Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur lækkað um 1,8 prósent í dag og er tunnan nú verðlögð á 44,4 Bandaríkjadali. Samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal er líkur taldar á því að verð á olíu geti jafnvel haldið áfram að lækka á næstunni, ekki síst vegna þess að banni við innflutningi á olíu frá Íran til Bandaríkjanna verður brátt að öllu leyti afnumið. Líklegt þykir að það geti aukið enn á offramboð af olíu, sem síðan getur þrýst verði enn meira niður á við.
Vandi er þó um gang mála á þessum mörkuðum að spá, og óvissa um framtíðarhorfur viðvarandi. Flestar spár gera ráð fyrir að olía muni ekki hækka mikið á næstu tólf mánuðum og er það meðal annars rakið til mikils framboðs, og minnkandi eftirspurnar miðað við það sem áður var talið í stórum hagkerfum, meðal annars í Kína. Greinendur hjá Goldman Sachs bankanum spá því að verðið geti farið niður í allt að 20 Bandaríkjadali, en til samanburðar má nefna að fyrir rúmlega ári var verðið 110 Bandaríkjadalir.
Lækkun olíuverðsins á undanförnu ári hefur komið illa við mörg ríki sem byggja efnahag sinn á olíuviðskiptum, meðal annars Rússland, Noreg og Brasilíu.
Lækkunin kemur sér hins vegar vel fyrir neytendur hér á landi, sem borga minna fyrir olíuna, og þá hefur lækkunin haldið aftur af verðbólgu að mati Seðlabanka Íslands. Bensínlítrinn hefur lækkað um tæplega 55 krónur á undanförnum 15 mánuðum. Í júlí í fyrra kostaði lítrinn 251,5 krónur en um þessar mundir er verðið lægst í kringum 195 krónur.