Tilkynningar um kynbundna áreitni af hálfu formanns Bandalags háskólamanna eru á meðal fjórtán óformlegra ábendinga sem borist hafa bandalaginu eftir að Friðrik Jónsson tók við sem formaður. Ábendingarnar bárust til fyrirtækisins Auðnast, sem er með þjónustusamning við BHM um úttekt á vinnustaðamenningu. Tilkynningarnar bárust á fimm mánaða tímabili, frá október 2021 fram í febrúar 2022. Samkvæmt gögnum sem Kjarninn hefur undir höndum snýr hluti tilkynninganna að niðrandi ummælum Friðriks í garð kvenna.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans til BHM vegna tilkynninganna segir að ekki sé um formlegar tilkynningar að ræða heldur „óformlegar ábendingar varðandi formann BHM“. Félagið hafi strax gripið til ráðstafana vegna ábendinganna og voru þær til umfjöllunar hjá formannaráði BHM. Friðrik hafði ekki aðkomu að vinnslu málsins. Ekki var talin ástæða til frekari aðgerða en tekin var ákvörðun um „að kanna vinnustaðamenningu á breiðum grunni“. Sú vinna stendur yfir.
BHM getur ekki staðfest að um ábendingar vegna kynbundinnar áreitni sé að ræða en samkvæmt gögnum sem Kjarninn hefur undir höndum er meðal annars um að ræða niðrandi ummæli um konur innan BHM.
BHM „fordæmir kynbundna áreitni“ í stefnu sinni
Starfsmenn Auðnast höfðu samband við tilkynnendur en „eftir samtöl við málsaðila, var mat Auðnast að málin væru þess eðlis að ekki væri líklegt að þau færu í formlegt ferli,“ segir í svari BHM við fyrirspurn Kjarnans. Þá var óháður þriðji aðili fenginn til að fara yfir málið og var niðurstaða þeirrar vinnu að ekki var talið tilefni til aðgerða. „Málinu lauk því í vor,“ segir í svari BHM.
Formannaráði BHM þótti þó eðlilegt viðbragð að „kanna vinnustaðarmenninguna á breiðum grunni.“ Óháður aðili var fenginn til að framkvæma almenna úttekt á vinnustaðamenningu innan BHM og aðildarfélaga bandalagsins. Sú vinna stendur enn yfir.
Í stefnu BHM, sem samþykkt var í febrúar á þessu ári, er sérstaklega tekið fram að atvinnurekendur verði að hlúa vel að þeim mannauði sem býr í starfsfólki með því að tryggja öfluga vinnuvernd og öruggar starfsaðstæður. „BHM fordæmir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi. Vinnustaðir eiga að vera með skýra verkferla þegar kemur að slíkum málum. Óboðleg hegðun á ekki að líðast, “ segir meðal annars í kafla um vinnuvelferðarmál í stefnunni. .
Sem fyrr segir tók Friðrik Jónsson við sem formaður BHM í maí 2021. Hann var kjörinn með 69,5 prósent atkvæða. Í vikunni var greint frá því að Gissur Kolbeinsson hafi verið ráðinn sem framkvæmdastjóri BHM. Í tilkynningu frá bandalaginu þar sem greint er frá ráðningunni segir að Gissur sé „flestum hnútum kunnugur innan BHM“, hafi starfað hjá bandalaginu um árabil, fyrst sem fulltrúi sjóða og sem fjármála- og rekstrarstjóri frá 2015. Þá hafi hann verið skilgreindur sem staðgengill framkvæmdastjóra síðustu tvö ár.
Ekki er greint frá ástæðum starfsloka forvera hans í starfi, Ernu Guðmundsdóttur, sem hefur sinnt starfi framkvæmdastjóra BHM frá 2017 en hún hafði þá gegnt starfi lögmanns BHM í um áratug. Samið var um starfslok hennar í mars en ekki greint sérstaklega frá starfslokum hennar.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa ýmsar breytingar orðið á starfsumhverfi skrifstofu BHM síðan Friðrik tók við formennsku. Auk tilkynninganna 14 sem bárust Auðnast fékk fyrirtækið einnig tölvupóst þar sem sendandi fann sig knúinn til að greina frá hvernig viðkomandi hafi misboðið hvernig formaður bandalagsins talar um konur innan BHM.
Uppfært klukkan 10:41: Í upphaflegu útgáfu fréttarinnar var fullyrt að allar ábendingarnar 14 snúi að kynbundinni áreitni. Athugasemd barst frá BHM þar sem tilgreint er að svo sé ekki. Beðist er velvirðingar á því. Gögn sem Kjarninn hefur undir höndum sýna hins vegar fram á að hluti ábendinganna snýr að kynbundinni áreitni.