Drinni er listamannsnafn Andra Kristinssonar. Hann er gítarleikari, söngvari, og laga- og textasmiður. Drinni er heilinn og sálin á bak við verkefnið Drinni & the Dangerous Thoughts sem í sumar gaf út plötuna Hávær ljóð á stafrænu formi. Nú á að koma henni á vínyl.
Andri segir hugmyndina að verkefninu hafa vaknað úr neyð. „Ég hafði planað að flytja til Belgíu í lok mars 2020. Af augljósum ástæðum (covid19) varð lítið úr því þá og ég festist á Íslandi svo ég hafði ekkert betra að gera en semja lög og vona að hlutirnir skánuðu einhvern tímann. Þó eru þrjú lög þarna sem ég hafði samið löngu áður en mér þótti passa vel við þemað. Drinni & The Dangerous Thoughts er í raun sólóverkefnið mitt, hugmyndin er að tónlistarmenn geta komið og farið og lögin eru útsett með þeim sem eru í bandinu hverju sinni. Nú eftir að takmörkunum var aflétt eftir covid bý ég í Belgíu og er kominn með nýjan kjarna tónlistarmanna sem ég mun útsetja með nýtt efni.“
Hann neitar því ekki að þema plötunnar sé oft ansi þunglyndislegt. „Hatur á morgnum, óhjákvæmilegur dauðinn og eymdin þar til hann loksins kemur, en það er húmor þarna líka.“