Enn sem komið er hefur veiran ekki fundist hjá neinum sem átt hefur samneyti við þá tvo sem um helgina greindust með veiruna utan sóttkvíar. Meðal þeirra sem skimaðir voru í gær var hópur starfsmanna Landspítalans þar sem annar hinna sýktu er starfsmaður á sjúkrahúsinu. Um fimmtíu starfsmenn og sjúklingar eru í sóttkví. Þá eru einnig tíu manns sem sátu í námunda við starfsmanninn á tónleikum í Hörpu á föstudagskvöld í sóttkví. Í dag verður skimað fyrir veirunni meðal tónleikagesta. Þá verða einnig fleiri starfsmenn spítalans skimaðir.
Yfir 1.400 eru væntanlegir í skimun hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðinu í dag. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, greindi frá þessu í hádegisfréttum RÚV. „Það hafa rúmlega 700 manns farið í gegn hjá okkur í morgun og við eigum þá eftir annað eins eftir hádegi. Það er opið til klukkan 16 hjá okkur.“
Ragnheiður segir að Landspítalinn sjái um að skima sitt starfsfólk en heilsugæslan skimi aðra.
Þrír greindust með veiruna innanlands á föstudag og laugardag. Enginn greindist innanlands í gær. Tekin voru 622 sýni, þar af 251 svokallað einkennasýni. 107 eru í sóttkví og sjö í einangrun, þ.e. með virkt smit.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í útvarpsviðtali í morgun að það muni skýrast í dag eða á morgun hvort að tekist hafi að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu í kringum einstaklingana tvo sem greindust um helgina. Þeir eru sýktir af hinu breska afbrigði veirunnar sem er meira smitandi en eldri afbrigði hennar sem hér hafa komið upp.
Á upplýsingafundi sem haldinn var vegna smitanna tveggja í gær sagði Þórólfur að ef í ljós komi að veiran hafi dreifst út fyrir þennan hóp, þ.e. einstaklingana tvo, þá sé „sannarlega“ tilefni til að endurskoða afléttingar sem gerðar hafa verið á samkomutakmörkunum.
Málið er þannig vaxið að þann 26. febrúar kom farþegi til landsins og framvísaði neikvæðu COVID-prófi og var auk þess neikvæður í fyrri skimun á landamærunum. Á fimmta degi sóttkvíar greindist hann hins vegar jákvæður og sýktur af hinu breska afbrigði sem hefur verið að stinga sér niður og valda usla í flestum nágrannalöndum okkar.
Smituðust í stigaganginum
Á meðan hann var í sóttkví á milli skimana virðist hann, að því er Þórólfur sagði á fundinum í gær, hafa smitað tvo nágranna sína, þ.e. fólk sem býr í sama stigagangi í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Ekki er talið að fólkið hafi átt í nánum samskiptum þannig að grunur beinist að því að nágrannarnir hafi smitast í stigaganginum og þá af handriði eða öðrum sameiginlegum snertifleti. Smitrakningarteymið vinnur áfram að því að reyna að komast að því hvar fólkið smitaðist.
Starfsmaður Landspítalans sem sýktist fann einkenni snemma í síðustu viku og fór í sýnatöku og fékk neikvæða niðurstöðu. Hann vinnur á göngudeild smitsjúkdóma, ofnæmis- og lungnasjúkdóma og var þar við störf frá þriðjudegi til fimmtudags.Í frétt RÚV um helgina kom fram að einkenni starfsmannsins hafi haldið áfram að versna. Hann fór svo á tónleika í Hörpu, eins og fyrr segir, á föstudagskvöldið. Á laugardagsmorgninum fór hann aftur í sýnatöku og reyndist þá jákvæður.
Yfir níutíu greinst með breska afbrigðið
Fólk sem sýkist af kórónuveirunni getur verið einkennalaust í nokkra daga áður en veikindi, ef þau á annað borð koma fram, fara að gera vart við sig. Frá því að fólk smitast getur það tekið nokkra daga að koma fram í sýnatöku.
Á fimmtudag í síðustu viku höfðu níutíu einstaklingar greinst með breska afbrigði veirunnar hér á landi, þar af tuttugu innanlands. Allt var það fólk sem hafði tengst þeim sem greinst höfðu á landamærunum nánum böndum. Í síðustu viku hafði auk þess einn greinst með suðurafríska afbrigði á landamærunum.