Tölvuleikurinn Gunjack frá íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu CCP kemur út í dag en það er fyrsti tölvuleikur CCP sem krefst þess að spilarinn noti sýndarveruleikabúnað til að spila. Leikurinn gerist í EVE-heiminum þar sem EVE Online tölvuleikurinn gerist líka en það er langvinsælasti tölvuleikur CCP. Frá þessu var greint í fréttatilkynningu í morgun.
Notast verður við Samsung Gear VR-búnaðinn til að spila leikinn. Samsung-snjallsíma af sérstakri gerð er komið fyrir í gleraugum sem notandinn ber svo á hausnum á sér auk heyrnatóla. Með hverri hreyfingu spilarans birtist ný mynd á skjánum svo það er eins og hann sé raunverulega staddur á fjarlægri plánetu að berjast við vélmenni.
„Sýndarveruleiki mun skipa stóran sess í afþreygingariðnaði framtíðarinnar,“ lætur Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, hafa eftir sér í fréttatilkynningunni. Hann segir leikinn því marka ákveðin tímamót í sögu fyrirtækisins.
Gunjack var að mestu þróaður í Shangai þar sem CCP er með starfstöð. Framleiðslustjóri leiksins, Jean-Charles Gaudechon, segir markmiðið hafa verið að ná því besta út úr þessari nýju tækni sýndarveruleikans. „Við þróun leiksins reyndum við að nýta þessa nýju tækni til hins ýtrasta þannig að spilari leiksins fari í annan heim þegar hann setur á sig Gear VR-búnaðinn,“ er haft eftir Caudechon.
Fleiri fyrirtæki og samtök hafa reynt sýndarveruleikann til að færa það sem áður virtist óraunverulegt að vitum fólks. Má þar nefna UNICEF á Íslandi sem færði fólk í flóttamannabúðir í Jórdaníu með sama búnaði. Möguleikar tækisins eru því miklir, bæði í heimi afþreygingar og upplýsingamiðlun.