Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði frammi fyrir þingnefnd í morgun, að efnahagur Bandaríkjanna væri á góðu róli í augnablikinu, að hugsanlega yrði það viðeigandi að hefja vaxtahækkunarferil í desember næstkomandi, með 0,25 prósentustiga hækkun upp í 0,5 prósent.
Vöxtum hefur verið haldið við 0,25 prósent í meira en sjö ár í Bandaríkjunum og því er í vaxandi mæli horft til þess, hvenær Seðlabanki Bandaríkjanna telur vera tilefni til þess að hækka vexti. Það þykir vera skýrt merki um að efnahagurinn hafi náð bata frá fjármálakreppunni sem náði hámarki á árunum 2007 til 2009.
Samkvæmt umfjöllun New York Times, þá greindi Yellen frá því að flest merki frá hagkerfinu væru jákvæð í augnablikinu. Atvinnuleysi mælist ríflega fimm prósent, og hefur ekki verið lægra frá því árið 2008, en hæst fór það upp undir tíu prósent á árunum 2009 og 2010.
Ákvörðunin um hvort vextir verða hækkaðir eða ekki mun þó alltaf byggja á stöðumati á þeim tíma sem ákvörðunin er tekin, og þá í samhengi við gang mála í heimsbúskapnum.