Um 75 prósent þeirra sem greindust með veiruna innanlands í gær eru bólusett eða 53 af 71. Sextán af þeim sem greindust voru óbólusettir. Á einni viku hafa 116 óbólusettir einstaklingar greinst innanlands. Fram hefur komið að öll tilfellin sem eru að koma upp þessa dagana eru af völdum delta-afbrigðisins sem er mun meira smitandi en þau fyrri.
Rétt rúmlega helmingur þeirra sem greindist í gær var í sóttkví. Samtals eru um 1.800 manns í sóttkví núna og 612 manns með COVID-19 og í einangrun. Mikill meirihluti eða 64 prósent sýktra eru á aldrinum 18-39 ára eða samtals um 400 einstaklingar. 63 börn yngri en átján ára eru sýkt og flest þeirra eða 29 eru á aldrinum 6-12 ára.
Mun færri sýni voru tekin í gær en dagana á undan eða 2.366 samtals innanlands, samanborið við 2.883 á laugardag og 3.964 á föstudag. Mestu munar um fjölda svokallaðra einkennasýna. Þau voru 2.902 á föstudag en 1.567 í gær. Hlutfall jákvæðra einkennasýna af fjölda slíkra sýna sem tekin voru í gær var 3,9 prósent en var 4,6 prósent á laugardag.
Nýgengi innanlandssmita hefur hækkað hratt síðustu daga og er nú komið í 154,3 á hverja 100 þúsund íbúa.
Hertar aðgerðir innanlands tóku gildi á miðnætti á laugardag. Sett voru á fjöldatakmörk að nýju sem og 1 metra nálægðarregla.