Gestum íslenskra safna, og skyldrar starfsemi, fjölgaði um ríflega 400 þúsund í fyrra. Gestafjöldin var alls um 2,1 milljón á árinu sem er það mesta sem hann hefur nokkru sinni verið. Þetta kemur fram í nýrri frétt frá Hagstofu Íslands.
Þar segir að gestum safna og skyldrar starfsemi hafi fjölgað á hverju ári frá síðustu aldarmótum eftir að hafa staðið í stað á seinni hluta síðasta áratugar 20. aldar. Rúmlega 60 prósent gestanna sem heimsótti söfn á síðasta ári heimsóttu slík á höfuðborgarsvæðinu, eða alls 1,3 milljónir manns.
Næstflestir, um 250 þúsund manns, heimsóttu söfn og skylda starfsemi á Suðurlandi og um 150 þúsund á Vestfjörðum. Aðrir landshlutar voru með færri gesti.
Flestir heimsóttu sögusöfn og –sýningar, eða sex af hverjum tíu. Tveir af hverjum tíu gestum heimsótti listasöfn eða sýningar.
Tölur Hagstofunnar um starfsemi safna og skyldrar starfsemi taka til safna, setra, safnvísa, fiskasafna, dýragarða og grasagarða, sem og skyldra sýninga opnum almenningi sem veita upplýsingar um árlegan fjölda gesta.
Helst ekki í hendur við aukin fjölda ferðamanna
Hin mikla aukning á aðsókn á söfn á sér eðlilega stoð í stórauknum fjölda ferðamanna. Á fyrstu tíu mánuðum ársins 2015 komu til að mynda 1,1 milljón ferðamanna til Íslands, eða fleiri en komu hingað allt árið 2014. Miðað við spár má ætla að ferðamenn verði um milljón fleiri í ár en þeir voru á aldarmótarárinu 2000, eða rúmlega fjórum sinnum fleiri.
Árið 2000 voru íslenskir safnagestir 918 þúsund talsins, eða um 43 prósent af því sem þeir voru í fyrra. Af þeim tölum má sjá að aukning á fjölda safnagesta helst ekki alfarið í hendur á auknum fjölda ferðamanna.