Gjöf frá Gaza er samfélagsdrifið framtak Gaza Company í þágu palestínskra kvenna í Gaza. Markmið verkefnisins er að hjálpa þeim konum að halda fjárhagslegu sjálfstæði sínu svo þær geti framfleytt sér og fjölskyldum sínum. Samhliða því er markmið verkefnisins að viðhalda ævagamalli handverkshefð kvenna á Gaza svæðinu; svæði þar sem fólk er að berjast upp á líf og dauða fyrir tilveru sinni, fyrir menningu sinni og tilsvarandi rétti til landsins sem það hefur byggt frá örófi alda. Krosssaumur er mikilvægur hluti af palestínskri kvennamenningu. Um aldir alda hafa palestínskar konur miðlað fróðleik og sögnum sín á milli á meðan þær saumuðu og gerðu kjóla. Nú vinna um 50 palenstínskar konur á vegum Gaza Company að því að viðhalda þeirri menningu með framleiðslu á fallegum, handunnum og vönduðum vörum. Helsti hugmyndasmiðurinn, hönnuðurinn og stýran að baki verkefninu er Najlaa Attaallah. Najlaa kemur frá Palestínu en hefur verið búsett á Íslandi í rúmlega tvö ár, þar sem hún hefur unnið hörðum höndum að stofnun og rekstri þessa fyrirtækis kvenna í Gaza.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Ég hef um langa hríð unnið að alþjóðlegum verkefnum í þágu kvenna í gegnum félagasamtök sem hafa það að leiðarljósi að efla fjárhagslegan hag kvenna, í því skyni að tryggja þeim lífsviðurværi og sjálfstæði. Í þeirri vinnu minni sá ég þörfina fyrir því að styðja við vinnu kvenna sem þurfa á slíkri aðstoð að halda og kynna verk þeirra fyrir almenningi. Í kjölfar þess að hafa lokið námi mínu við kynjafræði í Háskóla Íslands, þá ákvað ég að láta gott af mér leiða í þágu palestínskra kvenna. Ég hef alltaf verið hugfangin af handavinnu palestínskra kvenna og fundið hjá mér þörf til að deila þeiri kvennalist með öðrum; miðla sögu okkar í saumsporum.“
Segðu okkur frá þema verkefnisins
„Vöruhönnunin er fyrst og fremst innblásin af palestínskri menningu, þar sem við sögu koma mynstur, litir, og önnur þekking á handverki og listrænum hefðum sem hefur skilað sér kynslóð fram af kynslóð á Gazasvæðinu. Auk þessa grunns erum við að vinna samhliða að því að þróa og framleiða margskonar vörur sem byggja hvort tveggja á íslenskum og palenstínskum hefðum í saumaskap. Sú nýsköpunarvinna sem felst í þeim samruna tveggja ólíkra menningarheima sem birtast þannig í saumverkum er einstaklega spennandi. Allar vörurnar eru handgerðar og öll efnin sem við vinnum með eru umhverfisvæn - enda gætum við að öllum smáastriðum í framleiðslu okkar. Við erum að framleiða vörur á borð við töskur, veski, sængurver, slæður, snyrtitöskur, lyklakippur o.fl. Nú þegar er hálft hundrað kvenna sem vinnur verkefninu. Allar lítum við á verkefnið Gjöf frá Gaza sem félagslegt og pólitískt verkefni í þágu friðar og betra lífs fyrir palestínskar konur; baráttu sem háð er með saumnálum í Gaza. Verkefnið krefst mikillar og víðfemar þekkingar og því var þörf að ráða konur alls staðar frá Gaza svæðinu, sem búa yfir mismunandi sérþekkingu. Ég hef yfirumsjón með vöruhönnuninni héðan frá Íslandi. Hún Abeer Al-kaiyal hefur yfirumsjón með allri útfærslu á mynstrunum í krosssaum, ásamt því sem hún hefur umsjón með framgöngu verkanna í Gaza. Auk þess hef ég notið þess að fá hjálp frá fjölskyldu minni sem hefur mikla trú á þessu verkefni. Ég vil einnig þakka vinkonu minni Gyðu Björgu Sigurðardóttur sem hvatti mig til að hefja þessa vegferð í þágu kvenna á sínum tíma.“
„Verkefnið Gjöf frá Gaza er miðill, tungumál, sem ég og aðrar palenstínskar konur notum við tjáningu sem gefur þeim og fjölskyldum þeirra færi á að draga fram lífið í stríðshrjáðri Palestínu. Um leið gefur verkefnið færi á að eiga í uppbyggilegum samskiptum við Íslendinga sem hafa reynst Palestínsku þjóðinni mikilvæg hjálparhella á þeim umbrotatíma Palestínu sem enn veldur því að þjóðin er í gíslingu í eigin landi. Listin að sauma sameinar þannig ekki bara konur þessara landa heldur einnig fjölskyldur þeirra - og varðar þannig veg listarinnar að lifa af.“
Hér er hægt að taka þátt í verkefninu og kaupa vörur frá Gaza