George Osborne, fjármálaráðherra Breta, tilkynnti í dag að Bretland muni gefa allar skatttekjur vegna skatts sem lagður er á túrtappa og dömubindi til góðgerðarmála í þágu kvenna. Þetta kom fram í ræðu sem hann flutti í dag um framgang fjárhagsáætlunar ríkisstjórnar Íhaldsflokksins. Um er að ræða 15 milljónir punda á ári, eða um þrjá milljarða króna. Frá þessu er greint á vef Business Insider.
Samkvæmt Evrópureglum verður að leggja að minnsta kosti fimm prósent virðisaukaskatt á ýmsar hreinlætisvörur, meðal annars túrtappa og dömubindi, þar sem þær teljast vera lúxus-vörur. Alls hafa um þrjú hundruð þúsund manns í Bretlandi skrifað undir áskorun á stjórnvöld að afnema slíkan skatt.
Ríkisstjórn Verkamannaflokksins lækkaði skattinn úr 17,5 prósent í fimm prósent árið 2000 en gat ekki lækkað hann meira vegna reglna Evrópusambandsins. Osborne sagði að ríkisstjórnin ætlaði áfram sem áður að þrýsta á Evrópusambandið að afleggja þann fimm prósent skatt sem enn er á vörunum en þangað til að það bæri árangur myndi ríkið gefa allar tekjur sem skatturinn skilaði til góðgerðarmála í þágu kvenna.
„Hvers vegna er verið að skattleggja á mér legið?“
Dömubindi og túrtappar voru til umræðu á Alþingi Íslendinga í síðustu viku þegar Heiða Kristín Helgadóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hvort unnið væri að því að lækka virðisaukaskatt á þær vörur. Heiða Kristín spurði: „Hvers vegna er verið að skattleggja á mér legið?“.
Í ræðu sinni vakti Heiða Kristín athygli á því að virðisaukaskattur á smokka, bleiur og bleiufóður hafi verið lækkaður í aðgerðum fjármála- og efnahagsráðherra þar sem vörugjöld voru afnumin og virðisaukaskattur á ýmsar vörur lækkaður. Virðisaukaskattur á dömubindi og túrtapa hafi hins vegar verið látinn vera áfram 24 prósent.
Bjarni sagði í svari sínu að breytingarnar á virðisaukaskattskerfinu hafi verið ætlaðar að létta barnafjölskyldum innkaup.