Verð á hráolíu (Crude oil) hefur lækkað nokkuð undanfarna daga og er nú komið niður í um 40 Bandaríkjadali á tunnuna, miðað við gang mála á Bandaríkjamarkaði samkvæmt markaðsupplýsingum sem Wall Street Journal tekur saman. Á síðustu tveimur mánuðum hefur það sveiflast á milli 45 og 50 Bandaríkjadala.
Verðið hefur nú lækkað úr 110 Bandaríkjadölum niður í 40 á rúmlega fjórtán mánuðum, og hefur þessi hraða verðlækkun nú þegar haft alvarlega efnahagsleg áhrif á mörg ríki þar sem olíuviðskipti eru mikil að umfangi og margfeldisáhrif á ýmsa þjónustu fyrir hendi. Má þar nefna Noreg, Rússland, Brasilíu og Nígeríu, en staða mála hefur breyst verulega til hins verra í þessum löndum á skömmum tíma.
Lækkun olíuverðs hefur áhrif
Norðmenn eru þó með sterkar stoðir í sínu hagkerfi, en eins og greint var frá í ítarlegri fréttaskýringu á vef Kjarnans á dögunum, er mikil verðlækkun á olíu ekki farin að hafa mikil neikvæð áhrif á gang efnahagsmála enn sem komið er, en búist er við því að þau komi fram eftir því sem líða tekur á þetta ár, ef verðið á olíunni hækkar ekki. Sérstaklega á þetta við um Rogaland, þar sem Stavanger er stærsta borgin. Á því svæði eru olíuframleiðsla og ýmis þjónusta í kringum olíuiðnað, langsamlega stærsti atvinnuvegurinn, en Statoil er með höfuðstöðvar sínar í Stavanger. Í Rogalandi, það er Stavanger og nágrannasveitarfélögum, búa um sex þúsund Íslendingar en samtals er rúmlega tíu þúsund Íslendingar búsettir í Noregi um þessar mundir.
Áhyggjur fjárfesta af gangi mála í Japan
Samhliða lækkun olíuverðs á heimsmarkaði, hefur gangur efnahagsmála í Japan valdið fjárfestum nokkrum áhyggjum, samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal. Annan ársfjórðunginn í röð hefur samdráttur verið í hagkerfinu, og virðast örvunaraðgerðir sem ríkisstjórn Shinzo Abe forsætisráðherra greip til í byrjun ársins, ekki vera að hafa mikil áhrif á ganga mála til hins betra, í það minnsta ekki enn sem komið er. Japanska hagkerfið er það þriðja stærsta í heiminum, á eftir Kína og Bandaríkjunum, og skiptir gangur efnahagsmála í landinu miklu máli fyrir Asíumarkað. Abe forsætisráðherra hefur sagt, að áætlun hans um aukinn vöxt og meiri þrótt í hagkerfinu sé enn í gildi, og vonir standi til þess að hagtölurnar batni á næstu misserum.