Halldór Ágúst Björnsson var upptökustjóri allra sex platnanna sem Eiki Einars gerði á sínum ferli. Hann hefur starfað við tónlist frá árinu 1999. Hann hefur unnið með Krumma í mínus, Daníel Ágúst, Svölu Björgvins, GIG, Magnúsi Þór, Stebba Jak og Herberti Guðmundssyni svo einhverjir séu nefndir. Nú leiðir Halldór Ágúst verkefni sem felur í sér að safna fjármunum svo hægt sé að klára síðustu plötu Eika og koma öllum plötum hans á Spotify. Safnað er fyrir verkefninu á Karolina Fund.
Halldór Ágúst segir að hugmyndin að verkefninu hafi kviknað þegar hann fór Torrevieja á Spáni í lok júní 2021 til að taka upp sjöttu plötu Eika, sem ber titilinn „Frábært". „Upptökur fóru fram í júní og júlí. Eiki kláraði alla sína grunna og svo kom Emil Hreiðar Björnsson til okkar til að taka upp kassagítara og einhverja rafgítara.Upptökur kláruðust í lok júlí og við héldum heim. Við fengum síðan þær hörmulegu fréttir stuttu síðar að Eiki hefði látist skyndilega. Við náðum sem betur fer að taka upp alla grunna fyrir plötuna en eftir var að klára allan trommuleik, bassaleik, einhverja sólógítara, hljóðgervla vinnslu, hljóðblöndun og tónjöfnun. Öllum sem þekktu til þótti það fráleitt að klára ekki þessa síðustu og bestu plötu Eika, að mínu mati, og því ákváðum við að efna til þessarar söfnunar.“
Dóminn má lesa hér að neðan:
Eiki Einars – ...ég er með hugmynd! ****
Eiki þessi er (var?) formaður íslensks Bítlaklúbbs en stígur hér fram með nokk kersknislega og bara býsna skemmtilega sólóplötu. Fullkomið dæmi um hversu gefandi það getur verið að slægjast eftir gullmolum í grasrótinni. Lögin fara sniðuglega á svig við hefðbundna dægurlagabyggingu, sækja grunninn til gullaldar dægurlagarokksins, sjöunda áratugarins, og halda þannig athyglinni út í gegn. Bráðvel heppnuð plata.
Arnar Eggert Thoroddsen, 12. október 2009
Halldór Ágúst segir það vera fáheyrt að kristinni plötu væri jafn vel tekið og hann varð upp frá þessu upptökumaður og útsetjari á öllum plötum Eika. „Það var virkilega gaman að vinna með honum. Ástríða hans var óhemju mikil. Mér þykir skemmtilegast að vinna með fólki sem gerir þetta af ástríðu. Við gerðumnýja plötu sirka annað hvert ár. Eiki flutti síðan til Spánar í kring um 2017 að mig minnir. Tækninni hafði fleytt fram í tónlistargeiranum sem gerði mér kleift að ferðast með studíóið í handfarangrinum. Ég fór því til Spánar á sumrin og við kláruðum upptökur á þremur plötum frá árinu 2018 til 2021.Ég hvet alla til að styrkja þetta verkefni svo hægt sé að varðveita öll verk Eika Einars í heild sinni, þannig getur hann verið með okkur í anda um aldir alda.“
Markmið verkefnisins er að koma öllum plötum Eika á Spotify og aðrar tónlistarveitur. „Hann var frábær tónlistarmaður með sinn sérstaka eigin stíl, sem fáum tekst að finna. Stefnt er á að prenta 50 eintök af geisladiskum afplötunni "Frábært". Hana er einungis hægt að nálgast á söfnunarsíðu Karolina Fund. Platan inniheldur 10 lög sem voru öll hljóðrituð rétt áður en hann lést. Þessi plata er að mínu mati besta platan hans.“