Barokkbandið Brák er tónlistarhópur sem fiðluleikararnir Elfa Rún, Laufey og Guðbjörg Hlín stofnuðu fyrir sex árum með það að leiðarljósi að glæða lífi í barokktónlist flutta á upprunaleg hljóðfæri á Íslandi. Frá stofnun hópsins hefur hann staðið að fjölda tónleika í Reykjavík og Skálholti við góðar undirtektir áheyrenda og gagnrýnenda. Hópurinn hefur einnig beint kröftum sínum að flutningi nýrrar íslenskrar tónlistar á barokkhljóðfæri í samstarfi við íslensk samtímatónskáld. Mikilvægur þráður í starfi Brákar hefur svo verið að leyfa nýrri kynslóð hljóðfæraleikara að kynnast svokallaðri upprunaspilamennsku (e. Historical Performance Practice) og þeirri einstöku orku og ótal túlkunarmöguleikum sem upprunaspilamennska hefur fram að færa. Í því samstarfi hefur aukist við flóru og fjölbreytni íslensks tónlistarlífs.
Hugmyndin að plötunni Tvær hliðar/ Two Sides kviknaði hjá forsprökkum Brákar haustið 2019. Þeim fannst kominn tími til, eftir marga vel heppnaða tónleika að skjalfesta starf sitt með því að ráðast í útgáfu á hljómplötu. „Við í Brák ætlum að hljóðrita okkar fyrstu hljómplötu nú í lok mars. Hún nefnist Tvær hliðar/ Two Sides og endurspeglar vel starf okkar sem tónlistarhópur í gegnum tíðina. Á henni verða framreiddar tvær hliðar sígildrar tónlistar, þ.e. barokktónlist og íslensk samtímatónlist. Barokkdiskurinn mun innihalda þekkt verk sem við höfum áður flutt á tónleikum, meðal annars eftir Vivaldi og Corelli, en einnig lítið þekkt verk sem hafa aldrei verið spiluð inn á geisladisk áður!
Brák-hópurinn segir að tónlist gefin út á geisladiski og á streymisveitum gefur sér tækifæri á að ná til stærri áheyrendahóps og koma íslenskri tónsköpun, sérþekkingu í upprunaspilamennsku og hljómsveitinni sjálfri á framfæri en síðast en ekki síst skilji hún eftir sig menningarleg verðmæti fyrir hlustendur og alla sem að upptökunum koma. „Þá vonumst við til að með efnislegri útgáfu á geisladisk verði til dýrmæt heimild um þá grósku og sköpun sem á sér stað um þessar mundir í íslensku tónlistarlífi.“
Allir meðlimir Brákar eru þrautreyndir tónlistarmenn. Elfa Rún er búsett í Berlín og er margverðlaunaður fiðluleikari sem hefur komið fram á tónleikasviðum um heim allan ýmist sem einleikari, konsertmeistari eða kammermúsíkspilari. Hún leikur reglulega með Akademie für Alte Musik Berlin og listahópnum Nico and the Navigators. Hún hefur gefið út þónokkra geisladiska á síðastliðnum árum sem hafa verið tilnefndir og unnið til verðlauna hjá Preis der deutschen Schallplattenkritik og á Íslensku tónlistarverðlaununum.
Laufey hefur verið fastráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 2019 og kemur reglulega fram á tónsviðinu sem einleikari, hljómsveitarspilari og kammermússíkant. Einnig hefur hún leikið inn á fjölda hljóðritana á sígildri og dægurlagatónlist síðustu ár.
Guðbjörg Hlín hefur lagt stund á upprunaflutning á barokktónlist í námi erlendis. Guðbjörg er einnig meðlimur í hljómsveitinni Umbru sem flytur og útsetur miðaldatónlist og þjóðlagatónlist. Guðbjörg hefur auk þess ferðast um heim allan og flutt og popptónlist með hinum ýmsu hljómsveitum.
Þær þrjár leika allar á fiðlu með Brák en auk þeirra koma fram á plötunni, fiðluleikararnir Gróa Margrét Valdimarsdóttir, Gunnhildur Daðadóttir, Guðbjartur Hákonarson og Sólveig Vaka Eyþórsdóttir, víóluleikararnir Guðrún Hrund Harðardóttir og Þóra Margrét Sveinsdóttir, sellóleikararnir Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir og Guðný Jónasdóttir, bassaleikarinn Richard Korn og semballeikarinn Halldór Bjarki Arnarson