Kína er formlega orðið stærsta viðskiptaland Bandaríkjanna. Kanada hefur lengi verið stærsta viðskiptaland Bandaríkjanna, enda efnahagur nágrannaríkisins í Norður-Ameríku um margt samofinn inn- og útflutningi til Bandaríkjanna. Nú hefur staðan breyst og Kína fór upp fyrir Kanada á þessu ári.
Ástæðan fyrir þessum breytingum er ekki síst lágt olíuverð, en Kanada sér Bandaríkjunum fyrir miklu magni af olíu. Meðalverð á heimsmörkuðum á hráolíu hefur lækkað úr 110 Bandaríkjadölum á tunnuna niður í um 44 Bandaríkjadali nú, sé mið tekið af upplýsingum Wall Street Journal um gang mála á olíumörkuðum.
Heildarumfang viðskipta milli Kanada og Bandaríkjanna, það er inn- og útflutningur, hefur verið á milli 500 til 600 milljarðar Bandaríkjadala árlega að meðaltali á síðustu tíu árum, en er nú komið niður í rúmlega 400 milljarða. Á sama tíma hafa viðskipti Bandaríkjanna við Kína verið að aukast jafnt og þétt. Þau voru í kringum 480 milljarðar Bandaríkjadala árið 2013, en eru nú í kringum 430 milljarðar, samkvæmt upplýsingum sem Quartz tók saman.
Til samanburðar má nefna þá nemur árleg landsframleiðsla Íslands um tvö þúsund milljörðum króna. Umfang vöruviðskipta Bandaríkjanna og Kína er um 55 þúsund milljarðar, eða sem nemur um 28 faldri árlegri landsframleiðslu Íslands.