Enginn greindist með kórónuveiruna innanlands í gær eftir að fimm höfðu greinst dagana á undan. Tvö virk smit greindust í landamæraskimunum gærdagsins, annað í fyrri skimun en hitt úr þeirri síðari.
194 eru í sóttkví vegna þeirra smita sem greinst hafa síðustu daga. Sautján eru með COVID-19 í einangrun. Mikill fjöldi sýna hefur verið tekinn innanlands síðustu daga. Í gær voru tekin 785 svokölluð einkenna sýni og tæplega 1.600 slík voru tekin daginn áður.
Á þriðja tug manna, sem notuðu tækjasal World Class í Laugum, eftir að í ljós kom að sýktur einstaklingur hafði verið innan þess sóttvarnahólfs. Mest mega 50 manns vera í sama sóttvarnarhólfi í einu og notendur þurfa að skrá sig.
Þá fóru einnig um þrjátíu starfsmenn Hagkaups í Garðabæ í sóttkví eftir að í ljós kom að starfsmaður sem vann við áfyllingu að næturlagi um helgina reyndist smitaður af veirunni.
Að minnsta kosti hluti þeirra smita sem greinst hafa síðustu daga má rekja til farþega sem kom til landsins 26. febrúar. Hann framvísaði neikvæðu COVID-prófi við komuna til landsins og reyndist einnig neikvæður í fyrri landamæraskimun. En í þeirri síðari, um fimm dögum síðar, fór hann í seinni skimun og greindist þá jákvæður og sýktur af hinu breska afbrigði veirunnar sem er meira smitandi en önnur afbrigði.
Um helgina greindust þrír með veiruna innanlands, einn á föstudag og tveir á laugardag. Að minnsta kosti tveir þessara þriggja einstaklinga voru sýktir af breska afbrigðinu og bjuggu í sama fjölbýlishúsi og sá sem kom til landsins 26. febrúar. Ekki er talið að fólkið hafi átt í nánum samskiptum þannig að grunur beinist að því að nágrannarnir hafi smitast í stigaganginum og þá af handriði eða öðrum sameiginlegum snertifleti.
Gestir á tónleikum í Hörpu á föstudagskvöld, sem sýktur einstaklingur sótti, voru meðal þeirra sem boðaðir voru í skimun. Þeim hefur verið boðið að mæta í aðra skimun síðar í vikunni en þekkt er að veiran greinist ekki á PCR-prófi fyrr en nokkrum dögum eftir smit.