Bylgja Borgþórsdóttir og Esther Ösp Gunnarsdóttir eru vinkonur sem hafa undanfarin ár hannað og gefið út uppskriftir að prjónaflíkum á börn undir heitinu Big Red Balloon. Nú hafa þær ráðist í bókaútgáfu fyrir prjónaáhugafólk en bókin inniheldur engar uppskriftir.
Prjónadagbókin þín er nokkurs konar verkdagbók og í hana skráir eigandinn þau verk sem hann prjónar. Þannig verður til skemmtileg og falleg bók sem er í senn minningabók um þau verk sem viðkomandi hefur prjónað og uppflettibók með hagnýtum upplýsingum um verkin þegar hann þarf á þeim að halda.
„Einmitt. Þá getur reynst erfitt að grafa þær upplýsingar upp þegar á að prjóna sama eða svipað verk aftur,“ segir Esther. „Okkur langaði því að búa til og gefa út bók þar sem viðkomandi getur safnað saman upplýsingum um öll sín prjónaverk á einn stað.“
Þetta er því í raun ekki hefðbundin dagbók að sögn Bylgju. „Það er ekki reiknað með að þú skrifir í hana á hverjum degi. Prjónadagbókin er í raun algjörlega tímalaus. Það skiptir engu máli hvort þú prjónar gríðarlega mikið eða prjónar hægt og örugglega.“
„Í bókinni er pláss fyrir 50 verkefni,“ segir Esther „Sumum endist kannski ekki ævin til að fylla hana á meðan aðrir verða fljótir að því – en þá er bara að byrja á öðru bindi!“