvel. En hún er meistaraverk. Hún fangar mann og heldur svo bara. Klukkutími og korter og svo máttu anda aftur. Nema að þú sért að hlusta á vínylútgáfuna. Þar eru tveimur lögum sleppt og við fáum að anda rétt á meðan við snúum plötunni við. Mér finnst hún betri á vínyl. Eða kannski bara auðveldari. Besta lagið er Fascination Street þótt ekki væri nema bara fyrir hið ótrúlega bassasánd sem Simon Gallup ber ábyrgð á.
Pictures of You er svo mögulega fallegasti texti sem saminn hefur verið. Hann hefst svona:
I've been looking so long at these pictures of you
That I almost believe that they're real
I've been living so long with my pictures of you
That I almost believe that the pictures
are all I can feel
Og þessi rödd sem maður trúir bara og grætur með.
60 ára unglingur
Smith er nákvæmlega tvöfalt eldri nú þegar þetta er skrifað, sextugur síðan í apríl og virðist vera sáttari við lífið og menn. Það er áhugavert að velta því fyrir sér að á þeim 30 árum sem liðið hafa frá útgáfu Disintegration hefur The Cure aðeins gefið út 5 plötur. Átta á fyrstu tíu árunum og bara fimm síðan. Og eins óhuggulega og það hljómar er líklegt að Smith hafi haft rétt fyrir sér því við höfum ekki fengið meistaraverk síðan. Ég hef þó hlustað á flestar plöturnar sem á eftir komu og var til að mynda mjög ánægður með Bloodflowers sem kom út árið 2000.
Hann hefur aldrei orðið sér til skammar tónlistarlega en ég býst nú ekki við að hann skáki meistaraverki sínu héðan af. The Cure hefur þó sennilega aldrei verið stærri í dag. Þeir gera eins og þeir nenna og fylla leikvanga ef þeir hafa fyrir því að ræsa vélina. Eitthvað sem Robert Smith sagði að hefði einmitt verið það sem hann hefði reynt að koma í veg fyrir. Þetta hefði ekki átt að verða svona stórt. Hann vildi víst bara vera venjulegur og þunglyndur í friði. Ojæja. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hann hafi ekki verið mjög harður í afstöðu sinni gegn frægðinni enda þótt þessi 75 mínútna þolraun hafi kannski ekki verið augljós uppskrift að frama.
Í dag rata mörg lög af plötunni á tónleikaprógramið og engin önnur plata sem þeir sinna betur. Facination Street, Lullaby og Pictures of You hljóma næstum alltaf og nokkur til viðbótar mjög oft. Það er eitthvað stórkostlegt við þá staðreynd að þetta þunglyndisverk fái meiri tíma á tónleikum en allir poppsmellirnir. The Cure í hnotskurn.
Ég hvet ykkur öll til að hlusta á þetta meistaraverk í heild. Hér er mín skoðun en ég skal glaður rökræða hana: Disintegration er besta platan með The Cure.
Lagalisti:
01 – Plainsong
02 – Pictures of You
03 – Closedown
04 – Lovesong
05 – Last Dance
06 – Lullaby
07 – Fascination Street
08 – Prayers for Rain
09 – The Same Deep Water as You
10 – Disintegration
11 – Homesick
12 – Untitled