Ice Trust er nýjung á sviði persónulegrar náttúruverndar sem miðar að því að vernda ósnortna náttúru fyrir komandi kynslóðir. Að verkefninu standa tveir bræður, Arinbjörn og Benedikt Kolbeinssynir, sem eru báðir í doktorsnámi í gervigreind í Bretlandi. Bræðurnir ætla að nýta tækniþekkingu sína fyrir nýsköpun í náttúruvernd á Íslandi.
Þeir segja að hugmyndin að verkefninu hafi kviknað í fyrra þegar þeir voru á ferðalagi um Ísland. „Eftir að hafa stundað nám erlendis í mörg ár höfum við gert okkur betur grein fyrir sérstöðu íslenskrar náttúru. Það er nánast ómögulegt að finna slíka víðáttu annars staðar í Evrópu. Það er nauðsynlegt er að vernda ósnortna náttúru svo komandi kynslóðir geti notið hennar líka. Þegar jörð á Íslandi fer á sölu eru mögulegir kaupendur nánast undantekningarlaust aðilar sem ætla að hagnast á landinu sjálfu. Því miður er náttúrunni oft fórnað í því hagnaðarskyni. Við erum að bregðast við þessari þróun og erum að byggja upp þessa stofnun til þess að kaupa og vernda jarðir áður en það verður of seint.“
Um er að ræða góðgerðarverkefni sem er ekki rekið í hagnaðarskyni. Við erum núna að safna stofnfé fyrir sjálfseignarstofnun sem mun eiga allar jarðir sem verða keyptar. Við munum sækja um friðlýsingu fyrir hverja og eina um leið og gengið er frá kaupum.“
Markmið Ice Trust er að kaupa litlar og meðalstórar jarðir sem einkennast af einstakri og ósnortinni náttúru. „Við erum að spila með en ekki að keppa við þjóðgarðana. Það er ekki hægt að stofna þjóðgarð fyrir hverja litla jörð um allt land. Ice Trust er lítil og sveigjanleg stofnun sem getur brugðist hratt við breytingum til að vernda litlar jarðir sem hafa náttúrulega sérstöðu.“
Bræðurnir segja að þegar fyrsta jörðin verður keypt geti styrkjendur valið sér sinn skika á henni. „Þeir munu fá rafrænt vottorð með nákvæmum hnitum fyrir skikanum sínum til þess að heimsækja. „Framtíðarmarkmið okkar er að nýta tækni betur til að gera náttúruvernd persónulegri og viðhalda sjálfbærni í náttúrunni sem sjálfseignarstofnunin verndar. Við munum einnig beita tækni til þess að tengja styrkjendur beint við sína skika og gera þeim kleift að fylgjast betur með þeim, t.d. með myndum sem teknar verða reglulega með drónum. Eins og David Attenborough og fleiri hafa sagt er rýrnun á líffræðilegum fjölbreytileika og eyðilegging náttúrunnar álíka alvarlegt mál og hnattræn hlýnun. Samspil þessara breytinga auka óstöðugleika í umhverfinu og valda óafturkræfu tjóni.“