Leikhúslistakonur 50+ í samstarfið við Þjóðleikhúsið: Konur & krínólín
Handrit: Edda Björgvinsdóttir
Leikstjórnarteymi: Edda Björgvins, Kolbrún Halldórsdóttir og Edda Þórarinsdóttir
Svið: Elín Edda Árnadóttir
Búningar og útlit: Helga Björnsson
Hárgreiðsla: Guðrún Þorvarðardóttir
Sviðshreyfingar: Ásdís Magnúsdóttir
Ljósahönnun: Jóhann Friðrik Ágústsson
Leikkonur: Bryndís Petra Bragadóttir, Edda Björgvins, Guðbjörg Thoroddsen, Júlía Hannam, Kolbrún Halldórsdóttir, Lilja Þórisdóttir, Ólöf Sverrisdóttir, Rósa Guðný Þórsdóttir, Salvör Aradóttir, Vilborg Halldórsdóttir.
Ekki verður annað sagt en sýning Leikhúslistakvenna 50+, Konur og krínólín sé áferðarfallegt augnayndi. Hér birtast eins og á færibandi alls konar sköpunarverk kjóla frá ýmsum tímum sögu kvenfatatískunnar og bornir af glæsilegum konum sem augljóslega njóta þess að bera þá og segja sögu þeirra.
Öðru fremur má nefnilega segja að Konur og krínólín segi sögu kvenfatatískunnar – sem hefur nú ekki alltaf haft að útgangspunkti að gera lífið bærilegt konum eða þægilegt. Í sýningunni Konur & krínólín birtast alls konar tilkomumiklar „kreasjónir“, yfirferðin hefst á krínólínum, sem urðu aðalkvenfatatískan á seinni hluta 19. aldar og sem hefði í raun verið gaman að heyra meira um – fyrst þegar í upphafsorðum sýningarinnar var m.a. minnst á þetta, að kvenfatatískan hefði aldeilis ekki verið til að auka konum þægindin.
Það hefði að ósekju mátt fara lengra inn á þá braut; konum voru krínólínurnar beinlínis lífshættulegar; þær voru gerðar úr taglhári, fléttuðum með líni og gríðarlega eldfimar. Það er talið að mörg þúsund konur hafi orðið eldi að bráð þar sem þær stóðu í eldhúsinu og dúllur og tau í krínólínunum kom of nálægt eldavélinni og konurnar breyttust í kyndla, sem fuðruðu upp enda bæði tagl, lín og kjólefnið eldfimt með afbrigðum. Þá eru til frásagnir af konum sem unnu í verksmiðjum þeirra tíma – seinni hluta 19. aldar, byrjun þeirrar 20. – sem urðu fyrir því að krínólínurnar festust í vélunum, drógu varnarlausar konurnar inn í reimar og spil þar konurnar mörðust eða heinlega kubbuðust sundur. Og ekki var vinnustaðaeftirliti til að heilsa; karlarnir létu sér nægja að benda á að sannur sjentilmaður viki úr vegi og stigi út á götu þegar konur í krínólínum yrðu helstil fyrirferðamiklar á gangstéttinni.
En Konur & krínólín er auðvitað fyrst og fremst til gamans gert og stendur fyllilega undir því. Enda má til sanns vegar færa að krínólín urðu ekki sá vandi hér á landi eins og í iðnaðar- og borgarsamfélögum Evrópu og Bandaríkjanna. Hér urðu þær fyrst og fremst skemmtilegt tákn útlendrar borgaratísku og líklegast að íslenskri alþýðu hafi þótt fyndið að sjá danskar kaupmannsfrúr tipla til kirkju á sunnudögum í slíkri múnderingu yfir drullugan Austurvöllinn.
Öllu þessu og meira til bregður fyrir í stuttum atriðum sem aukinheldur vekja upp anda hvers tíma, annað hvort með látbragði eingöngu eða einnig í stuttum samtölum, hnyttnum og hnitmiðuðum. Það leið ekki á löngu þar til vonlaust var að telja þann fjölda kjóla og klæðnaða sem birtust og hurfu, enda hefur tískan á seinni árum tekið örum og skjótum breytingum og þarf augljóslega meira en meðalkonu til að henda reiður á sviptivindum tískunnar. Og svo því sé til haga haldið – tískustraumarnir komu á köflum róti á fulltrúa feðraveldisins, sem birtast hér af og til, íhaldssamir karlpungar sem hafa auðvitað skoðanir á því þegar konurnar virðast ætla að gerast helstil sjálfstæðar. Góð áminning um að saga tískunnar og saga kvenréttinda fer ávallt saman og að enn er heilmargt starf óunnið þegar kemur að því að konur séu jafnréttháar körlum í öllu tilliti, ekki síst menningarlega!
Sú sem ber ábyrgð á öllum þeim búningum sem bregður fyrir í Konur & krínólín er Helga Björnsson og nafn hennar ætti að vera flestum kunnugt. Helga hefur um árabil starfað í tískuheimi Evrópu og hefur getið sér gott orð sem hönnuður; hún var búsett í Bretlandi og Frakklandi frá þrettán ára aldri, lauk námi í fatahönnun Les Arts Decoratives í París og starfaði um árabil sem aðalhönnuður við Haute Couture í tískuhúsi Louis Feraud í París. Helga hefur einnig hannað búninga fyrir bæði Þjóðleikhúsið og Íslensku Óperuna og vann til Grímuverðlauna fyrir búninga sína í Íslandsklukkunni.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvílík fagmennska liggur að baki búningunum – hér er nostrað við hvert smáatriði af þekkingu á sögu hvers búnings og því tímabili sem umlukti stíl og stemningu. Búningarnir eru flugeldasprengin í munstrum og litum og sú tilfinning er vitaskuld efld með viðeigandi tónlist. Þetta er „mikið sjó“ og þá hefur ekki enn verið minnst á hin öru búningaskipti sem ganga að því er best verður séð snurðulaust fyrir sig. Og ekki má gleyma sviðshreyfingum, sem Ásdís Magnúsdóttir hefur stýrt af öryggi og með næmu auga fyrir hreyfingum hvers einstaks tímabils – og ekki lítið afrek það! Ásdís nam listdans í Listdansskóla Þjóðleikhússins og eftir það í New York og starfaði svo í tæpa tvo áratugi með Íslenska dansflokknum og dansaði með honum nokkur helstu aðalhlutverk í þekktustu dansverkum heimsins.
Það væri að æra óstöðugan að fjalla sérstaklega um hverja og eina leikkonu sem hér kemur fram, hver og ein í fjölda hlutverka og sýnir þar með fjölbreytileik í sviðsframkomu og tjáningu. Þó verður ekki hjá komist að nefna hlut sögukonunnar sem heldur utanum allan gjörninginn og tengir atriðin saman og þau við hin mismunandi tímabil. Edda Björgvins fer hér á kostum og nær frá fyrsta andartaki tökum á áhorfendum og fleytir gjörningnum áleiðis með bæði fróðleik og húmor. Hún sannar hér – og var þó búin að því svo ekki yrði í efa dregið – að hún er, að öðrum gamanleikkonum ólöstuðum, albesta komedienne íslenskrar leiklistar. En þó má geta þess, að flestar þær leikkonur sem hér stíga fram, dansa og tjá mismunandi tímabil tískustrauma, eru flottar gamanleikkonur líka, ef því er að skipta. Takið bara eftir spili augna og augngotum, léttum höfuðhnykkjum og kersknislegu yfirbragði í samskiptum við áhorfendur. Það þarf ekki að draga í efa að leikhúslistakonur 50+ búa ekki einasta yfir ríkum hæfileikum (sem leikhúsin mega vel nýta mun betur en gert er!!!) heldur kunna þær að miðla taumlausum þokka, fegurð, töfrum og glæsibrag – og hinu líka þegar þess er þörf!