Smári Stefánsson er forfallinn fjallaskíðamaður, hann hefur verið á skíðum frá því hann man eftir sér en hefur verið á fjallaskíðum síðan 2004 en hann kynntist þeim þegar hann var við nám í Noregi.Smári veit fátt betra en að standa efst í krefjandi skíðaleið með smá adrenalín í æðunum og klár í slaginn. Nú hefur hann ákveðið að búa til fjallaskíðaþætti fyrir YouTube og hafið söfnun á Karolina Fund fyrir pilot þætti.Smári hefur einnig búið til síðu á Facebook þar sem hægt er að fylgjast með verkefninu.
Hann segir hugmyndina að verkefninu hafa vaknað þegar hann var að fylgjast með öðru verkefni á YouTube sem nefnist The Fifty Project. „Mig langaði að gera eitthvað svipað hér heima. Eftir að hafa gengið með hugmyndina í maganum í nokkurn tíma og hún þróast og þroskast ákvað ég að kýla á þetta núna.“
Hann segist vera kominn í sambandi við fólk í mismunandi landshlutum, topp skíða- og brettafólk, til að skíða með og að allir hafi tekið vel í að taka þátt. „Ég vil hins vegar ekki gefa upp nein nöfn eins og staðan er þar sem enn er alls óvíst hvar fyrsti þáttur verður tekinn upp, það mun fara eftir aðstæðum. Eins eigum við eftir að sjá hversum marga þætti við munum hafa bolmagn til að gera. Það er samt gaman að segja frá því að ég er kominn með mann sem mun sjá um upptökur og alla myndvinnslu, sá heitir Norris Niman. Norris er ekki bara frábær á myndavélinni heldur er hann einnig góður skíðamaður sem er nauðsynlegt fyrir svona verkefni. Að hafa Norris með þýðir einfaldlega að ég og „heimamennirnir“ munum líta vel út á skjánum.“