Drykkja áfengis er stór þáttur í félagslegri hegðun okkar á vesturlöndum. Þó að notkun þessa fíkniefnis sé bæði lögleg og viðurkennd þá er áfengi í stórum og tíðum skömmtum alls ekki hollt.
Flestir vita að ofneysla áfengis er óholl, en margir upplifa vanmátt sinn gagnvart því þegar kemur að félagslegum viðburðum og drekka þess vegna meira eða oftar en þeir myndu mögulega kjósa. Það getur verið erfitt að sannfæra heilann um að breyta út af vananum.
Samkvæmt lítilli rannsókn sem birt var í Nature communications er hægt að sannfæra heilann um að gleðin þarf ekki að búa í ölglasinu, trixið er bara örlítil lyfjagjöf.
Í rannsókninni voru þátttakendur 90 karlar og konur sem töldu sig drekka helst til of mikið. Rannsóknin gekk út á að búa til góða minningu tengda bjórdrykkju í eitt skipti á rannsóknarstofunni og reyna síðan að bæla þá minningu. Rannsakendur gengu út frá því að ástæða þess að fólkið taldi sig drekka of mikið var vegna gleðiminninganna sem heilinn tengdi áfengisneysluna við.
Eftir fyrstu tilraun þar sem bjórdrykkja var tengd við gleðiminningar sneri hópurinn aftur á rannsóknarstofuna og var þá skipt í þrennt. Einn hluti fékk smáskammt af ketamíni áður en reynt var að kalla fram gleðiminningar með mynd af áfengi. Einn hluti fékk sama skammt af ketamíni áður en reynt var að kalla fram gleðiminningar með mynd af appelsínusafa og þriðji hluti hópsins fékk ekkert ketamín en reynt var að kalla fram gleðiminningar með mynd af áfengi.
Hópurinn var síðan beðinn um að meta löngun sína í áfengi viku eftir tilraunina. Þar kom í ljós að þeir sem fengu ketamín áður en þeir sáu áfengi voru ólíklegri til að langa í áfengi í samanburði við hópinn sem ekki fékk ketamín. Reyndar voru áhrifin enn til staðar 9 mánuðum síðar þegar hópurinn var skoðaður á ný.
Hér er þó um að ræða mjög litla rannsókn þar sem þátttakendur þurfa sjálfir að leggja mat á eigið ástand. Enginn af þátttakendunum í rannsókninni var með greindan alkóhólisma en að eigin sögn töldu þau sig neyta of mikil áfengis.
Ketamín er deyfandi lyf sem helst er notað sem róandi lyf eða við miklum sársauka. Nýjustu rannsóknir benda til þess að lyfið geti einnig haft áhrif á þunglyndi.
Þó hér hafi sést marktækur munur milli þeirra sem fengu lyfið (ketamín) og þeirra sem ekki fengu lyf var hópurinn líka þannig samsettur að flestir sem tóku þátt höfðu löngun til að minnka drykkju.
Þessar niðurstöður sýna þess vegna kannski helst að mögulega er hægt að nota lyf eins og ketamín til að hjálpa til við að minnka drykkju. En ekki er víst að lyfið geri mikið gagn þegar áfengisneyslan er komin á alvarlegt stig.