Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, segir ekki útilokað að votlendi verði ræst fram með skurðum í framtíðinni ef það verði til þess að búa til betri tún. Rætt er við Sigrúnu í Þukli í Hlaðvarpi Kjarnans um áætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem kynnt var í dag.
„Það var gríðarlegur árangur sem fólst í því að ræsa fram land og þurrka. Það gerði bara mikið betri tún víða,“ segir Sigrún þegar hún var spurð um áætlun ríkisstjórnarinnar og möguleika Íslands til að standa við markmið sín um 40 prósent minni losun árið 2030 miðað við 1990. „En ég vil heldur ekki, bara af því að ég er umhverfisráðherra, þá sé ég ekki hversvegna við reynum ekki ennþá að ræsa fram land í einhverjum tilfellum til þess að búa til betri býli.“
„En við getum gert margt og við erum farin að hefjast handa, og bændur eru bara mjög tilbúnir í það. Fljótlega munum við vinna ákveðinn vegvísi með bændasamtökunum, af frumkvæði þeirra,“ segir Sigrún.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, skrifar á vef samtakanna í dag um áætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þar er bent á að fjögur ár séu liðin síðan Ísland hafi fengið endurheimt votlendis viðurkennda sem mótvægisaðgerð hjá Sameinuðu þjóðunum en að ekkert hafi enn gerst. „Það er fyrst næsta sumar sem eitthvað á að gera í málinu. Hver á svo að borga brúsann? Skattgreiðendur eða þeir sem menga?
Sigrún segir að í umhverfisráðuneytinu hafi verið settur af saman starfshópur um votlendið. Hún telur einfaldast að hefja endurheimt votlendisins á ríkisjörðum sem ekki eru í búsetu. „Það er náttúrlega eðlilegt að þar sem ekki er verið að nýta jarðir þá er eðlilegt að endurheimta votlendið þar. Það er hugað að þessu allstaðar. Það plan mun líta dagsins ljós á næsta ári.“
Á vef umhverfisráðuneytisins má lesa að um 40 prósent votlendis hafi verið framræst til að auka framleiðni í landbúnaði á seinni hluta 20. aldarinnar. Talið er að grafnir hafi verið 32 þúsund kílómetrar af skurðum og að framræst votlendi nemi 3.900 ferkílómetrum.
Í fréttaskýringu Kjarnans í morgun er fjallað um sóknaráætlunina. Hún er ekki útfærð heludr byggir að mestu á markmiðum, vegvísum og ómótuðum hugmyndum. Ekki er tilgreint hversu mikið áætlunin á að kosta og ekki er minnst einu orði á stóriðju í sóknaráætluninni, en stærstur hluti endurnýjanlegrar orku Íslands fer til stríkrar auk þess sem fjölmörg orkufrek stóriðjuverkefni eru í pípunum eða framkvæmdir við uppbyggingu þeirra þegar hafnar.
Þá er ekkert talað um sértækar aðgerðir um losun gróðurhúslofttegunda í þéttbýli, til dæmis með auknum ríkisstyrkjum til uppbyggingar almenningssamgangna og þéttingu byggðar, sem er til þess fallin að draga úr losun vegna samgangna.