Á ritstjórn Kjarnans voru nú í lok ársins tekin saman sjö orð, sem hvert um sig skilgreindu árið 2022 með sínum hætti. Listinn er að sjálfsögðu ekki tæmandi.
fagfjárfestir
Ríkið hélt áfram að selja hlut sinn í Íslandsbanka undir lok síðasta vetrar sem kunnugt er og hefur sú sala ekki verið án eftirmála. Til stendur að leggja niður Bankasýslu ríkisins, búið er að liggja yfir ítarlegri skýrslu ríkisendurskoðanda um málið og fjármálaeftirlit Seðlabankans athugar enn ákveðna þætti í ferlinu.
Orðið fagfjárfestir er eitt þeirra sem varð nokkuð fyrirferðarmikið í umræðu um söluna. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar var að fjármála- og efnahagsráðuneytið og Bankasýslan hefðu ekki upplýst nægilega vel hvað fólst í settum skilyrðum um „hæfa fjárfesta“ við söluna í Íslandsbanka. Upplýsingar um hvort fjárfestar væru hæfir byggðu í einhverjum tilfellum á upplýsingum frá þeim sjálfum, en enginn miðlægur gagnagrunnur er til um slíka fjárfesta á Íslandi. Mat söluráðgjafa á hæfi fjárfesta sætir eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
kynþáttamörkun
Orðið kynþáttamörkun er íslensk þýðing á enska hugtakinu racial profiling, sem kom inn í umræðuna hér á landi í vor í kjölfar þess að sami unglingspilturinn þurfti í tvígang að sæta afskiptum lögreglu, einu sinni í strætisvagni og svo aftur þar sem hann sat í bakarí með móður sinni.
Með hugtakinu er átt við það þegar kynþáttur og/eða húðlitur er notaður til þess að skilgreina einstaklinga eða hópa fólks og mismunun gagnvart þeim réttlætt á þeim forsendum.
„Slík flokkun fólks byggist oft á ómeðvitaðri hlutdrægni. Í löggæslu birtist þetta með þeim hætti að einstaklingur eða hópur fólks er grunaður um saknæmt athæfi vegna kynþáttar og/eða húðlitar frekar en sönnunargagna. Ýmsar þýðingar hafa komið fram á racial profiling, t.d. kynþáttamiðuð löggæsla, kynþáttamiðuð greining, kynþáttablóri og sjálfsagt fleiri. Við teljum ekkert þessara orða heppilegt en mikilvægt að hafa gott íslenskt orð um þetta hugtak,“ skrifuðu þau Claudia Ashanie Wilson, Eiríkur Rögnvaldsson, Eliza Reid, Eyrún Ólöf Sigurðardóttir, Gísli Pálsson og Sema Erla Serdaroglu í aðsendri grein sem birtist á vef Kjarnans í maí.
stýrivaxtahækkun
Ekki er hægt að horfa fram hjá orðinu stýrivaxtahækkun þegar litið er yfir árið 2022. Síðasta vaxtahækkun bankans, þann 23. nóvember, setti meginvexti bankans upp í 6 prósent, og vaxtahækkanir bankans eru nú orðnar tíu í röð.
Aðgengi landsmanna að peningum til láns er allt annað en það var í upphafi árs, þegar stýrivextir Seðlabankans voru einungis 2 prósentustig.
innrás
Á alþjóðasviðinu hefur fátt farið hærra en innrás Rússa í Úkraínu. Milljónir hafa þurft að leggja á flótta, heilu borgunum hefur verið rústað, en Úkraínumenn, með stuðningi ríkja Atlantshafsbandalagsins, berjast enn fyrir landi sínu.
spretthópur
Á vettvangi íslenskra stjórnmála eru oftar en ekki margir starfshópar að störfum, að mestu skipaðir af ráðherrum, fulltrúum framkvæmdavaldsins, til þess að skoða hin eða þessi mál ofan í kjölinn og leggja fram tillögur að úrbótum eða stefnum á einhverjum sviðum.
Nýtt orð bættist í orðaforðann á þessu ári, nefnilega spretthópur, en það er starfshópur sem á að vinna tiltekin mál sem þykja einkar áríðandi hraðar en venjan er með starfshópa, sem venjulega fá nokkuð rúman tíma til að vinna.
Fyrsti spretthópurinn tókst á við alvarlega stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi og þótti standa undir nafni með kvikum aðgerðum. Síðan þá hafa fleiri spretthópar verið stofnaðir, til dæmis einn spretthópur sérfræðingur um hvort nýtt hverfi í Skerjafirði ógni flugvellinum í Vatnsmýrinni og spretthópur á vegum borgarinnar um hávaða frá skemmtanalífi í miðbænum. Lítið hefur þó heyrst frá þeim spretthópum, og óljóst hvort þeir muni standa undir nafni.
saurloft
Ástand skóla- og leikskólahúsnæðis í Reykjavíkurborg, og raunar öðrum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins einnig, hefur verið nokkuð í deiglunni á árinu. Í einhverjum tilfellum virðist viðhaldi hafa verið verulega ábótavant og forsíðufrétt Fréttablaðsins skömmu fyrir jól, þar sem orðið saurloft kom fyrir í fyrirsögn, kristallar ef til vill vandann.
Þar var sagt frá því að aðalorsök slæmra loftgæða á leikskólanum Grandaborg í Vesturbænum, sem í dag starfar á þremur mismunandi stöðum í borginni, væri skriðkjallari undir skólabyggingunni og hönnun á loftræstikerfi þess.
„Ennfremur kom í ljós að skólprör hafði farið í sundur vegna þess að húsið hefur sigið á liðnum árum. Þar af leiðandi hafði skólp seytlað ofan í jarðveg í kjallaranum. Loftræstikerfið blæs svo lofti úr kjallaranum, upp í húsnæði leikskólans,“ sagði í minnisblaði sem tekið var saman af skóla- og frístundasviði borgarinnar.
vindorkuver
Á árinu voru sett fram áform um fjöldamörg vindorkuver á Íslandi og eru sveitarfélög vítt og breitt um landið að skoða slík mál. Hvað framtíðin ber í skauti sér í þessum efnum er nokkuð óljóst, en ljóst er að umræðan um beislun vindorkunnar á Íslandi er komin til að vera.