Eftir að hafa farið yfir loftslagsmarkmið 146 ríkja heimsins hafa Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) komist að niðurstöðu um að það sé ekki útilokað að halda hlýnun jarðar undir tveimur gráðum árið 2100. Stefnumótunarmarkmið ríkjanna eru til 15 ára; til 2030. Samkvæmt spám verður mannkynið búið að nýta meira en helming „útblástursheimilda“ sinna áður en þessi 15 ár eru liðin.
Skrifstofa loftslagsbreytinga hjá SÞ segir mannkynið þurfa að taka enn stærri skref árið 2030 til að koma í veg fyrir alvarleg áhrif á loftsag jarðar. Ekki verður hægt að koma í veg fyrir eða snúa þeirri þróun við.
„Í fyrsta sinn hefur alheimsátak átt sér stað í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Það styrkir trú okkar á því að hægt verði að ná markmiðinu um hlýnun undir 2°C,“ segir í skýrslu um stefnumótunarmarkmiðin. „Framlög þjóðanna gefa okkur nýja von um að við getum skilið okkur frá hinu versta.“
Í tilkynningu frá loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna segir einnig að þeim mun lengur sem beðið er með að grípa til aðgerða verði erfiðara að grípa inn í. Áætlanir þessara 146 ríkja munu hafa áhrif á 86 prósent útblásturs gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Kýótó-bókunin náði aðeins utan um fjórðung þess sem nú verður rætt á loftslagsráðstefnunni í París í desember.
„Markmiðin geta takmarkað hlýnun jarðar árið 2100 í 2,7 gráður, gangi spár eftir. Það er alls ekki nóg en mun lægra en því sem spáð er án þessara markmiða,“ er haft eftir Christiana Figueres, framkvæmdastjóri loftslagsráðstefnu SÞ, í tilkynningunni.