Um 92 prósent þeirra hagfræðingar sem Wall Street Journal spurði álits á því, hvort Seðlabanki Bandaríkjanna muni hefja hækkunarferli á stýrivöxtum í desember, telja að bankinn muni gera það. Þar með mun ljúka rúmlega sjö ára tímabili þar sem bankinn hefur haldið stýrivöxtum nálægt núlli, eða í 0,25 prósentum.
Ekkert er þó gefið í þessum efnum, þar sem Seðlabankinn hefur allt þetta ár gefið vísbendingar um að hækkun á vöxtum sé framundan, án þess að nefna nákvæmlega hvenær hækkunarferlið geti hafist.
Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hefur sagt að bankinn þurfi að horfa til margra þátta þegar metið er hvenær rétt sé að hækka vexti. Staða efnahagsmála í Bandaríkjunum hefur farið batnandi á undanförnum misserum, en atvinnuleysi er komið niður í fimm prósent og útlit er fyrir að hagvöxtur verði á milli tvö til þrjú prósent.
Það er helst þróun mála á alþjóðamörkuðum sem hefur gert ákvörðun um tímasetningu vaxtahækkunar snúna. Þannig hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvatt seðlabankanum til þess að horfa vel til aðstæðna á heimsmörkuðum þegar tímasetning vaxtahækkunar er ákveðin.
Mörg ríki, ekki síst þau sem eiga mikið undir útflutningi á olíu og ýmsum hrávörum, súpa nú seyðið af mikilli verðlækkun á mörkuðum. Þannig hefur heimsmarkaðsverð á olíu lækkað um tæplega 60 prósent á um tólf mánuðum, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á efnahag landa sem eiga mikið undir olíugeiranum. Það eru meðal annars ríki eins og Rússland, Noregur, Brasilía og Nígería.