Nafnlausu höfundarnir segjast vera hópur höfunda og teiknara sem meti tjáningarfrelsið ofar öllu. Þeirra markmið sé að þýða íslenskan samtíma yfir á myndmál, og vilja gefa út Reykjavik Review milliliðalaust með stuðningi almennings.
Talsmaður hópsins segir að hugmyndin að verkefninu hafi sprottið upp úr samfélagsgerðinni. „Við lifum í samfélagi þar sem maður má tala þegar maður segir réttu hlutina en ekki þegar maður hefur eitthvað að segja. Við erum höfundar sem áttum það sameiginlegt að halda að við værum með ritstíflu, en þegar við fórum að ræða þessar “ritstíflur” kom í ljós að þær voru ekki annað en óttinn við að segja röngu hlutina. Við vorum orðnir þreyttir á að byrgja inni það sem lá okkur á hjarta, og ákváðum þess í stað að safna áhyggjum okkar saman í eitt tímarit þar sem við þyrftum ekki að ritskoða hugsanir okkar.“
Á söfnunarsíðu Reykjavik Review geta allir lagt verkefninu lið og fengið prentað eintak af bókinni heimsenda á sérstökum kjörum, auk annarra fríðinda.