Góðar Fréttir er nýr fréttamiðill sem leggur áherslu á jákvæðan og hvetjandi fréttaflutning. Stofnendurnir eru parið Saga Yr Nazari og Bjarki Steinn Pétursson en í dag samanstendur miðillinn af 17 ungum frumkvöðlum úr öllum kimum samfélagsins. Teymið hefur sameinað krafta sína og stefna nú á að byggja upp jákvæða umgjörð í kringum fréttamiðlun. Góðar Fréttir hafa sett upp Facebook og Instagram síðu þar sem almenningur getur fylgst með en opinber vefsíða miðilsins er einnig í bígerð. Safnað er fyrir verkefninu á Karolina Fund.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Bjarki: „Við höfum bæði takmarkað okkur það verulega að horfa á fréttir og höfum gert það frekar lengi. Það er bara einhver þungi sem spilar svo stórt aðalhlutverk í fréttaflutning sem við vildum forðast. Við vorum bara eitthvað að spjalla um þetta í heita pottinum heima þegar Saga sagði hvað það væri sniðugt ef það væri til fréttamiðill sem væri einungis með jákvæðar fréttir. Við vorum bæði búin að vera hugsa þetta í hljóði í einhver ár en þarna kviknaði ljósaperan: Afhverju græjum við þetta ekki bara?“
Saga: „Það er svo margt sem maður leyfir sér bara að hugsa um en framkvæmir ekki. Leyndarmálið á bakvið allar merkar uppfinningar er framkvæmdin. Við höfum bæði unnið mikið í okkur síðastliðin ár og verið í 12 spora samtökum sem ganga fyrst og fremst út á framkvæmd og að stíga inn í óttann sinn. Það er dýrmætasta veganesti sem ég hef fengið í lífinu.“
Bjarki: „Það eru einmitt stoðin sem Góðar Fréttir eru byggðar á. Það skiptir öllu að hafa trú á sjálfan sig og vera með rétt stillt hugafar. Fréttir hafa ótrúlega mikil áhrif á það hvernig við horfum á tilveruna og hverskonar hugafar við tileinkum okkur. Allt þarfnast jafnvægis, annars myndast skekkja. Góðar Fréttir eru til þess knúnar að koma jafnvægi á hlutina þannig að jafn mikið berst til fólks af “jákvæðum” tíðindum og af „neikvæðum“ tíðindum.“
Hvað er þema fréttamiðilsins?
Saga: „Góðar Fréttir. Eins og Bjarki talaði um þá höfum við lengi hugsað um hvað það væri mikil snilld að hafa aðgang að íslenskum fréttamiðli sem væri bara jákvæður. Það er það sem við erum að gera. Við flytjum bara jákvæðar fréttir. Við einskorðum okkur samt ekki bara við léttar og húrrandi kátar fréttir, heldur tökum við líka fréttir sem eru átakanlegar en við leggjum áherslu á jákvæðu hliðarnar t.d. það sem veitir innblástur, hvatningu eða hughreystingu.“
Hverju vonist þið til að áorka með Góðum Fréttum?
Bjarki: „Okkar von er að Góðar Fréttir nái jafn miklu vægi í samfélaginu og aðrir stórir fréttamiðlar. Öll sú tækni sem yngri kynslóðir og ókomnar kynslóðir alast upp við kallar á nauðsynlega breytingu sem verður að eiga sér stað í upplýsingamiðlun. Það er sálfræðileg ástæða á bakvið „Click-Bait“ factor-inn og hvers vegna neikvæðar fréttir seljast svona vel. Ástæðan tengist frumheilanum okkar og hvernig við lifðum af sem steinaldarmenn. Þeir sem voru meðvitaðari um hættur og varari um sig voru líklegri til þess að lifa af. Það er töluvert minni þörf á þessu í dag en var í þá daga. Í raun er þörfin fyrir góðum skammti af jákvæðni og von orðin alvarlega mikil. Heimurinn okkar er stórkostlegur staður og við lifum á sögulegum tímum. Við viljum segja fólki frá því.“
Hér er hægt að skoða og styrkja verkefnið á Karolina Fund.