Leikkonan Ólöf Sverrisdóttir hefur starfað sem sögukona um árabil hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur. Hún hefur kennt leiklist í áratugi, bæði börnum og fullorðnum en hún og Ólafur Guðmundsson reka leiklistarskólann Opnar dyr.
Ólöf hefur nýverið lokið meistaragráðu í ritlist frá Háskóla Íslands en hefur líka sjálf kennt ritlist hjá Endurmenntun HÍ. Hún er nú að gefa út sína fyrstu ljóðabók en áður hefur hún gefið út barnasöguna Sóla og sólin.
En Ólöf hefur skrifað ljóð lengi. „Eiginlega síðan ég lærði að lesa og skrifa. Með hléum samt,“ segir hún. „En þessi ljóð komu til mín aðeins öðruvísi. Ég tók ákvörðun að skrifa ljóð á hverjum degi en ég heyrði viðtal við aðra skáldkonu sem hafði gert það í eitt ár. Þegar ég hafði ákveðið það fóru þau að koma til mín í svefnrofanum á morgnana. Síðan ákvað ég að pósta ljóðunum á Facebook-prófílinn minn áður en ég næði að hugsa of mikið og fara að efast um að þau væru nógu góð.“
Það kom Ólöfu á óvart hversu margir urðu hrifnir af ljóðunum og hún var hvött til þess að gefa þau út. „Mér fannst stundum eins og þau væru frekar eins og skilaboð af annarri vídd sem ég setti í ljóðaform. Stundum birtust myndir eða mig dreyndi eitthvað sem ég setti í orð eða ljóðaform. Allavega er ég mjög glöð að aðrir kunnu að meta þennan texta og mér fannst nauðsynlegt að gefa þau út áður en ég héldi áfram. Ég veit ekki hvort næstu ljóð verði í þessum stíl og fannst ég verða að loka þessum kafla með þessari bók.“
Las Svartar fjaðrir upp til agna sem unglingur
Nafnið á ljóðabókinni kom út frá nokkrum ljóðum þar sem hvítar fjaðrir koma fyrir. „En í rauninni fannst mér hugmyndirnar koma eins og fjaðrir að ofan,“ segir Ólöf.
„Ég tala um muninn á svörtum og hvítum fjöðrum en þar er ég líka að vitna í ljóðabók Davíðs Stefánssonar Svartar fjaðrir en þau ljóð las ég upp til agna sem barn og unglingur. Þessi ljóð eru mjög ólík þeim og ég gæti auðvitað aldrei farið að bera mín ljóð saman við þá snilld. En nafnið eða titillinn lét mig ekki í friði svo ég lét undan. Stundum er eins og maður fái ekki alveg að stjórna flæðinu. Flæðið tekur yfir. Þess vegna veit ég eiginlega ekkert hvað kemur næst,“ segir Ólöf.
Hún segist vona að einhverjir vilji hjálpa sér að mæta kostnaði við útgáfuna en hún kemur líka heim til fólks og les upp eða sendir Sólu sögukonu til að segja sögur ef fólk velur það.
„Börnin elska Sólu og það er ágætis díll sem boðið er uppá hérna á Karólina fund.“
Hér má nálgast söfnun fyrir útgáfu Hvítra fjaðra á Karolina fund.