Krínólín, kjólar og ómældur kvennakraftur!

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um Konur & krínólin eftir Eddu Björgvinsdóttur.

tiska_syning (209 of 209).jpeg
Auglýsing

Leikhúslistakonur 50+ í samstarfið við Þjóðleikhúsið: Konur & krínólín

Handrit: Edda Björgvinsdóttir

Leikstjórnarteymi: Edda Björgvins, Kolbrún Halldórsdóttir og Edda Þórarinsdóttir

Svið: Elín Edda Árnadóttir

Búningar og útlit: Helga Björnsson

Hárgreiðsla: Guðrún Þorvarðardóttir

Sviðshreyfingar: Ásdís Magnúsdóttir

Ljósahönnun: Jóhann Friðrik Ágústsson

Leikkonur: Bryndís Petra Bragadóttir, Edda Björgvins, Guðbjörg Thoroddsen, Júlía Hannam, Kolbrún Halldórsdóttir, Lilja Þórisdóttir, Ólöf Sverrisdóttir, Rósa Guðný Þórsdóttir, Salvör Aradóttir, Vilborg Halldórsdóttir.

Ekki verður annað sagt en sýning Leikhúslistakvenna 50+, Konur og krínólín sé áferðarfallegt augnayndi. Hér birtast eins og á færibandi alls konar sköpunarverk kjóla frá ýmsum tímum sögu kvenfatatískunnar og bornir af glæsilegum konum sem augljóslega njóta þess að bera þá og segja sögu þeirra.

Öðru fremur má nefnilega segja að Konur og krínólín segi sögu kvenfatatískunnar – sem hefur nú ekki alltaf haft að útgangspunkti að gera lífið bærilegt konum eða þægilegt. Í sýningunni Konur & krínólín birtast alls konar tilkomumiklar „kreasjónir“, yfirferðin hefst á krínólínum, sem urðu aðalkvenfatatískan á seinni hluta 19. aldar og sem hefði í raun verið gaman að heyra meira um – fyrst þegar í upphafsorðum sýningarinnar var m.a. minnst á þetta, að kvenfatatískan hefði aldeilis ekki verið til að auka konum þægindin.

Það hefði að ósekju mátt fara lengra inn á þá braut; konum voru krínólínurnar beinlínis lífshættulegar; þær voru gerðar úr taglhári, fléttuðum með líni og gríðarlega eldfimar. Það er talið að mörg þúsund konur hafi orðið eldi að bráð þar sem þær stóðu í eldhúsinu og dúllur og tau í krínólínunum kom of nálægt eldavélinni og konurnar breyttust í kyndla, sem fuðruðu upp enda bæði tagl, lín og kjólefnið eldfimt með afbrigðum. Þá eru til frásagnir af konum sem unnu í verksmiðjum þeirra tíma – seinni hluta 19. aldar, byrjun þeirrar 20. – sem urðu fyrir því að krínólínurnar festust í vélunum, drógu varnarlausar konurnar inn í reimar og spil þar konurnar mörðust eða heinlega kubbuðust sundur. Og ekki var vinnustaðaeftirliti til að heilsa; karlarnir létu sér nægja að benda á að sannur sjentilmaður viki úr vegi og stigi út á götu þegar konur í krínólínum yrðu helstil fyrirferðamiklar á gangstéttinni.

En Konur & krínólín er auðvitað fyrst og fremst til gamans gert og stendur fyllilega undir því. Enda má til sanns vegar færa að krínólín urðu ekki sá vandi hér á landi eins og í iðnaðar- og borgarsamfélögum Evrópu og Bandaríkjanna. Hér urðu þær fyrst og fremst skemmtilegt tákn útlendrar borgaratísku og líklegast að íslenskri alþýðu hafi þótt fyndið að sjá danskar kaupmannsfrúr tipla til kirkju á sunnudögum í slíkri múnderingu yfir drullugan Austurvöllinn.

Auglýsing
Konur & krínólín dregur þeim mun skemmtilegri mynd af því þegar við Íslendingar komumst í tæri við hina og þessa tískuna á 20. öldinni – charlestonið, samkvæmiskjólar, fatnaður sem ýmist leggur áherslu á grannan vöxt og kynþokka eða líkt og gerðist á seinni hluta aldarinnar, þegar fatnaðurinn leggur áherslu á frelsi og sjálfstæði konunnar.

Öllu þessu og meira til bregður fyrir í stuttum atriðum sem aukinheldur vekja upp anda hvers tíma, annað hvort með látbragði eingöngu eða einnig í stuttum samtölum, hnyttnum og hnitmiðuðum. Það leið ekki á löngu þar til vonlaust var að telja þann fjölda kjóla og klæðnaða sem birtust og hurfu, enda hefur tískan á seinni árum tekið örum og skjótum breytingum og þarf augljóslega meira en meðalkonu til að henda reiður á sviptivindum tískunnar. Og svo því sé til haga haldið – tískustraumarnir komu á köflum róti á fulltrúa feðraveldisins, sem birtast hér af og til, íhaldssamir karlpungar sem hafa auðvitað skoðanir á því þegar konurnar virðast ætla að gerast helstil sjálfstæðar. Góð áminning um að saga tískunnar og saga kvenréttinda fer ávallt saman og að enn er heilmargt starf óunnið þegar kemur að því að konur séu jafnréttháar körlum í öllu tilliti, ekki síst menningarlega!

Sú sem ber ábyrgð á öllum þeim búningum sem bregður fyrir í Konur & krínólín er Helga Björnsson og nafn hennar ætti að vera flestum kunnugt. Helga hefur um árabil starfað í tískuheimi Evrópu og hefur getið sér gott orð sem hönnuður; hún var búsett í Bretlandi og Frakklandi frá þrettán ára aldri, lauk námi í fatahönnun Les Arts Decoratives í París og starfaði um árabil sem aðalhönnuður við Haute Couture í tískuhúsi Louis Feraud í París. Helga hefur einnig hannað búninga fyrir bæði Þjóðleikhúsið og Íslensku Óperuna og vann til Grímuverðlauna fyrir búninga sína í Íslandsklukkunni.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvílík fagmennska liggur að baki búningunum – hér er nostrað við hvert smáatriði af þekkingu á sögu hvers búnings og því tímabili sem umlukti stíl og stemningu. Búningarnir eru flugeldasprengin í munstrum og litum og sú tilfinning er vitaskuld efld með viðeigandi tónlist. Þetta er „mikið sjó“ og þá hefur ekki enn verið minnst á hin öru búningaskipti sem ganga að því er best verður séð snurðulaust fyrir sig. Og ekki má gleyma sviðshreyfingum, sem Ásdís Magnúsdóttir hefur stýrt af öryggi og með næmu auga fyrir hreyfingum hvers einstaks tímabils – og ekki lítið afrek það! Ásdís nam listdans í Listdansskóla Þjóðleikhússins og eftir það í New York og starfaði svo í tæpa tvo áratugi með Íslenska dansflokknum og dansaði með honum nokkur helstu aðalhlutverk í þekktustu dansverkum heimsins.

Það væri að æra óstöðugan að fjalla sérstaklega um hverja og eina leikkonu sem hér kemur fram, hver og ein í fjölda hlutverka og sýnir þar með fjölbreytileik í sviðsframkomu og tjáningu. Þó verður ekki hjá komist að nefna hlut sögukonunnar sem heldur utanum allan gjörninginn og tengir atriðin saman og þau við hin mismunandi tímabil. Edda Björgvins fer hér á kostum og nær frá fyrsta andartaki tökum á áhorfendum og fleytir gjörningnum áleiðis með bæði fróðleik og húmor. Hún sannar hér – og var þó búin að því svo ekki yrði í efa dregið – að hún er, að öðrum gamanleikkonum ólöstuðum, albesta komedienne íslenskrar leiklistar. En þó má geta þess, að flestar þær leikkonur sem hér stíga fram, dansa og tjá mismunandi tímabil tískustrauma, eru flottar gamanleikkonur líka, ef því er að skipta. Takið bara eftir spili augna og augngotum, léttum höfuðhnykkjum og kersknislegu yfirbragði í samskiptum við áhorfendur. Það þarf ekki að draga í efa að leikhúslistakonur 50+ búa ekki einasta yfir ríkum hæfileikum (sem leikhúsin mega vel nýta mun betur en gert er!!!) heldur kunna þær að miðla taumlausum þokka, fegurð, töfrum og glæsibrag – og hinu líka þegar þess er þörf!

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sjókvíaeldi hefur aukist hratt á síðustu árum
Sjókvíaeldi hefur 13-faldast á sex árum
Umfang laxeldis hefur margfaldast á síðustu árum og útlit er fyrir að það muni vaxa enn frekar í náinni framtíð. Gangi spár eftir mun sjókvíaeldi á laxi árið 2023 verða tæplega helmingi meira en það var samanlagt á árunum 2010-2018.
Kjarninn 7. maí 2021
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira úr sama flokkiFólk